Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, hefur samið við sænska félagið Häcken. Häcken, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni, kaupir hana af uppeldisfélaginu Val. Fanney Inga er aðeins 19 ára gömul en hefur staðið í marki Vals undanfarin tvö tímabil þar sem hún hefur orðið Íslands- og bikarmeistari. Þá hefur hún verið aðalmarkvörður landsliðsins undanfarið ár og spilað sjö A-landsleiki. Valur tilkynnti í raun félagaskiptin fyrir mistök fyrir um tveimur vikum, án þess að þau væru frágengin. Þeirri tilkynningu var eytt, en hefur nú verið birt á ný.
Markvörðurinn Holden Trent er látinn aðeins 25 ára gamall en hann var leikmaður Phladelphia Union í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta. Félagið greindi frá andlátinu um helgina en gaf ekki upp dánarorsök. Trent gekk í raðir Philadelphia í fyrra en hann var valinn númer 28 í nýliðavalinu. Þá hafði hann ekki spilað leik fyrir aðallið félagsins en sex fyrir varaliðið.
Ívar Orri Kristjánsson dómari fékk 7 í einkunn fyrir leik KR og HK í lokaumferð Bestu deildar karla í fótbolta en einkunnina vantaði í umfjöllun í blaðinu í gær.
Enska knattspyrnusambandið hefur sektað bæði Chelsea og Nottingham Forest fyrir slagsmálin sem urðu þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni fyrr í mánuðinum. Slagsmálin urðu til þegar Neco Williams hjá Forest ýtti Marc Cucurella á Enzo Maresca stjóra Chelsea. Enginn hefur verið úrskurðaður í bann vegna þeirra. Chelsea fékk sekt upp á 40.000 pund og Forest 125.000 pund, þar sem félagið hefur oftar verið sektað fyrir slæma hegðun leikmanna á undanförnum árum.
Sigurður Kristjánsson vann þriðja stigamót ársins í snóker, sem lauk á sunnudag. Í úrslitaleiknum mættust tveir af bestu snókerspilurum landsins um þessar mundir, þeir Sigurður og Þorri Jensson, þar sem Sigurður vann 3:2 eftir æsispennandi leik.
Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli er kominn í raðir Genoa í heimalandinu. Balotelli, sem er 34 ára, hafði verið án félags frá því hann yfirgaf Adama Demirspor í Tyrklandi í sumar.