Hjörtur fæddist 12. febrúar 1951. Hann lést 11. október 2024.

Útför hans fór fram 18. október 2024.

Ég vil í fáum orðum minnast tengdaföður míns Hjartar Lárusar Harðarsonar. Ég kynntist Hirti fyrir um 32 árum og með okkur tókst strax mikil og góð vinátta, með lægðum og hæðum eins og gerist á löngum tíma. Hjörtur var maður orða sinna og það sem hann sagði stóð, hann var heiðarlegur og afar skemmtilegur maður og mikill húmoristi.

Hann elskaði strákana okkar Erlu og þeir voru afar hændir að afa sínum og hann fylgdist vel með þeirra daglega lífi. Ég fékk Hjört í hina frábæru íþrótt golf og hann gjörsamlega féll fyrir henni og gat endalaust rætt og talað um golf og þann góða og skemmtilega félagsskap sem þeirri íþrótt fylgir.

Hjörtur var með ónýt lungu og átti í miklum erfiðleikum vegna þess en aldrei gafst hann upp og í byrjun árs 2012 fékk hann ný lungu í Svíþjóð og eins og við manninn mælt hann varð eins og nýr maður og fékk rúmlega 12 frábær ár sem hann var afar þakklátur fyrir og hann naut hverrar stundar, í ferðalögum með Svövu sinni og við golfleik um allan heim sem hann naut í botn.

Það var aldrei leiðinlegt að bjóða honum í mat blessuðum, hann var mikill sælkeri og alveg sama hvað maður bauð honum; þetta var allaf stórsteik í hans huga, ég á eftir að sakna þess að bjóða þér í mat vinur minn.

Þegar Hjörtur lá banaleguna sat ég hjá honum og lofaði honum að ég myndi sjá um Svövu hans og líta til með öllum hans ættingjum, það verður mér heiður að efna það loforð, hann hafði áhyggjur af ástinni sinni. Hjörtur bar afar miklar og djúpar tilfinningar til Svövu sinnar og orð hennar voru lög.

Hjörtur Lárus var mikil félagsvera og naut þess að vera innan um fólk, spjalla og segja sögur og hann var í fullt af stjórnum og ráðum til að verða að gagni eins og hann sagði – í brids, félagsvist eða uppi í golfklúbbi – aldrei stóð á okkar manni þrátt fyrir dvínandi heilsu.

Rétt áður en ég kvaddi hann í hinsta sinn greip hann í mig og bað mig um einn greiða í viðbót, ég hélt það nú. „Doddi minn, viltu láta gott járn, tí og kúlur fylgja mér svo ég mæti ekki allslaus í partíið!“ Að sjálfsögðu verð ég við því minn kæri.

Takk fyrir allan hláturinn, grátinn, sigrana og ósigrana, takk fyrir alla hjálpina við mig og mína fjölskyldu og við hittumst á grænum grundum síðar.

Elsku Erla mín, Svava og elsku strákarnir mínir Hjörtur, Henning og Patrik og barnabarnabörn, Karítas, Hrafntinna, Móheiður og Aþena, mínar einlægustu samúðarkveðjur til ykkar allra, minning um góðan mann mun lifa með okkur.

Takk fyrir allt og allt elsku besti tengdapabbi minn.

Far í friði og þar til næst,

Þórður (Doddi).