Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Lights – Fantastic Film Festival verður haldin í annað sinn á Akureyri dagana 31. október til 3. nóvember og verða sýndar 47 myndir sem falla í flokka fantasíu, kvikunar, hryllings og vísindaskáldskapar. Myndirnar verða sýndar í menningarhúsinu Hofi en auk þeirra sýninga verða ýmsir viðburðir á í boði á hátíðinni, m.a. spurningakeppni þar sem reynt verður á þekkingu keppenda á fantasíumyndum, masterclass-námskeið og umræður.
Á meðal stuttmynda hátíðarinnar í ár eru nýjar myndir þekktra höfunda, m.a. Johns R. Dilworths, höfundar Courage the Cowardly Dog og leikkonunnar Abigail Breslin sem fór með aðalhlutvekrið í Little Miss Sunshine. Þá verða sýnd verk leikstjórans og „stop-motion“-kvikarans Michael Granberry sem á m.a. að baki Óskarsverðlaunamyndina Guillermo del Toro's Pinocchio.
Alls voru 47 myndir frá 22 löndum valdar til sýninga á hátíðinni í ár og fellur það í hlut dómnefndar að velja þá bestu úr þeim mikla fjölda. Sú mun hljóta peningaverðlaun, rúmlega 150 þúsund íslenskar krónur, sem og einnar milljónar króna tækjaúttekt hjá hljóðkerfa- og sýningabúnaðarleigunni Kukli.
Fram úr vonum
Brynja Baldursdóttir, dagskrárstjóri hátíðarinnar, segir að hátíðin hafi gengið ótrúlega vel þegar hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra. „Á pallborðunum var þétt setið og vel mætt á sýningar. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn á Akureyri og fór þátttakan fram úr öllum okkar vonum.“
Blaðamaður spyr hvort óvenjuleg staðsetningin vinni mögulega með hátíðinni. „Það getur vel verið því nú eru margar kvikmyndahátíðir fyrir sunnan, allar þær helstu og þeim erlendu gestum sem mættu fannst sérstaklega spennandi að vera að koma norður. Á þessum árstíma þegar norðurljósin skarta sínu fegursta,“ svarar Brynja.
Í fyrra voru 38 stuttmyndir sýndar en nú eru þær 47. Hátíðinni hefur því vaxið fiskur um hrygg og Brynja segir að dómnefnd hátíðarinnar í fyrra hafi haft orð á því hversu vandaðar myndirnar væru. „Þetta er eiginlega ennþá betra núna.“
Mun fleiri en í fyrra
Það eru töluvert fleiri innsendar myndir á hátíðinni nú en í fyrra og margir leikstjórar væntanlegir norður, ef þeir eru þá ekki þegar komnir. Leikstjórar frá Kanada, Íran, Hollandi, Finnlandi, Bandaríkjunum, Spáni, Portúgal, Danmörku og Bretlandi, eins og Brynja telur upp. Þessir gestir eru á eigin vegum, mæta til að fylgja myndum sínum eftir og einhverjir kvikmyndahöfundar munu sitja fyrir svörum. „Þetta er óvenjumikið fyrir svona litla hátíð,“ bendir Brynja á.
Þótt hátíðin hafi úr litlu fjármagni að spila segir Brynja myndirnar ekki bera þess merki. „Við fengum svo góðar viðtökur strax á Filmfreeway í fyrra,“ segir Brynja og á þar við samnefndan vef ætlaðan kvikmyndagerðarmönnum sem eru að reyna að koma sér á framfæri í hörðum heimi kvikmyndanna.
Fantasíukvikmyndir eru býsna breitt svið, á ensku „fantastic films“, allt frá ofurraunsæi, vísindaskáldskap og ævintýrum til hrollvekja. Í stuttu máli allt það sem er ekki þessa heims; þ.e. fantasía. Brynja segir breiddina því töluverða, líkt og megi sjá af úrvali mynda á hátíðinni. Og allar eru þær stuttmyndir, að hámarki 25 mínútur að lengd og sumar hverjar mjög stuttar, í fyrra var sú stysta aðeins ein mínúta.
Erfitt verk fyrir höndum
Brynja segir myndirnar svo margar á hátíðinni að erfitt sé að velja úr nokkrar sem dæmi. Þeir sem ætla að mæta verða því að kynna sér úrvalið á vef hátíðarinnar og sníða sér eigin dagskrá eða einfaldlega sjá eins margar myndir og þeir geta. Dómnefnd hátíðarinnar á erfitt verk fyrir höndum því myndirnar eru margar góðar og mikið í þær lagt, að mati Brynju. „Ég mæli með því að fólk mæti á alla hátíðina, taki bara törn,“ segir hún. „Á föstudaginn erum við svo með dagskrá fram eftir kvöldi og í síðasta slottinu á föstudeginum völdum við aðeins meiri hryllingsmyndir. Þær eru aðeins léttari á hinum sýningartímunum,“ nefnir Brynja.
Ekki má svo gleyma hrekkjavökunni en sérstök teiti í hennar anda verður haldin í miðbænum kl. 22.30 og er fólk að sjálfsögðu hvatt til að mæta í hrollvekjandi gervi og búningum.
Frábærar viðtökur
„Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar, þetta var á fyrsta sinn á Akureyri í fyrra og það var bara fullt á sýningarnar,“ segir Brynja, spurð út í viðtökur og bætir við að Hof sé mjög góður staður fyrir kvikmyndasýningar. „Þetta sprengir allan skalann hjá okkur með vætingar,“ bætir hún við.
En hvað má búast við mörgum gestum? Erfitt er um slíkt að spá en fyrir liggur að stór hópur erlendra gesta mun sækja hátíðina og þá m.a. fólk sem kom líka í fyrra. Michael Levine, einn þeirra sem sýndi mynd í fyrra, er meðal þeirra sem boðað hafi komu sína, segir Brynja, en Levine var þekktur ljósmyndari áður en hann sneri sér að kvikmyndagerð.
Miðasala fer fram á mak.is og tix.is og einnig hægt að kaupa aðgöngupassa að öllum myndunum. Dagskrána alla má finna á vef hátíðarinnar, fantasticfilmfestival.is, og hátíðin er studd af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, Menningarsjóði Akureyrarbæjar og Kvikmyndamiðstöð Íslands.