Í Noregi Barnabörnin Flóki og Agla Guðrún ásamt Sindra föður sínum.
Í Noregi Barnabörnin Flóki og Agla Guðrún ásamt Sindra föður sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Birna Bragadóttir fæddist 29. október 1974 í Reykjavík. „Foreldrar mínir vilja meina að það sé vestfirskt blóð í mér þar sem þau störfuðu á Núpi í Dýrafirði og segja mig nefnda eftir Birnu sem gekk á land fyrir vestan árið sem ég fæddist.“ Fyrsta árið bjó Birna í risíbúð í Kópavogi

Birna Bragadóttir fæddist 29. október 1974 í Reykjavík. „Foreldrar mínir vilja meina að það sé vestfirskt blóð í mér þar sem þau störfuðu á Núpi í Dýrafirði og segja mig nefnda eftir Birnu sem gekk á land fyrir vestan árið sem ég fæddist.“

Fyrsta árið bjó Birna í risíbúð í Kópavogi. „Þaðan fluttum við fjölskyldan til Grindavíkur sem var ævintýraheimurinn minn til sex ára aldurs. Ég á góðar æskuminningar frá þessu fallega sjávarþorpi og naut þar mikils frelsis í leik og útiveru. Sem barni þótti mér miður að þurfa að flytja þaðan sex ára gömul í Kópavog. Ég sótti mikið í að fara til Grindavíkur og fór reglulega með rútu til að heimsækja bestu vinkonu mína. Nokkrum sumrum eyddi ég á Mallorca þar sem mamma starfaði sem fararstjóri. Þar vann ég fyrstu launuðu vinnuna við að passa börn Íslendinga sem þurftu barnapössun í sumarfríinu. Þegar ég var á 13. aldursári fluttum við síðan á Álftanesið sem var meiri sveit þá en nú. Það þóttu mér nú ekki góð skipti, enda gekk ekki einu sinni strætó þangað í þá daga. Þess í stað þurfti ég að húkka far í Garðabæinn til að komast á milli til að hitta vini mína í Garðabæ. Í Garðaskóla eignaðist ég þéttan og góðan vinkvennahóp sem enn í dag heldur hópinn.

Eftir útskrift fór ég í Kvennaskólann, en tók mér svo frí frá námi og freistaði gæfunnar í hinum harða heimi fyrirsætunnar í Bandaríkjunum, Ítalíu og Japan. Sá heimur var kröfuharður og ég lærði sannarlega að bjarga mér ein í stórborgum þótt ég væri ung að árum. Ég lauk svo stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, tók BA-próf í félagsfræði, lauk MBA-námi og hef síðan bætt við mig stjórnendamarkþjálfun og Master of Design thinking.

Fyrsta fullorðinsvinna Birnu var hjá Eurocard. „Síðar var ég flugfreyja hjá Icelandair sem gerði mér kleift að mennta mig samhliða vinnu. Ég var ung þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn og þurfti að draga það í nokkur ár að fara í nám þar sem ég setti það í forgang að koma þaki yfir okkur mæðginin. Ég starfaði í 13 ár hjá Icelandair og fékk mjög góða starfsreynslu, m.a. við þjálfun áhafna á Íslandi og erlendis, þjónustustjórnun og í mannauðsmálum. Umhverfið þar var dýnamískt og oft mikill hraði og óvæntar uppákomur eins og 9/11, eldgos og bankahrun sem hafði mikil áhrif á ferðaþjónustuna.“

Frá Icelandair var Birna ráðin til Orkuveitunnar sem starfsþróunarstjóri og hún starfaði síðan við stjórnendaráðgjöf hjá Capacent og í eigin fyrirtæki, áður en hún varð framkvæmdastjóri Sandhotel. „Undanfarið hef ég veitt forstöðu við uppbyggingu á nýjum áfangastað orku og náttúru í Elliðaárstöð. Það er virkilega gaman að vinna í þeirri náttúruperlu sem Elliðaárdalurinn er, sjá gamla rafstöðvarreitinn fá nýtt hlutverk þar sem við tökum á móti þúsundum nemenda í vísindamiðlun og erum í samstarfi við útivistarfólki og fólk í skapandi greinum til að gæða dalinn lífi. Ásamt því starfa ég sem forstöðukona frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar hjá Orkuveitunni. Þar eru metnaðarfull framtíðaráform í samstarfi við frumkvöðla tengd nýsköpun í orkumálum, sjálfbærni og ábyrgri auðlindanýtingu sem skemmtilegt er að taka þátt í að móta og byggja upp.

Upp úr fertugu, þegar börnin urðu aðeins stærri, fór ég að gefa mér tíma til að stunda útivist, sem hefur um nokkurn tíma verið mitt aðaláhugamál og mín leið til að hlaða batteríin. Mér finnst gaman að setja á dagskrá ný ævintýri sem krefjast smá af mér og víkka sjóndeildarhringinn. Á nokkrum undanförnum árum hef ég synt yfir Ermarsundið, þverað Vatnajökul í tvígang á skíðum, hlaupið Laugaveginn, farið í Vasagönguna og í fyrra fórum við pabbi saman á fjórhjólum frá vitanum á Fonti á Langanesi að Reykjanesvita til að fagna því að fimm ár voru síðan hann læknaðist af krabbameini. Það var alveg ógleymanleg ferð og gaman að upplifa landið, og þá sérstaklega hálendið, með pabba sem hefur alla tíð verið mikill ökuþór en ég var að fara í fyrsta sinn á fjórhjól. Ég komst að því þarna að við pabbi erum jafn mikið dellufólk og eigum það sameiginlegt að hafa mikla ástríðu fyrir náttúru Íslands.

Nú hef ég nýlokið við að ganga á 100 mismunandi fjöll á árinu, sem var markmið sem ég setti mér á afmælisárinu til að kynnast Íslandi betur. Ég er alltaf með nýtt útivistarmarkmið í augsýn en á næsta ári stefni ég á að þvera Svíþjóð á gönguskíðum en fyrr á þessu ári þveraði ég Noreg. Það eru allar líkur á því að Finnland verði sett á dagskrá ári síðar.

Siggi, maðurinn minn, hefur verið öflugur í að koma með mér í fjallgöngur og við höfum bæði gaman af því að skíða, jafnt á brautarskíðum, gönguskíðum og fjallaskíðum. En okkar helsta sameiginlega áhugamál er þó líklega golfið sem ég hef metnað til að verða betri í, en mér gengur hægt. Sindri, elsti sonur minn, býr ásamt fjölskyldu sinni í Noregi og þau eru mikið útivistarfólk enda auðsótt í því fallega landi. Yngri börnin eru líka farin að sýna útivistinni meiri áhuga og voru dugleg í fjallgöngunum í sumar. Við fjölskyldan höfum þó alla tíð haft skíðin sem okkar fjölskyldusport og ætlum að vera í Norefjell á skíðum saman um jólin og prófa að upplifa norsk jól í „hyttu“ með öllu tilheyrandi.“ Þau hjónin eru núna stödd í Róm í tilefni afmælisins.

Fjölskylda

Eiginmaður Birnu er Sigurður Kári Kristjánsson, f. 9.5. 1973, hæstaréttarlögmaður hjá LLG lögmönnum. „Frá því að við hófum okkar sambúð fyrir 18 árum höfum við búið í Vesturbænum í Reykjavík og líkað búsetan þar vel.“ Foreldrar Sigurðar Kára eru hjónin Kristján Ágúst Ögmundsson, f. 28.8. 1943, fv. forstöðumaður sundlaugarinnar í Laugardal, og Elín Þórjónsdóttir, f. 17.7. 1946, húsmóðir, búsett í Reykjavík.

Sonur Birnu með Ingólfi Má Ingólfssyni, f. 11.4. 1973, lögreglumanni, er 1) Sindri, f. 28.9. 1995, hugbúnaðarverkfræðingur hjá Cisco í Ósló. Maki: Dóra Sóldís Ásmundardóttir, doktorsnemi í umhverfisfræðum við Óslóarháskóla. Börn þeirra eru Flóki, f. 2021, og Agla Guðrún, f. 2024. Dóttir Birnu með Sigmari Guðmundssyni, f. 7.4. 1969, alþingismanni, er 2) Salka, f. 25.3. 2003, laganemi í HÍ, búsett í foreldrahúsum. Sonur Birnu og Sigurðar Kára er 3) Kári, f. 30.3. 2010, nemi í Hagaskóla.

Systkini Birnu eru Gísli Baldur, f. 2.4. 1980, tjónafulltrúi hjá Sjóvá, og Ragna Björk, f. 5.11. 1990, verkefnastýra styrkverkefna hjá Carbfix.

Foreldrar Birnu eru hjónin Guðrún Gísladóttir, f. 2.6. 1951, kennari og bókasafnsfræðingur, og Bragi Guðmundsson, f. 12.4. 1948, matreiðslumaður, búsett í Reykjavík.