Fótboltinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Tilfinningin er ógeðslega góð. Þetta er eitthvað sem ég var búinn að hugsa fyrir leik að ég vildi reyna að ná. Síðan fæ ég tækifæri í leiknum og þá einhvern veginn gekk allt upp,“ sagði Benoný Breki Andrésson, knattspyrnumaður hjá KR, í samtali við Morgunblaðið.
Vísaði Benoný þar til markametsins í efstu deild á Íslandi sem hann sló um síðustu helgi með því að skora fimm mörk í 7:0-sigri á HK í lokaumferðinni. Benoný Breki skoraði þar með 21 mark í 26 leikjum í Bestu deildinni á tímabilinu og varð fyrsti karlinn frá upphafi sem nær að skora meira en 19 deildarmörk á einu tímabili.
Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk í fimm síðustu leikjum sínum á tímabilinu, vann sér í leiðinni inn níu M og er þar með besti leikmaðurinn að mati Morgunblaðsins á haustmánuðum 2024.
Benoný, sem er aðeins 19 ára gamall, sagðist raunar hefðu getað skorað fleiri mörk í sigrinum á HK.
„Þau voru nokkur færin í þessum leik en á endanum voru þetta bara fimm mörk sem ég náði að skila af mér, sem ég er mjög ánægður með.“
Ekki annað hægt
Sóknarmaðurinn marksækni gekk til liðs við KR fyrir síðasta tímabil og hefur þrátt fyrir ungan aldur skorað 30 mörk í 51 leik í Bestu deildinni. Hann ólst upp hjá Gróttu, skipti til Breiðabliks árið 2019 og lék svo með unglingaliðum Bologna á Ítalíu frá 2021 til 2023.
Á nýafstöðnu tímabili var Benoný valinn efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum hennar. Er það því ekki nema von að hann sé ánægður með eigin frammistöðu á tímabilinu.
„Ég held að það sé ekki annað hægt. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið þessi verðlaun og náð markametinu. Þetta var eitthvað sem gerði mikið fyrir mig og ég er mjög ánægður með þetta,“ sagði Benoný.
Þrátt fyrir að vel hafi gengið hjá honum sjálfum gekk KR-liðinu ekki jafn vel. Eftir erfiðleika og nálægð við fallsvæðið stóran hluta tímabilsins hafnaði KR að lokum í áttunda sæti með 34 stig eftir góðan endasprett.
„Þetta var svolítið basl þarna í byrjun tímabils og fram eftir tímabili. Það var mikið af breytingum hjá félaginu, þjálfarabreytingar og svona.
En svo eftir að Óskar [Hrafn Þorvaldsson] tók við náði hann hópnum saman og við náðum einhvern veginn að byrja að spila fótbolta almennilega. Við sáum það í síðustu leikjunum þegar við töpuðum eiginlega ekki leik og vorum bara ógeðslega góðir,“ sagði Benoný.
Ánægður að hafa verið áfram
Eftir þetta gott persónulegt tímabil er óumflýjanlegt að ungur markaskorari fari að vekja athygli erlendra félaga. Aðspurður viðurkenndi hann að líklegast lægi leiðin brátt út fyrir landsteinana.
„Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist en líklega er ég að fara út. Ég held að ég þurfi ekkert að fela það. Ég veit ekki nákvæmlega hvar það verður en það verður að koma betur í ljós á næstu dögum. Það eina sem ég veit er að það er einhver áhugi.“
Áhugasöm félög verða að komast að samkomulagi við KR um kaup á Benoný þar sem hann er samningsbundinn Vesturbæjarfélaginu út tímabilið 2025. Eftir góða frammistöðu með KR-liðinu árið 2023 virtist Benoný vera á leið til sænska úrvalsdeildarfélagsins Gautaborg.
Félögin höfðu komist að samkomulagi um kaupverð og átti hann einungis eftir að skrifa undir samning. Ákvað Benoný hins vegar að taka ekki skrefið á þeim tímapunkti og halda kyrru fyrir hjá KR.
„Þetta var bara eitthvað sem ég, umboðsmaðurinn minn og fólkið í kringum mig ákváðum saman. Í dag sé ég ekkert eftir því að hafa sleppt þessu. Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þetta tímabil í viðbót með KR. Það gekk mjög vel.“
Einhver skref á milli
Metnaður hans er mikill og setur Benoný stefnuna hátt.
„Já, eins og flestir fótboltamenn vil ég enda í þessum stóru deildum, einni af topp fimm deildunum. Hvernig ég geri það verður einhvern veginn að koma í ljós. Það yrðu alltaf að vera einhver skref á milli.
Ég vil enda á sem hæstu stigi ef ég get og það verður að koma í ljós hvað ég þarf að gera til þess að koma mér þangað,“ sagði hann að lokum.