Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur sækja hlutfallslega mest fylgi sitt til fólks með tekjur yfir milljón á mánuði, en Samfylkingin og Miðflokkurinn fá næstmest fylgi sitt úr þeim tekjuhópi. Þetta leiðir skoðanakönnun í ljós sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og birtist um helgina

Ólafur E. Jóhannsson

ogj@mbl.is

Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur sækja hlutfallslega mest fylgi sitt til fólks með tekjur yfir milljón á mánuði, en Samfylkingin og Miðflokkurinn fá næstmest fylgi sitt úr þeim tekjuhópi. Þetta leiðir skoðanakönnun í ljós sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og birtist um helgina.

Í tilviki Flokks fólksins snýst dæmið við. Langflestir þeirra sem kváðust ætla að kjósa flokkinn eru lágtekjufólk með minni tekjur en 400 þúsund á mánuði. Svipuðu máli gegnir reyndar um Vinstri-græna, en lágtekjufólk er örlítið fleira hlutfallslega í kjósendahópi þeirra. Flokkurinn mælist þó aðeins með 2,4% fylgi og þarf að meira en tvöfalda það til þess að fá mann kjörinn á Alþingi. Nokkuð jöfn tekjudreifing sýnist vera meðal kjósenda Framsóknarflokksins og Miðflokksins skv. könnuninni.

Þegar kemur að menntunarstigi ætlaðra kjósenda flokkanna er nokkuð jöfn dreifing þar hjá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, en athygli vekur að ríflega helmingur kjósenda Vinstri-grænna hefur lokið framhaldsnámi í háskóla. Hafa ber í huga að ekki þarf marga slíka til að kalla fram þá mynd, þar sem allfáir hafa hug á að kjósa flokkinn skv. könnun Prósents.

Þá virðast iðnaðarmönnum hugnast lítt að kjósa Framsóknarflokkinn og Pírata, en spurning er um marktækni þessa, þar sem Framsóknarflokkurinn og Píratar mælast aðeins með 5,8% fylgi.

Menntunarstig ætlaðra kjósenda Sósíalista er mest á meðal fólks með grunnskólamenntun og iðnmenntun, en flokkurinn nýtur minnsts fylgis hjá háskólafólki. Í tilviki Flokks fólksins dalar stuðningur fólks við flokkinn með aukinni menntun. Þessu er öfugt farið í tilviki Samfylkingarinnar og Viðreisnar, þar sem fylgi eykst með meiri menntun. Þegar að Miðflokknum kemur í þessu efni mælist fylgi hans minna meðal háskólamenntaðra en hinna.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson