Björgunarmenn á Spáni leituðu í gær í bílakjöllurum að fórnarlömbum flóðanna miklu sem gengið hafa yfir austurhluta landsins síðustu daga. Að minnsta kosti 217 manns hafa farist í flóðunum og eru þau hin mannskæðustu í sögu Spánar. Þá er fjöldi fólks enn týndur í kjölfar flóðanna, og er óttast að meirihlutinn muni finnast látinn á næstu dögum.
Veðurstofa Spánar lýsti því yfir í gær að neyðarástandi væri nú lokið í Valencia-héraði, en úrhellisrigning var hins vegar í Katalóníu. Aflýsa eða fresta þurfti fimmtíu flugferðum til og frá El Prat-flugvellinum í Barcelona, og 17 farþegavélar voru sendar til annarra flugvalla vegna rigningarinnar.
Þá þurfti að loka hluta neðanjarðarlestarkerfisins í borginni og lestarferðum innan Katalóníuhéraðs var frestað.
Rannsaka aurkastið
Innanríkisráðherra Spánar, Fernando Grande-Marlaska, lýsti því yfir í gær að spænska þjóðvarðliðið hefði nú til rannsóknar atvikið í Paiporta um helgina, þar sem æstur múgur gerði hróp að Filippusi 6. Spánarkonungi og Letiziu drottningu og ataði þau og Pedro Sánchez forsætisráðherra auri. Sagði Grande-Marlaska að hægri-jaðarhópar hefðu staðið að baki ofbeldisverkunum.
Atvikið hefur vakið mikla athygli á Spáni, þar sem það undirstrikaði mikla reiðiöldu meðal almennings gagnvart stjórnvöldum vegna slælegra viðbragða við flóðunum, bæði fyrir og eftir að úrhellisrigningin sem var kveikjan að þeim hófst.
Yfirvöld í Valencia-héraði ákváðu í gær að framlengja ferðabann á almenning í tvo daga til þess að gefa viðbragðsaðilum meiri tíma til þess að bregðast við flóðunum. Þá hefur skólahaldi verið frestað og fólk hvatt til þess að vinna heiman frá sér.