Erlendur Friðriksson fæddist 17. apríl 1953. Hann lést 7. september 2024.
Útför Erlends fór fram 23. september 2024.
Það var erfitt að trúa því að kær bróðir minn og vinur væri látinn eftir erfið veikindi. Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma eftir erfiða hjartaaðgerð í Svíþjóð fyrir tveimur árum að heilsufar Linda átti á brattann að sækja. Í daglegum símtölum okkar fann ég vel fyrir þeirri von bróður míns að heilsan færi að taka við sér og hann endurheimti orku og þrek. En þrátt fyrir góðar vonir og væntingar náði heilsa hans ekki að tryggja honum þau lífsgæði sem Lindi sóttist eftir.
Lindi var yngstur okkar bræðra frá Fagurhlíð í Sandgerði, þar sem lífið var leikur og mikið fjör á líflegu heimili. Prakkarastrik og hvers konar fíflagangur var það sem allt snerist um og hefðbundna leiki á bryggjunni og uppi í heiði. Í heiðina sóttum við siginn fisk í hjalla þegar það vantaði í soðið. Við erum alin upp á fiski og reglulega höfum við systkin frá Fagurhlíð borðað saman skötu og saltfisk.
Ég hef nýlega gefið út lífssögu mína og fékk þar tækifæri til að rifja upp æsku okkar í Sandgerði og ótrúleg uppeldisár. Þar eru bræður mínir stór hluti af skrautlegu lífi sem var svo algengt að ungir drengir í sjávarbyggðum tækju þátt í. Það rataði í fjölmiðla þegar Sæmi og Lindi ásamt fleiri drengjum fundu sprengju eftir Kanann í heiðinni skammt frá heimili okkar í Fagurhlíð. Það endaði með miklum hvelli og hörmulegum afleiðingum. Sæmi bróðir missti fingur og kinnin tættist af andlitinu á Linda og hann lá vikum saman á sjúkrahúsi, hálfheyrnarlaus og –blindur. Þær voru oft hættulegar aðstæður ólátabelgjanna í Fagurhlíð eins og lesa má í ótrúlegri sögu minni.
Lindi var níu ára gamall þegar hann fór í sveit í Kaldártungu í Vatnsdal og var þar í nokkur ár, sumar og vetur. Honum líkaði svo lífið í sveitinni svo vel að síðar sótti hann nám í Bændaskólanum á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Hann ætlaði sér að verða bóndi en af því varð ekki. Á þeim árum reyndi ég að fá hann til að koma með mér á sjó, en sjómennska átti ekki við Linda bróður, en bílar og hjól stóðu honum nærri.
En það var stór áfangi fyrir okkur Linda þegar hann fékk bílprófið. Þá vantaði mig alltaf bílstjóra til að harka með sjóarann alla daga og helgar þegar ég var í landi, sem var reyndar ekki oft. Þá fékk Lindi að keyra fína bíla sem ég átti og hvergi var dregið af við aksturinn. Jafnvel þegar ég fór að kaupa mér ný föt hjá Gulla í Karnabæ keypti ég nýjan galla á bílstjórann því hann varð að vera almennilegur til fara eins og eigandi bílsins.
Lindi bróðir fór varlega í fjármálum, hann var ungur maður kominn í rekstur með kaupum á dekkjaverkstæði sem hann og félagi hans ráku í nokkur ár í Keflavík. Eftir það var hann lengi að vinna á vörubíl, en lengst af keyrði Lindi leigubíl og stundaði leigubílaakstur til dauðadags.
Ég er þakklátur kærum bróður fyrir skemmtilega lífsgöngu sem er vörðuð góðum minningum okkar og prakkaraskap. Nú harkar Lindi með himinskautum eins og í gamla daga og minningarnar um góðan dreng hrannast upp. Á kveðjustund votta ég sambýliskonu Linda og börnum hans mína dýpstu samúð.
Sigurður (Diddi).