Valdís Ingibjörg Jónsdóttir
Valdís Ingibjörg Jónsdóttir
Kennurum er ætlað að nota rödd sína í vinnuumhverfi sem setur munnlega kennslu í uppnám og ætlað að skila árangri.

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir

Ég vil koma hér fram með nokkuð sem ég tel að vanti í umræðuna um réttindi kennara, en sem þarf að koma fram að mínu viti. Sjálf er ég í grunninn grunnskólakennari og þekki því þetta starf. En ég er líka raddmeinafræðingur og þekki því starfið út frá þeirri hlið ansi vel. Sú hlið er dökk því til mín leita kennarar þegar röddin er komin í þrot. Eftir 20 ára starf sem talmeinafræðingur úti í skólunum veit ég að það er aðeins blátoppurinn á ísjakanum.

Skert lífsgæði

Fjöldi kennara hefur siglt með röddina í þrot en leitar sér ekki hjálpar. Það er sorglegt ef fólk tekur því sem sjálfsögðum hlut að fórnarkostnaður starfsins sé að missa röddina þannig að það geti ekki sungið lengur, sé með tímabundinn raddmissi og minnkað raddþol, m.ö.o. skert lífsgæði. Það er hollt að muna að við erum að missa góða kennara úr starfi af þessum orsökum. Enn hef ég ekki séð þessa hlið á starfinu rædda í þessari réttindabaráttu kennara þó sú umræða sé löngu tímabær. Reynslan hérlendis sem erlendis sýnir að raddheilsa kennara er í mikilli hættu vegna eðlis starfsins og kringumstæðna.

Samanburður á stéttum

Það er vinsælt að bera saman kaup og kjör hjúkrunarfræðinga og kennara. Í erlendum samanburðarrannsóknum á raddheilsu þessara stétta kemur marktækt fram hversu raddheilsa kennara er mun slakari en raddheilsa hjúkrunarfræðinga. Hvers vegna? Vegna þess að röddin er atvinnutæki kennara sem þeir þurfa að nota óvarða og ótryggða í starfi, oft við kringumstæður sem skaða hana. Það er ekki nóg að hafa góða hljóðvist ef hávaðinn fer yfir öll mörk og kemur í veg fyrir skilvirka kennslu. Það þarf að taka á þessu vandamáli í réttindabaráttu kennara. Sjálfsagt má kenna um bæði andvaraleysi og þekkingarleysi.

Leyfilegur hávaði

Samkvæmt lögum er hávaði í skólum og hávaði í verksmiðjum lagður að jöfnu, sbr. að það má vera 80 dB hávaði að jafnaði yfir 8 tíma vinnudag í skólum. Hins vegar eru til lög sem gilda um leyfilegan hávaða á „skrifstofum og öðrum þeim stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað“. Þar skal leitast við að hávaði fari ekki yfir 50 dB(A) að jafnaði á vinnutíma“ – ekki orð um skóla þótt engum blandist hugur um hvers konar starfsemi á að fara þar fram. En með þessari reglugerð er viðurkennt að 80dB hávaði að meðaltali er alltof mikill hávaði fyrir tjáskipti. Samt er kennurum gert að starfa árangursríkt í hávaðanum, auk þess alltof oft í of mikilli fjarlægð frá nemendum.

Tvö lögmál

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að líta til tveggja lögmála sem ráða ríkjum, Lombard-lögmálsins og tvíveldislögmálsins (e. inverse square law). Samkvæmt Lombard-lögmálinu hækkum við röddina í ákveðnu hlutfalli við aukinn hávaða, sem þýðir í raun að kennarar yfirspenna það kerfi sem framleiðir röddina því að vitaskuld liggur líkamsstarfsemi þar á bak við. Hins vegar samkvæmt tvíveldislögmálinu dofnar hljóð í ákveðnu hlutfalli við vaxandi fjarlægð frá uppruna þess, m.ö.o. hljóð dofnar með vaxandi fjarlægð milli hlustanda og þess sem talar og drukknar í hávaða, sem þýðir að hætta er á að nemendur heyri ekki til kennarans og kennarinn ofreyni raddkerfið.

Vinnuvernd fyrir rödd

Við skulum koma að þriðja atriðinu – röddinni. Röddin er hljóð sem glymur í eigin höfði og því getur enginn dæmt um hvernig hún berst eða hvernig hún fer í aðra. Kennurum stendur ekki einu sinni til boða fræðsla um rödd eða raddheilsu þó þetta sé atvinnutæki. Ég veit ekki betur en það þurfi sérstaka fræðslu til að fá að vinna með vélar. Það er einnig merkilegt að enn skuli ekki gilda nein vinnuvernd fyrir þá sem leigja út röddina sem atvinnutæki. Sennilega sama þekkingar- og andvaraleysið því að væri þarna vitneskja á ferðinni þá væri raddheilsa komin undir lýðheilsu eins og hvert annað heilsufar og þar með komin undir vernd. Einhvern tíma voru ekki til öryggisgleraugu, öryggishjálmar, hlífðarföt og heyrnarhlífar. Í dag er lögskylt að nota þetta við heilsuspillandi aðstæður.

Raddheilsa í hættu

Hvers vegna í ósköpunum er ætlast til þess að kennarar noti rödd sína í umhverfi sem setur hana beinlínis í hættu? Ekki er nóg með það, heldur er ætlast til þess að kennarar skili fullum árangri og afköstum í starfi. Það er ekki hægt að ætlast til þess á meðan yfirvöld skapa ekki það vinnuumhverfi þar sem hægt er að ætlast til árangurs. Þessi vitneskja ætti að vega þungt í réttindabaráttu kennara því það getur ekki verið löglegt að leggja heilsufar – að þessu leyti raddheilsu og jafnvel heyrn í hættu með því að skapa þannig vinnuaðstæður. Reyndar hlýtur það sama að gilda um nemendur, ekki síst ung börn.

Höfundur er M.phil. og PhD í rödd og raddvernd.

Höf.: Valdís Ingibjörg Jónsdóttir