Andrés Magnússon
Iðunn Andrésdóttir
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti kom til Íslands í gær og hélt rakleiðis til Þingvalla, þar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók á móti honum. Þeir gengu til um klukkustundar langs fundar í Þingvallabænum, en sögðu nokkur orð við blaðamenn á hlaðinu.
„Ég óska ykkur friðar,“ svaraði Selenskí alvörugefinn þegar Morgunblaðið spurði hvaða skilaboð hann vildi flytja Íslendingum.
„Ég held að stærsta gildi sem fólk getur haft sé friður. Auðvitað líka lýðræði og frelsi. Frelsi er gífurlega mikilvægt. Það er það sem ég óska ykkur.“
Ræddu frekari stuðning við Úkraínu
Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvað þeim Bjarna og Selenskí fór á milli á fundi þeirra, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ræddu þeir einkum um stuðning Íslands og annarra Norðurlandaþjóða við Úkraínu; diplómatískan, fjárhagslegan og hernaðarlegan. Jafnframt þakkaði hann kærlega fyrir boðið til Íslands og kvaðst bera mikla virðingu fyrir landi og þjóð.
Selenskí er hingað kominn til þess að taka þátt í fjórða leiðtogafundi Norðurlandanna og Úkraínu, samhliða Norðurlandaráðsþingi.
Leiðtogar streymdu til Þingvalla
Að fundi þeirra Selenskí og Bjarna loknum héldu þeir upp á Hakið, en þar tók Bjarni á móti öðrum forsætisráðherrum Norðurlanda, þeim Jonas Gahr Støre frá Noregi, Mette Frederiksen frá Danmörku, Petteri Orpo frá Finnlandi og Ulf Kristersson frá Svíþjóð. Leiðtogarnir sátu fyrir svörum þar og ítrekuðu óbilandi stuðning Norðurlanda við baráttu Úkraínu fyrir frelsi sínu. Að því loknu bauð Bjarni þeim til óformlegs kvöldverðar í Þingvallabænum.
Úkraínuforseti fer til fundar við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum í dag, en mun einnig ávarpa Norðurlandaráðsþing. Hann heldur af landinu síðdegis.