Kristinn Már Stefánsson fæddist 3. júní 1945. Hann lést 13. september 2024. Útför fór fram 10. október 2024.
Björgvin sonur Kristins var keppnisstjóri hjá Krummaklúbbnum þegar ég gekk í bridgeklúbbinn. Eftir Versló urðu tengsl okkar Kristins stopulli. Af og til fékk ég fréttir af honum, sem voru frekar daprar fréttir. Frá Björgvini gat ég fengið ítarlegri fréttir beint í æð. Hann var enn og aftur kominn inn á Vog. „Við systkinin erum búin að gefast upp,“ sagði Björgvin mér einn daginn. En Kristinn reis úr öskustónni. Hann gekk í AA-samtökin, sem hann mat mikils, sleppti aldrei úr fundi. Ég spyrti saman hann og Ólaf Haraldsson skólabróður okkar og tók þá með í Krummaklúbbinn.
Kristinn var margfaldur Íslands- og bikarmeistari í körfu og spilaði marga landsleiki. En hann var líka liðtækur í billjard. Þegar þeir félagar Kristinn, Kolbeinn Pálsson og Björn Ástmundsson höfðu lokið við körfuboltaæfingu í KR komu þeir heim til mín í Skjólin til að spila krambúl en í kjallaranum var billjardborð. Sá staður var líka vinsæll um helgar þar sem við hittumst áður en við lögðum í skemmtanalífið í miðbænum. Síðustu árin tókum við félagarnir upp á því að spila vikulega pool í Lágmúla. Kristinn var enn með keppnisskapið í lagi. Hann studdi KR körfu dyggilega og mætti á leiki með fjölskyldumeðlimum sínum. Okkar samskipti urðu því tíð. Það var ánægjulegt að vera með honum, því hann var ræðinn, spaugsamur, glettinn og kátur. Hann bauð mér iðulega í mat til sín á Vitatorgið þar sem hann bjó síðustu ár sín.
Saman þrömmuðum við Vesturbæjarfélagarnir menntaveginn fram og til baka upp í Verslunarskólann við Garðastræti. Kristinn var verulega góður námsmaður. Eftir 4. bekk gátu þá þeir með hæstu einkunnir sótt um að setjast í lærdómsdeild og verða stúdentar. Kristinn var í þeim hópi en sótti ekki um. Þegar ég spurði hann hvort hann ætlaði ekki að halda áfram sagðist hann vera búinn að læra allt sem hann vildi. Bókhald var hans eftirlætisfag í skólanum og hans ær og kýr alla starfsævina. Hann var þremur dögum eldri en ég.
Hans verður saknað í vinahópnum.
Björgvin Schram.