Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Grátt er í fjöllum fyrir norðan og Björn Ingólfsson á Grenivík deildi mynd af því á fésbók með útsýni af Höfðanum. Björk Pálsdóttir sendi honum kveðju:
Upp á fjalli hátt hátt,
horft í norðurátt átt,
allt er orðið grátt grátt,
gengur í vetur brátt brátt.
Björn svaraði að bragði:
Karlmannstetur grátt grátt,
gengið upp á hátt hátt
fjall með hjartaslátt slátt
slangrar niður brátt brátt.
Kristján frá Gilhaga orti að gefnu tilefni:
Enn er veðra ókyrrt svið,
umhleypinga bragur,
okkur lítinn færir frið
fyrsti vetrardagur.
Ingólfur Ómar Ármannsson orti af sama tilefni:
Grundir blikna grána fjöll
gnauðar vindabragur.
Fer með gjósti frír við mjöll
fyrsti vetrardagur.
Jón Gissurarson gerði það líka og velktist ekkert í vafa um að sín vísa væri góð:
Góða vísu geri hér
gengur flest í haginn.
Frískur ég og fjallhress er
fyrsta vetrardaginn.
Hólmfríður Bjarmarsdóttir á ekki heldur í vandræðum með að gera góðar vísur:
Alltaf mun ég yrkja ljóð
sem eru flestum betri.
Ferilskráin feikna góð
er fimm og hálfur metri.
Pétur Stefánsson bregður á leik með „Þulunni um Kristófer“:
Kristófer við Kálfá bjó,
konulaus með ær og jó,
geitur, hrút, og kind í kró,
kött og páfagauk sem fló
út í veður vont og dó,
vék þá burt úr huga ró
augnablik, uns aftur hló
auðnudísin fyrrum mjó,
orðin loksins þykk um þjó,
þraut úr sálu bóndans hjó,
og á léttann lífsstreng sló,
læknaðist þá vitund sljó,
mörgum varð það um og ó,
er hann fann sinn gæfuskó,
öfund sterk í ýmsa smó,
aðrir glöddust, lítið þó,
ef að björg var ekki nóg
oft hann réri þá á sjó,
ýsu og síld í soðið dró,
saddi hungur, veitti fró.
Sagan er búin, hæ og hó,
hún var skemmtileg og frjó.