Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Í nýju greiðslulíkani heilsugæslunnar kemur fram að einstaklingum yfir 75 ára aldri skuli úthlutað heimilislækni, málastjóra eða þjónustufulltrúa.
Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir að hvergi komi fram hlutverk starfsheitisins málastjóra, menntun eða ábyrgð eða hverju hann eigi að skila til skjólstæðinga.
Hún bendir á að þarna sé komið nýtt hugtak sem enginn viti hvað þýðir.
„Það má vel vera að málastjóri sé gott og gilt í einhverjum tilfellum en það er algjörlega óskilgreint hvað það þýðir. Hvaða menntun og starfslýsingu hann hafi og að leggja það að jöfnu við að einstaklingur hafi fastan heimilislækni finnst okkur ekki ásættanlegt og við höfum óskað eftir að því verði breytt.“
Margrét Ólafía segir langtímasamband læknis og skjólstæðings vera grunnstef í starfi heimilislækna og að rannsóknir hafi sýnt fram á að einstaklingar sem eiga fastan heimilislækni leiti síður á bráðamóttökur og leggist síður inn á sjúkrahús, auk þess sem lífsgæði batni og lífslíkur aukist.
„Skort á heimilislæknum á ekki að fela með illa skilgreindum starfsheitum. Við teljum að þessi leið sé frekar til að fela mönnunarskortinn heldur en að leysa hann.“
Verið að gjaldfella stéttina
Hún segir að á aðalfundi félagsins hafi verið skorað á heilbrigðisyfirvöld að gjaldfella ekki starfsstétt heimilislækna og lagt til að starfsheitið málastjóri verði fellt út úr greiðslulíkaninu. Hvergi sé til lýsing á því hvað málastjóri eigi að gera eða hvaða menntun hann þurfi að hafa til að sinna starfinu.
„Þetta er komið inn sem möguleg skráning inn í sjúkraskrárkerfið okkar. Við gætum sett þar ritara, heilbrigðisgagnafræðing eða hjúkrunarfræðing eftir hentisemi.“
Geta hjúkrunarfræðingar sinnt þessu starfi?
„Það veit enginn. Það mætti túlka það á þann veg að þarna væri fyrst og fremst átt við hjúkrunarfræðinga, en það er hvergi skráð.“
Spurð hvers vegna svona mikill skortur sé á heimilislæknum segir hún að fyrir því séu nokkrar ástæður.
„Það er ekki bara skortur á heimilislæknum heldur er skortur á læknum á Íslandi í flestum sérgreinum. Það eru ekki gerðar kröfur við lok læknanámsins um hversu hátt hlutfall fari í hverja sérgrein heldur er það ákvörðun hvers læknis fyrir sig, við hvað hann vill starfa í framtíðinni, sem er bara eðlilegt. Það veldur því að sérgreinar ganga í sveiflum og núna erum við að gjalda þess að það var ekki í tísku að fara í heimilislækningar á tímabilinu 1990-2000. Sérnám í heimilislækningum er hins vegar á miklu flugi núna og það eru yfir 100 sem stunda sérnám í heimilislækningum, þannig að þetta er vonandi tímabundið ástand.“
Spurð hvað heimilislæknir sinni mörgum sjúklingum segir hún að samkvæmt staðli Félags íslenskra heimilislækna sé lagt til að heimilislæknir í fullu starfi á höfuðborgarsvæðinu sinni um 1.200 einstaklingum.
„Ef það væri veruleikinn þyrftu þeir að vera tvöfalt fleiri en þeir eru í dag. Það vita allir heimilislæknar sem starfa á gólfinu að það er ekki vinnandi vegur að sinna svo mörgum skjólstæðingum samkvæmt þeim gæðum sem við viljum vinna með.“
Margrét Ólafía segir að það sé aðeins misjafnt milli heilsugæslustöðva hvað heimilislæknir sinni mörgum sjúklingum á dag en almennt sé reiknað með 12-14 sjúklingum á dag í viðtölum. Til viðbótar við það séu 6-8 símtöl á dag og einhver rafræn samskipti. Í vaktþjónustunni megi reikna með 20-30 manns á hvern lækni á einum degi.