Þorbjörg Þóroddsdóttir fæddist 23. ágúst 1938. Hún lést 1. október 2024.

Útför hennar fór fram 11. október 2024.

Við kveðjum nú kæra vinkonu til margra ára, Þorbjörgu Þóroddsdóttur, með miklum söknuði. Kynni okkar af Þorbjörgu og Bjarna Hannessyni eiginmanni hennar hófust fyrir meira en hálfri öld þegar Bjarni var við sérnám í heila- og skurðlækningum í Hanover New Hampshire og Þorgeir við nám í verkfræði í Cambridge í Massachusetts.

Góð tengsl mynduðust gjarnan milli Íslendinga, sem dvöldu við nám og störf í Nýja-Englandi á þessum tíma og urðu að vináttu til lífstíðar. Þessi tengsl áttu eftir að eflast og styrkjast eftir heimkomuna til Íslands. Umræðurnar í hópi landanna snerust oftar en ekki um íslensk málefni, sem voru brotin til mergjar í helgarheimsóknum milli góðbúanna. Þorbjörg og Bjarni höfðu gjarnan mjög skemmtilega sýn á hin ýmsu viðfangsefni þjóðfélagsins og voru gagnrýnin á hefðbundnar skoðanir og aðferðir. Þorbjörg hafði mjög sjálfstæðar skoðanir á málum og kunni vel að koma þeim á framfæri á okkar ástkæra og ylhlýra tungumáli enda átti hún sterkar rætur í þingeyskri menningarhefð. Heimsóknir til Hanover voru því afar skemmtilegar og eftirminnilegar.

Þegar fjölskyldurnar fluttust heim til Íslands að loknu námi og störfum vestan hafs hélt vinskapurinn áfram að aukast og vaxa. Fram í hugann koma margar ljóslifandi minningar ekki síst úr skíðaferðum til Austurríkis. Þegar Þorbjörg vann að meistararitgerð við Háskólann í Newcastle og þau Bjarni dvöldu um skeið í Dorfgastein í Gasteinertal fundu þau afar sérstakan skíðastað í Mühlbach og Berghotel Arthurhaus. Þaðan er ótrúlega fögur fjallasýn til Hochkönig-tindsins og Tennengebirge, staður sem varð þeim afar kær. Þarna höfðu þau uppgötvað náttúruparadís, utan alfarabrautar, sem tók fram öllum öðrum skíðastöðum, sem við höfum upplifað. Margir vinir þeirra nutu þessa umhverfis með þeim við skíðaiðkun.

Heimsóknir til Þorbjargar og Bjarna á Hamarstíg 16 á Akureyri voru líka einstakar ánægjustundir hvort sem var til skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli eða til að sigla með Mardöll á Eyjafirðinum. Gestrisnin og viðmótið var einstakt og Þorbjörg alltaf glöð í bragði þegar hún bauð gesti velkomna með bros á vör, sem var henni svo eðlislægt. Ljóst er að hún átti drjúgan þátt í að gera Bjarna að ósviknum Akureyringi, því hann tók miklu ástfóstri við staðinn þar sem alltaf viðrar vel til útivistar í skíðalöndum eða á sjó og í lofti eins og kunnugt er. Minningin um að sitja á svölunum á húsi þeirra á Hamarstígnum og horfa yfir bæinn á fallegum sólskindegi er afar hjartfólgin.

Þessar og fjölmargar aðrar minningar hrannast nú að þegar við kveðjum Þorbjörgu að ævilokum, sem bar allt of brátt að. Við áttum von á því að nú færi í hönd tími til að spjalla um liðna tíð vestan hafs og austan en ekkert er gefið í þeim efnum því tíminn líður hratt. Við getum lítið annað gert en að þakka samfylgdina og minnast góðs vinar og þeirra fjölmörgu góðu stunda sem við áttum saman með henni og Bjarna á langri og farsælli ævitíð. Fjölskyldu og afkomendum Þorbjargar vottum við okkar dýpstu samúð.

Anna og Þorgeir.