Tónlist
Magnús Lyngdal
Magnússon
Kveikjan að verki Hildar Guðnadóttur (f. 1982) var að sögn áhyggjur af „þjóðfélagsumræðu undangenginna ára“. Þannig helgaðist hún af sundrungu, einmitt þegar tímar kölluðu á samstöðu. Verkið, The Fact of the Matter, er í fjórum þáttum. Í fyrsta þætti réði einfaldleikinn ríkjum með glæsilegum kórsöng Söngflokksins Hljómeykis (rétt eins og í verkinu öllu), auk þess sem ólík hljóðfæri og hljóðfærahópar kölluðust á. Tónsmíðin gerðist áleitnari eftir því sem á leið, þar með talið í ómstríðum 2. þætti og ívið þyngri 3. kafla. Þá voru hljómarnir orðnir einkar þykkir í 4. þættinum, þar sem þeir hljómuðu hver af öðrum með vaxandi spennu. Flutningurinn var býsna áhrifamikill og jafnvægið milli kórs og hljómsveitar var gott. Verkið var pantað af Breska ríkisútvarpinu (BBC) til flutnings á PROMS-tónlistarhátíðinni sumarið 2022 og vakti þar verðskuldaða hrifningu.
Áður en ég vík að Yo-Yo Ma og þætti hans á tónleikunum vil ég nefna að flutningurinn á svítunni upp úr ballettinum Petrúshku eftir Igor Stravinskíj (1882-1971) var á margan hátt eftirminnilegur, en svítan var á efnisskránni eftir hlé. Sjálfur ballettinn varð til í samstarfi Stravinskíjs og Sergejs Djaghlíevs í París á öndverðri 20. öld. Áður hafði dansflokkurinn Ballet Russes dansað við Eldfuglinn, verk Stravinskíjs frá árinu 1910, og sló sú sýning í gegn. Ári síðar fylgdi svo Petrúshka og vakti einnig gríðarlega hrifningu (í kjölfarið kom svo Vorblót þar sem allt ætlaði um koll að keyra á frumsýningunni).
Stravinskíj vitnar í Petrúshku, rétt eins og í verkum frá þessum tíma, víða í rússnesk þjóðlög en verkið er rytmískt flókið og gríðarlega snúið í flutningi. Það kallar jafnt á samheldni í hljómsveitinni sem og einstaklingsframtak einstakra hljóðfæraleikara með einkar erfiðum einleiksstrófum. Verkefnið leystu Eva Ollikainen og Sinfóníuhljómsveit Íslands mjög vel. Flutningurinn var dýnamískur og kraftmikill en á köflum líka ljóðrænn og „innilegur“, það er að segja þegar raddskrá Stravinskíjs kallar á slíkt. Hrynskipan Stravinskíjs er snúin (á einum stað eru tveir taktboðar í gangi í einu) en túlkun Evu Ollikainen var skýr og það fór vel á því að hún slægi hvert einasta slag, ekki síst til þess að halda hljómsveitinni saman á flóknustu stöðunum. Ég hef á tíðum verið gagnrýninn á túlkun hennar á klassískum og rómantískum verkum en hér var hún í essinu sínu. Það sama má segja um hljómsveitina og án þess að halla á neinn vil ég sérstaklega hrósa þeim Liam Kaplan (píanó), Andreas Sundén (klarínett) og Robby Garrison (trompet).
Yo-Yo Ma er goðsögn í heimi klassískrar tónlistar. Ég ólst upp við hljóðritanir hans á mörgum af helstu verkum sellóbókmenntanna en hafði aldrei séð hann á tónleikum fyrr. Af honum geislar góðmennska sem sannarlega skilaði sér í flutningi á sellókonserti Edwards Elgars (1857-1934) í Hörpu. Skipti þá engu máli hvort vísað er til tónmyndunar, mótunar á löngum línum einleikspartsins eða mótun hendinga. Allt bar sterkan heildarsvip frásagnar í tónum; meðal annarra orða: Yo-Yo Ma sagði áhorfendum sögu með syngjandi tóni sellósins. Dýptin í túlkuninni var ótrúleg og ég hafði sannarlega á tilfinningunni að hann gæfi allt í flutninginn; lék eins og hann ætti lífið að leysa. Þá var „samband“ hans við bæði Evu Ollikainen sem og hljómsveitina náið. Hann leit þannig brosandi til bæði hljómsveitarstjórans og hljómsveitar þegar svo bar undir og af leik hans stöfuðu geislar góðmennsku og innileika. Allt þetta smitaði ekki bara yfir á áhorfendur, heldur líka yfir á leik Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem var prýðilegur. Aukalagið, íslenska þjóðlagið Nú vil ég í nafni þínu í útsetningu Þórðar Magnússonar fyrir Yo-Yo Ma og sellósveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var svo rúsínan í pylsuendanum. Nú veit ég ekki hvernig Sigurgeiri Agnarssyni, leiðandi sellóleikara hljómsveitarinnar, leið með átrúnaðargoð sitt við hlið sér í flutningnum á aukalaginu, en ég var sannarlega með gæsahúð allan tímann.
Fyrir skemmstu komst ég svo að orði í færslu á Facebook: „Þjóð sem á tónlistarhús er vel sett. Þjóð sem getur séð Víking Heiðar, Yuja Wang og Yo-Yo Ma í sömu vikunni er rík.“ Þegar ég gekk út í myrkrið umrætt októberkvöld fannst mér heimurinn betri. Það er máttur tónlistarinnar og hann verður seint eða jafnvel aldrei ofmetinn.