Tryggvi Kristjánsson fæddist 28. september 1936. Hann lést 17. september 2024. Útför Tryggva fór fram 7. október 2024.
Minningar sem komu upp í hugann á morgni útfarardags Tryggva Kristjánssonar.
Í dag í dásamlegu veðri haustsins er borinn til grafar okkar kæri vinur Tryggvi Kristjánsson. Ég verð að kveðja hann með fáum og fátæklegum orðum. Þakka fyrir allt. Að kynnast manni eins og Tryggva var að vinna í happdrætti lífsins. Elskulegur vinur og fyrrverandi nágranni, tryggur og traustur sem bjarg alla tíð. Nú er komið að kveðjustund. En sem betur fer eigum við hjónin margar góðar minningar um Tryggva. Ungur giftist hann æskuvinkonu minni henni Björk og um sama leyti giftist ég mínum eiginmanni. Við byrjuðum búskapinn öll ung og ástfangin og nokkur ár bjuggum við í tveimur litlum íbúðum uppi í risi á Miðstræti 8a. Þetta voru svona pínulitlar íbúðir og sameiginlegt bað og salerni frammi á gangi. En samkomulagið var gott og margt var brallað og skemmt sér við.
Tryggvi var hrekkjalómur af allra bestu gerð. Hann vissi að ég var myrkfælin og notaði sér það stundum. Einu sinni var ég ein heima með elsta son minn í vöggu í litlu íbúðinni minni og var búin að koma mér fyrir í sófa með bakið við gluggann, þar var öruggast! Sat þarna og hlustaði á alls konar hljóð eins og heyrast í gömlu timburhúsi. Alls konar draugasögur fóru í gegn um hugann og ég ákvað að ansa ekki þessum hljóðum og alls ekki fara til dyra. En hljóðin mögnuðust og ég hugsaði að þó að ég hrykki upp af yrði ég að athuga hvað væri að gerast þarna frammi á litla ganginum. Svo ég fór til dyra og opnaði. Átti ekki von á neinum. En þar stóð Tryggvi og skellihló framan í mig. Mér varð svo hverft við að ég öskraði eins hátt og lungun leyfðu framan í gestinn. Honum brá auðvitað og var næstum dottinn aftur á bak niður stigann. Enda ekki góðar móttökur! En svo kom hann inn og fór ekki fyrr en maðurinn minn hann Gústi kom heim.
Einu sinni fórum við Björk, Tryggvi og vinkona okkar Sigrún Steinsdóttir saman í fjallgöngu. Þetta var falleg vornótt og við vorum að koma af balli eða kannski vorum við á rúntinum fræga og veiddar upp í fína bílinn hans Tryggva. Þá fengum við þessa fínu hugmynd að ganga á Úlfarsfell. Við stelpurnar í sparikjólunum okkar, nælonsokkum og háum hælum. Ferðin upp gekk vel, en verra var að klöngrast niður á háhæluðum dansskónum svo Tryggvi mátti hálfbera vinkonur sínar niður fellið. Án hjálparsveitar lauk hann þessu með glans.
Það eru svo margar minningar úr Miðstrætinu með Björk og Tryggva. Og allar góðar og skemmtilegar. Eins og þegar Tryggvi hellti úr fullu vaskafati út um eldhúsgluggann hjá mér til að hræða kött sem sat á tröppunum í makindum en einmitt þá átti Haukur Harðar leið í heimsókn og fékk alla gusuna yfir sig. Þá var nú hlegið uppi í risinu!
Þau Björk og Tryggvi hafa verið dugleg að hlúa að myndarlegu fjölskyldunni sinni. Þrír frábærir synir, sem hafa komið sér vel áfram í lífinu. Húsið í Deildarásnum er sannkallað fjölskylduhús, þar sem allir eru velkomnir. Meðlimir fjölskyldunnar og allir aðrir geta rekið inn nefið hvenær sem er. Alltaf heitt á könnunni og gott spjall.
Elsku fallega og stóra fjölskylda, elsku Björk. Hugheilar samúðarkveðjur frá okkur Gústa vegna fráfalls Tryggva. Við vinir hans kveðjum hann með söknuði og óskum honum góðrar ferðar inn í sumarlandið sem bíður okkar allra.
Margrét (Magga).