Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna lýsti því yfir í gær að um það bil 10.000 norðurkóreskir hermenn væru nú komnir til austurhluta Rússlands í herþjálfun, en talið er að þessu herliði sé ætlað að styrkja herafla Rússa á vígvellinum í Úkraínu.
Matthew Miller, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði að Bandaríkjastjórn hefði lýst yfir áhyggjum sínum vegna norðurkóresku hermannanna við stjórnvöld í Kína, en Kínverjar eru helstu bandamenn Norður-Kóreumanna.
Sagði Miller að Bandaríkin hefðu komið þeim skilaboðum á framfæri að Kínverjar ættu að hafa áhyggjur af þessum aðgerðum þessara tveggja nágrannaríkja sinna, Rússlands og Norður-Kóreu, þar sem þær myndu draga úr stöðugleika í heiminum.
Sabrina Singh, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði að vitað væri að hluti hinna 10.000 hermanna hefði þegar verið sendur í áttina til Úkraínu, og að talið væri líklegt að þeim væri ætlað að aðstoða Rússa í bardögum gegn sókn Úkraínumanna í Kúrsk-héraði Rússlands. Þá væri líklegt að fjölga myndi í herliði Norður-Kóreumanna í Rússlandi eftir því sem Pútín yrði örvæntingarfyllri varðandi gang Úkraínustríðsins.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, fordæmdi í gær veru norðurkóreska herliðsins í Rússlandi og sagði að hernaðarsamstarf ríkjanna tveggja væri ógn við öryggi á bæði Kyrrahafs- og Atlantshafssvæðinu.