Gunnar Björnsson fæddist 26. ágúst 1941. Hann lést 18. október 2024.
Útför hans fór fram 1. nóvember 2024.
Gunnar Björnsson hagfræðingur frá Hvolsvelli í Rangárþingi var einn af mínum bestu vinum. Vináttan stóð í næstum 70 ár. Aldrei bar þar á nokkurn skugga. Nú er hann horfinn allt of snemma.
Við Gunnar kynntumst fyrst í Skógum undir Eyjafjöllum, þegar ég kom þangað til náms í 2 bekk. Guðrún systir Gunnars, skemmtileg og dugandi, var í bekk með okkur. Ég þekkti einnig Grétar eldri bróður þeirra, kraftmikinn og glaðan. Skógaskóli var eftirsóttur öndvegisstaður með góða stjórn og árangursríka kennslu. Þar var mannbætandi og lærdómsríkt að vera, þótt þröng væri á þingi og drepið í hvert horn, allt að sjö manns í herbergi þegar flest var, en fjórir oftast. Nemendurnir voru um og yfir eitt hundrað, úr öllum landshornum, meira að segja var í bekknum okkar skemmtilegur hópur af Vestfirðingum og af Austurlandi. Kennararnir voru einnig úr ýmsum landshlutum. Við fengum því fræðandi andblæ hvaðanæva af landinu með því að heyra skólasystkini og kennara segja frá sér og sínum og spyrja þau spjörunum úr, sem mörg okkar höfðu lært að gera í æsku.
Skólanum stjórnaði eins og hershöfðingi skörulegur Skagfirðingur, Jón Rafnar Hjálmarsson frá Bakkakoti í Austurdal. Sífellt leiðbeinandi, skarpur, skemmtilegur og réttsýnn. Hann gaf þeim ádrepu sem ekki fylgdu settum reglum. Ég, sem réð ekki við aðdáun mína á þokkafullum skólasystrum, stalst oftar en einu sinni inn á kvennagang, sem var forboðið, en því lauk þegar ég var loks gripinn og tekinn í gegn af skólastjóra, sem ég þakka fyrir eftir á þótt sárt væri um sinn.
Gunnar var drengskaparmaður, prúður og yndislegur félagi sem fylgdi ævinlega settum reglum, sonur sýslumannsins, sem sat í skólanefnd. Gunnar var skarpur námsmaður, var alltaf í fremstu röð. Séra Sigurður í Holti hélt okkur við andleg mál og ýmislegt fleira gott. Hann orti skólasönginn, sem okkur þótti afar vænt um og allir lærðu utan að: „Komið heil, komið heil til Skóga …“
Í kennaraliðinu var úrval manna. Þeir leiðbeindu með hlýju og vinsemd, innrættu okkur stundvísi og kapp í námi, góða siði og drengilega framkomu við leik og íþróttir. Þeir æfðu með okkur ljóðanám og söng á móðurmálinu og erlendum tungum, dans, skáklist, vélritun og skógrækt í hlíðum Skóga að vorinu o.fl. Þetta var fyrir tölvur og síma. Guði sé lof að ekki var enn tekin upp sú afsiðun nútímans að vara menn við að læra utan að.
Að loknu námi og góðu veganesti fórum við Gunnar og fleiri félagar fyrst í Menntaskólann á Akureyri eftir hvatningu skólastjórans. Síðan skildi leiðir um sinn og við fórum svo í framhaldsnám til útlanda en tókum upp þráðinn í vináttunni þegar heim kom.
Gunnar var bundinn við hjólastól síðustu árin en hélt samt lífsgleði sinni. Það var notalegt að heimsækja hann og Aðalheiði Þorsteinsdóttur, ágæta konu hans, á hjúkrunarheimilið Mörk, en þar bjuggu þau síðustu árin.
Góðar minningar fylgja Gunnari yfir gröf og dauða. Hlýjar kveðjur sendi ég til Aðalheiðar og sona þeirra, Þorsteins og Eyvindar, afkomenda og skylduliðs.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir.