Brottrekstur Erik ten Hag var rekinn frá Manchester United í gær.
Brottrekstur Erik ten Hag var rekinn frá Manchester United í gær. — AFP/Glyn Kirk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hollendingurinn Erik ten Hag var í gær rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United. Ten Hag var ráðinn til United sumarið 2022 eftir að hann náði góðum árangri með Ajax í heimalandinu. Tímabil United hefur alls ekki verið gott, því liðið er í 14

Hollendingurinn Erik ten Hag var í gær rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United. Ten Hag var ráðinn til United sumarið 2022 eftir að hann náði góðum árangri með Ajax í heimalandinu.

Tímabil United hefur alls ekki verið gott, því liðið er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með ellefu stig eftir níu leiki. Þá er liðið sigurlaust í Evrópudeildinni.

United-liðið vann tvo titla undir stjórn þess hollenska; enska deildabikarinn tímabilið 2022/23 og enska bikarinn á síðasta tímabili.

Ruud van Nistelrooy, aðstoðarþjálfari og fyrrverandi framherji United, mun tímabundið taka við liðinu á meðan félagið leitar að nýjum stjóra.

The Athletic greindi frá í gær að sá stjóri gæti orðið Ruben Amorim, sem stýrir nú Sporting í heimalandinu Portúgal.

Miðillinn greindi frá að viðræður væru hafnar á milli félaganna og stjórans. Er enska félagið reiðubúið að greiða Sporting tíu milljónir evra til að fá Portúgalann yfir til Manchester.

Amorim hefur náð mjög góðum árangri með Sporting á undanförnum árum og í tvígang unnið bæði deildina og deildabikarinn í Portúgal. Er hann enn aðeins 39 ára gamall.

United er ekki fyrsta enska félagið sem Amorim er orðaður við, því hann hefur einnig verið orðaður við Liverpool og West Ham.