Verkfall Fjórir skólar til viðbótar hafa boðað verkfall í nóvember.
Verkfall Fjórir skólar til viðbótar hafa boðað verkfall í nóvember. — Morgunblaðið/Eggert
Fundi samninganefnda Kennarasambands Íslands (KÍ), ríkisins og sveitarfélaga lauk um kvöldmatarleytið í gærkvöldi án árangurs og hófst því verkfall kennara í níu skólum á miðnætti í gær. Kennarar í fjórum skólum til viðbótar munu leggja niður störf í nóvember náist samningar ekki fyrir þann tíma

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Fundi samninganefnda Kennarasambands Íslands (KÍ), ríkisins og sveitarfélaga lauk um kvöldmatarleytið í gærkvöldi án árangurs og hófst því verkfall kennara í níu skólum á miðnætti í gær. Kennarar í fjórum skólum til viðbótar munu leggja niður störf í nóvember náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að búið sé að boða til vinnufunda á morgun og á miðvikudaginn en eftir á að boða næsta samningafund. „Við vonum bara að hann komist fljótt á koppinn,“ segir hann.

Kennarar í leikskóla Seltjarnarness, leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki, leikskólanum Drafnarsteini í Reykjavík, leikskólanum Holti í Reykjanesbæ, Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík, Lundarskóla á Akureyri, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Tónlistarskóla Ísafjarðar lögðu niður störf í nótt. Kennarar Menntaskólans í Reykjavík munu leggja niður störf 11. nóvember verði samningar ekki í höfn og kennarar Garðaskóla í Garðabæ, Árbæjarskóla í Reykjavík og Heiðarskóla í Reykjanesbæ 25. nóvember.

Markmið um launakjör

Engin formleg kröfugerð hefur komið fram af hálfu KÍ og spurður hvort það skjóti ekki skökku við að boða til verkfalls án þess að leggja fram formlega kröfugerð vísar Magnús til úrskurðar félagsdóms frá því í síðustu viku.

„Félagsdómur svaraði því mjög skýrt að við hefðum lagt fram kröfugerð í byrjun þessa árs og höfum ítrek­að hana í gegnum árið. Við reyndar köllum það markmið eða markmið um laun á milli markaða. Dómurinn var mjög skýr en menn virðast vera á þeirri vegferð áfram að tala inn í það þó að dómurinn hafi sagt annað.“

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, hefur bent á að réttindi opinberra starfsmanna séu ólík réttindum sérfræðinga á almennum markaði. Nefndi hún meiri veikindarétt kennara, lengri orlofsrétt og yfirráð yfir eigin vinnutíma og vinnuskilum sem dæmi. Magnús segir að KÍ óttist ekki samræðuna og að hluti verkefnisins sé að skoða hvar almenni markaðurinn hafi eitthvað umfram kennara í launakjörum.