Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
„Þetta er það stærsta sem komið hefur fyrir mig á mínum hönnunarferli. Ég er í skýjunum,“ segir Helga Lilja Magnúsdóttir fatahönnuður um tilnefningu sem hún hlaut til Hönnunarverðlauna Íslands sem veitt verða í Grósku nú á fimmtudaginn. Helga er ásamt listamanninum Stephan Stephensen höfundur hinnar vinsælu James Cook-ullarpeysu sem tilnefnd er í flokknum vara ársins.
James Cook er hluti af BAHNS-tískumerki Helgu.
Önnur tilnefnd verkefni eru stefnuvirku hátalararnir Hljómkassar eftir Halldór Eldjárn og Jón Helga Hólmgeirsson og bókin Eldgos eftir teiknarann, hönnuðinn og rithöfundinn Rán Flygenring.
Jákvæð félagsleg áhrif
Í rökstuðningi dómnefndar segir að peysan sé frábært dæmi um hvernig góð hönnun getur haft jákvæð félagsleg áhrif. Með tímanum hafi orðið til samfélag unnenda James Cook-peysunnar sem megi með réttu kallast nútímaklassík í íslenskri hönnun. „Tekist hefur að skapa einkennandi mynstur sem sækir innblástur í ljósmerki siglingabaujanna sem leiðbeina sjófarendum, en mynstrið er jafnframt að finna í sundfatnaði BAHNS og ýmsum öðrum prjónaflíkum. Peysan hentar öllum kynjum og aldurshópum og er framleidd í takmörkuðu upplagi og mismunandi litaútfærslum og því felst í henni ríkt söfnunargildi,“ segir dómnefndin.
Helga segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé sjálfgefið að fá tilnefningu fyrir fatahönnun. Til að slíkt gerist þurfi vara að vera búin að vinna sér sess meðal neytenda, eins og James Cook hafi náð að gera frá því hún kom fyrst á markaðinn árið 2015. „Peysan er orðin sígild. Ef einhver kaupir sér peysu er nær öruggt að hann muni koma aftur og fá sér fleiri,“ segir Helga.
Hátt í þúsund peysur
Spurð hve margar peysur hafi selst frá upphafi segir Helga að erfitt sé að segja til um það, en það slagi örugglega hátt í þúsund peysur.
Hún segir að James Cook hafi fyrst verið gerð í bláum og brúnum tónum. Fljótlega hafi bæst við grænn og pastelbleikur, sem sé mjög óvenjulegt að sjá í ullarpeysum.
„Ég fann þegar ég kom með þessa liti að það fékk gríðarlega góðar viðtökur. Þetta eru litir sem gleðja.“
Hún segir að salan hafi svo tekið kipp árið 2018 þegar barnapeysur komu á markað. „Þá sprakk þetta út. Þá var loks hægt að fá þessa aðgengilegu og fallegu ullarpeysu á alla fjölskylduna,“ segir Helga, en peysan kostar 33.900 kr. „Ég vil ekki hafa hana of dýra, þá kaupir fólk frekar fleiri peysur. Margir eiga fleiri en sex. Svo sé ég hana ganga kaupum og sölum í loppubúðunum, sem gleður mig mjög mikið.“
Peysan er prjónuð rétt fyrir utan Vilnius höfuðborg Litáens. „Því miður er engin verksmiðja hér á landi með vélbúnað sem ræður við framleiðsluna.“
Um nafnið segir Helga að peysan sé nefnd eftir samnefndum breskum átjándu aldar landkönnuði.
Hún segir að allt garn sé prjónað nákvæmlega í peysuna og því sé nær engu hráefni sóað.
„Maður fer varla niður í bæ nema sjá einhvern í peysunni. Útlendingar hafa komið hlaupandi í búðina hjá mér eftir að þeir hafa tekið eftir peysunni hér og hvar um borgina,“ segir Helga að lokum.