Í hljóðveri Vinkonurnar samankomnar, frá vinstri Jóna Svandís Þorvaldsdóttir, Arnheiður Melkorka Pétursdóttir og Arna Rún Ómarsdóttir.
Í hljóðveri Vinkonurnar samankomnar, frá vinstri Jóna Svandís Þorvaldsdóttir, Arnheiður Melkorka Pétursdóttir og Arna Rún Ómarsdóttir.
Órar nefnist fimm laga plata Örnu Rúnar Ómarsdóttur sem kom út 3. október síðastliðinn, á afmælisdegi Örnu. Þrjár konur eru höfundar efnis á plötunni, sem Arna gefur út í eigin nafni, þ.e. Arna sjálf, Arnheiður Melkorka Pétursdóttir og Jóna Svandís Þorvaldsdóttir

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Órar nefnist fimm laga plata Örnu Rúnar Ómarsdóttur sem kom út 3. október síðastliðinn, á afmælisdegi Örnu. Þrjár konur eru höfundar efnis á plötunni, sem Arna gefur út í eigin nafni, þ.e. Arna sjálf, Arnheiður Melkorka Pétursdóttir og Jóna Svandís Þorvaldsdóttir. Arna syngur öll lög plötunnar og aðrir höfundar komu líka að útsetningum.

Þetta er fyrsta plata kvennanna þriggja sem hafa allar reynslu af tónlistartengdum verkefnum. Þær kynntust í lagasmíðabúðum á Borgarfirði eystri fyrir þremur árum og lögðu þar grunninn að sínu fyrsta lagi, „Þoku“. Hafa þær upp frá því unnið saman við lagasmíðar. Allir textar á plötunni eru á íslensku og haganlega ortir og höfundur hljóðheims er Stefán Örn Gunnlaugsson en um hljóðjöfnun sá Sigurdór Guðmundsson.

Varð til í lagasmíðabúðum

Arna segir fyrsta lag þeirra, „Þoku“, hafa komið út 3. október 2021 og að hún hafi þá spurt vinkonur sínar, í framhaldi af þeirri útgáfu í lagasmíðabúðum, hvort þær væru til í að semja með henni EP-plötu. Þær hafi verið meira en til í það. „Í þessum lagasmíðabúðum varð í raun önnur hljómsveit til, við köllum okkur Tab,“ segir Arna.

Hún segir það hafa tekið tríóið um þrjú ár að klára EP-plötuna þar sem þær eru allar í fullu starfi við annað daglega og þar að auki kostnaðarsamt að taka upp plötu og gefa hana út.

„Við gerðum þetta fyrsta lag á einum degi á Borgarfirði eystri í lagasmíðabúðum og svo ákváðum við bara að taka þetta lengra og þá heyrði ég í Stefáni Erni Gunnlaugssyni sem gerði þessa plötu með okkur og gerði hana að því sem hún er,“ segir Arna.

Arna, Arnheiður og Jóna vissu lítið hver um aðra fyrir námskeiðið og má því þakka námskeiðinu að miklu leyti að út er komin fyrrnefnd plata, Órar. Arna hafði, að vísu, gefið út lag áður og segist eiga nokkur lög til ofan í skúffu, heldur ólík þeim sem finna má á Órum. Þau séu öll á ensku en lögin á Órum eru á íslensku með textum eftir Arnheiði og Jónu. „Þær eru frábærir textasmiðir og lagahöfundar og okkur fannst tilvalið að gera plötu á íslensku,“ segir Arna. Textarnir séu afar fallegir, feli í sér sögur og mikið í þá lagt.

Upprisa

Þú skrifar í tölvupósti að á plötunni fléttist saman draumar og veruleiki og að tekist sé á við veruleika kvenna með skírskotun í þjóðsagna- og ævintýraarf. Svo stendur líka að þær kröfur sem íslenskur konur standi frammi fyrir í dag séu gríðarmiklar. Hvernig koma þær við sögu í textunum?

„Það er bara mismunandi eftir lögum, hvað er verið að tala um. Til dæmis í lagi númer tvö, sem heitir „Ljós“, það fjallar um baráttuna við að rísa upp úr myrkrinu eftir langvarandi depurð og finna hvatningu innra með sér og fyllast von um betri tíð. Þetta er ekki bara ort til kvenna en í laginu er verið að segja frá ferðalagi og eins konar endurfæðingu konu í þessum aðstæðum. Að upplifa pressu frá sjálfri sér og kröfu frá samfélaginu. Það er tilfinningalegt ferðalag í þessu lagi sem við tengdum auðvitað allar við,“ svarar Arna.

Hún segir tónlistina strangt til tekið vera popp en þó sé á henni þjóðlagakenndur bragur en þó mismunandi eftir lögum. „Í þriðja laginu erum við allar að syngja jafnt, það er þríraddað allan tímann. Það er fjölbreytileiki líka í því,“ tekur Arna sem dæmi.

Vinkonurnar radda allar á plötunni og í einu laganna, því þriðja, syngja þær allar. Arna syngur þó aðalröddina í öllum lögunum og segir að gaman hafi verið að fá vinkonurnar með sér í sönginn.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson