Ólafur Elínarson
Það er enn á ný tilefni til að skrifa um innflutta efnið sem Carbfix ætlar að steinrenna í Straumsvík eftir fjölmiðlaskrif, þar á meðal frá kjörnum fulltrúum, um meintan innflutning á „eitri“. Tíðar endurtekningar á því að verið sé að flytja inn skaðlegan úrgang eða rusl og dæla honum niður eru rangar.
Athugum staðreyndir. Samkvæmt texta í umhverfismatsskýrslu EFLU vegna Coda Terminal stendur skýrt:
„Carbfix mun gera kröfu um afhendingu efnagreiningar CO2-straums fyrir affermingu í Straumsvík. Að auki mun Carbfix mæla hreinleika CO2-straums fyrir dælingu í geymslutanka Coda Terminal, til að ganga úr skugga um að hann uppfylli kröfur um samsetningu í samræmi við skilgreiningu í starfsleyfi til geymslu.“
Ef af verður fær Carbfix starfsleyfi frá Umhverfisstofnun sem skylda mun fyrirtækið til að starfa eftir settum lögum, svo sem 33. gr. laga 50 nr. 7/1998 um mengunarvarnir og hollustuhætti, sem fjallar um geymslu CO2 í jörðu, lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011, reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og reglugerðum nr. 796/1999 og 797/1999 um varnir gegn mengun vatns og grunnvatns.
Af þessu má sjá að stíft regluverk er til staðar til að fyrirbyggja neikvæðu áhrifin sem fyrrnefnd greinaskrif snúast um.
Carbfix hefur þegar dælt niður koldíoxíði og brennisteinsvetni í yfir áratug á Hellisheiði án vandkvæða.
Í Coda Terminal-verkefninu hefur Carbfix enn fremur óskað eftir nákvæmari leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um hvaða skilyrði eru fyrir niðurdælingu á hreinsuðum CO2-straumi frá Evrópu, þar með talið um leyfilegan hámarksstyrk efna.
Þá er rétt að geta þess að engin niðurdæling CO2 á sér stað í Straumsvík og verður ekki nema með veittu leyfi áðurnefndra aðila.
Verkefni áþekk því sem Carbfix undirbýr í Straumsvík eru þegar í gangi eða í bígerð víða um heim, meðal annars í nágrannaríkjum okkar, þar sem þau eru nauðsynlegur hluti þess að afstýra hamfarahlýnun að mati loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Talið er nær ómögulegt að stemma stigu við skaðlegum loftslagsbreytingum af mannavöldum án þess að fanga og binda í jörðu milljarða tonna af CO2 á ári hverju.
Þetta er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga, ekki síst í ljósi nýlegra varnaðarorða vísindafólks um mögulega veikingu Golfstraumsins, sem myndi gjörbylta lífsskilyrðum á Íslandi.
Carbfix er fyrirtæki byggt á hug- og tækniviti sem er þróað á Íslandi í samstarfi við fjölmarga háskóla og er í eigu Orkuveitunnar og einnig Háskóla Íslands að litlu leyti. Það nýtur velvilja á alþjóðavísu sem sönnuð og varanleg aðferð til að binda koldíoxíð í stein á innan við tveim árum. Eftirspurn er eftir tækninni um allan heim og við blasa tækifæri til að eiga þátt í því að takast á við loftslagsbreytingar núna í stað þess að láta komandi kynslóðir sitja uppi með vandann og afleiðingar hans.
Hvert er mat heilbrigðiseftirlitsins?
Í umsögn heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, dags. 2.7. 2024, um umhverfismat Coda Terminal segir:
„Ekki er talin mikil hætta á að snefilefni í CO2 hafi áhrif á strandsjávarhlotið þar sem hámarksstyrkur snefilefna í CO2-straumnum er lágur og áhrif þeirra á grunnvatn verða því í flestum tilfellum hverfandi. Engu síður er mikilvægt að framkvæma ítarlegar rannsóknir og vöktun með niðurdælingarverkefninu og á það bæði við um grunnvatnshlotið og vistkerfi strandsjávarhlotsins.“
Carbfix tekur heilshugar undir þessi orð umsagnaraðila og mun sinna ítarlegum rannsóknum og vöktun.
Þetta þýðir að Carbfix mun eðlilega, eins og öll önnur fyrirtæki, fylgja þeirri löggjöf sem á við um starfsemina. Umræða um snefilefni í hættulegu magni er ekki á rökum reist.
Höfundur er samskiptastjóri Carbfix hf.