Ísak Snær Þorvaldsson, sóknarmaður Breiðabliks, var besti leikmaðurinn í 27. og síðustu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Ísak lék frábærlega í fyrrakvöld þegar Blikar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn og skoraði tvö fyrri mörk þeirra í sigrinum á Víkingi, 3:0.
Hann fékk hæstu einkunn fyrir frammistöðu sína, þrjú M, en Blikarnir fengu samtals ellefu M hjá Morgunblaðinu fyrir magnaðan leik sinn á Víkingsvellinum. Félagi hans, Arnór Gauti Jónsson, fékk tvö M eftir stórgóðan leik sem varnartengiliður.
Arnóri er stillt upp í öftustu línu úrvalsliðs umferðarinnar hér til hliðar en það er vegna þess að sóknar- og miðjumenn skyggðu verulega á varnarmenn í þessari lokaumferð deildarinnar.
Ísak er 23 ára gamall, uppalinn hjá Aftureldingu eins og Arnór Gauti, og er í láni hjá Breiðabliki frá Rosenborg í Noregi. Ísak fór þangað eftir að hafa orðið meistari með Blikum 2022 en þá skoraði hann 14 mörk og var þeim gríðarlega mikilvægur, rétt eins og á lokaspretti Íslandsmótsins í ár.
Einkunnin þrjú M er sjaldan gefin hér í Morgunblaðinu en í þessari lokaumferð fengu tveir leikmenn hana. Hinn er Benoný Breki Andrésson, hinn 19 ára gamli framherji KR, sem skoraði fimm mörk gegn HK og tryggði sér markakóngstitil deildarinnar með því að skora samtals 21 mark fyrir Vesturbæjarliðið. Ísak og Benoný eru fremstir í flokki í síðasta úrvalsliði umferðar árið 2024.