Leiðtogar Petteri Orpo, Mette Frederiksen, Ulf Kristersson, Selenskí, Bjarni Benediktsson og Jonas Gahr Støre.
Leiðtogar Petteri Orpo, Mette Frederiksen, Ulf Kristersson, Selenskí, Bjarni Benediktsson og Jonas Gahr Støre. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var hvasst, kalt og vott á Þingvöllum þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseta bar að garði síðdegis í gær. Hann steig út úr bíl sínum, snaraðist úr jakkanum og arkaði í gegnum suddann að Þingvallabænum, þar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók á móti gestinum

Andrés Magnússon

Iðunn Andrésdóttir

Það var hvasst, kalt og vott á Þingvöllum þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseta bar að garði síðdegis í gær. Hann steig út úr bíl sínum, snaraðist úr jakkanum og arkaði í gegnum suddann að Þingvallabænum, þar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók á móti gestinum.

Bjarni bauð Selenskí velkominn á ensku og sagði nokkur orð um fundarstaðinn, helgi Þingvalla í huga Íslendinga og merkingu þeirra fyrir sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Úkraínumenn stæðu í sams konar baráttu við óvæginn innrásarher, þeir berðust fyrir frelsi lands síns, framtíð barna sinna og sjálfstæði, en einnig virðingu fyrir alþjóðalögum.

Selenskí þakkaði fyrir sig og sagði Úkraínumenn kunna að meta vináttu og stuðning Íslendinga allt frá upphafi stríðsins. Vörn landsins væri vonlaus án öflugs stuðnings vestrænna ríkja og fyrir það væru þeir þakklátir. Meira þyrfti þó til svo Pútín yrði stöðvaður og hann væri hingað kominn til þess að ræða það við leiðtoga norrænu ríkjanna.

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði forsetann hvort hann hefði skilaboð að færa íslensku þjóðinni og hann sagði þau einföld.

„Við erum þakklát íslensku þjóðinni,“ sagði Selenskí og bætti við:

„Við óskum ykkur friðar. Ég held að stærsta gildi sem fólk getur haft sé friður. Auðvitað líka lýðræði og frelsi. Frelsi er gífurlega mikilvægt. Það er það sem ég óska ykkur.“

Að þeim orðum sögðum héldu þeir Selenskí og Bjarni inn í Þingvallabæinn, þar sem þeir áttu tæplega klukkustundarlangar viðræður.

Samstaða Norðurlanda með Úkraínu

Síðan héldu þeir upp í Gestastofuna á Hakinu og biðu þar eftir öðrum forsætisráðherrum Norðurlanda, þeim Jonas Gahr Støre frá Noregi, Mette Frederiksen frá Danmörku, Petteri Orpo frá Finnlandi og Ulf Kristersson frá Svíþjóð. Þar var haldinn sameiginlegur blaðamannafundur og meginefnið var stuðningur Norðurlanda við Úkraínu.

Bjarni sagði það þýðingarmikið að þjóðarleiðtogarnir kæmu saman þar sem þjóðarsál, sjálfstæði og lýðræði Íslands hefðu fæðst forðum til að ræða sjálfstæðisbaráttu Úkraínu.

Selenskí tók upp þann þráð og kvaðst afar þakklátur norrænu vinaþjóðunum. Hann þakkaði Bjarna sérstaklega fyrir skipulagningu fundarins og íslensku þjóðinni fyrir einurð sína í virðingu á alþjóðalögum.

Úkraínuforseti sagði að hann og forsætisráðherrarnir hefðu sammælst um norrænan stuðning við svokallaða Siguráætlun til að þrýsta Rússlandi í átt til friðar. Honum þætti miður að heyra af efasemdum um áætlunina meðal bandamanna Úkraínu, sem sumir væru hikandi við að fara gegn Rússlandi af ótta við afleiðingarnar.

NATO-aðild til umræðu

„Að veita Úkraínu aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) myndi styrkja samstöðu okkar og sýna Rússlandi að það eru ekki aðrir kostir en friður,“ sagði forsetinn og lauk ræðu sinni með orðunum: „Slava Ukraini“ eða „dýrð sé Úkraínu“.

Allir lýstu ráðherrarnir yfir áframhaldandi og auknum stuðningi við Úkraínumenn í baráttunni gegn innrás Rússa.

Frederiksen sagði gott að vera samankomin í góðra vina hópi þar sem allir óskuðu þess að Úkraína ynni stríðið. Öll væru þau sammála um að Úkraína ætti heima í NATO.

Aukið samstarf á milli Rússlands, Norður-Kóreu og Írans væri mikið áhyggjuefni fyrir stöðuna í Úkraínu sem og alþjóðaöryggi, sem stæði frammi fyrir nýju og breyttu landslagi. Framtíð Evrópu ylti á stríðinu.

„Við verðum líka að horfast í augu við raunveruleikann. Ég held ekki að Rússland hefði getað haldið úti stríði í Úkraínu í tvö og hálft ár án aðstoðar Kína,“ sagði Frederiksen.

Að hennar mati yrði stuðningur Danmerkur best sýndur með áframhaldandi stuðningi við vopnaframleiðslu Úkraínumanna enda ynnu þeir „hraðar, betur og ódýrar“ við að framleiða eigin vopn.

Kvaðst Støre einnig vilja ítreka samstöðu Noregs með Úkraínu með 500 milljóna evra aðstoð, sem norska þingið myndi fjalla um innan skamms. Þar af myndu 350 milljónir renna til loftvarna í samstarfi við frændur þeirra í Danmörku.

Ulf Kristersson tilkynnti á fundinum að Svíþjóð hygðist veita 43 milljónir evra aukalega til Úkraínu. Úkraínumenn stæðu ekki einungis vörð um eigið frelsi af miklu hugrekki, því með því væru þeir fremstir í vörn frelsis Norðurlandanna og annarra Evrópuþjóða gegn vopnaglamri Pútíns.

„Við munum standa þétt við bakið á Úkraínu eins lengi og þörf krefur.“

Höf.: Andrés Magnússon