Árni Gunnarsson fæddist í Reykjavík 16. júlí 1950. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. október 2024.
Foreldrar hans voru Gunnar Brynjólfsson, f. 16.4. 1916, d. 13.6. 1980, og Stella Guðmundsdóttir, f. 19.12. 1922, d. 10.10. 1984. Alsystkini: Gísli, f. 4. 5. 1942, Sólrún, f. 26.4. 1945, d. 9.5. 2016, Óli Björn, f. 11.2. 1949, d. 24.8. 2019. Sammæðra: Henning, f. 16.1. 1957, Edda, f. 24.9. 1959. Samfeðra: Hallveig Njarðvík, f. 20.9. 1947, d. 3.8. 2014, Ástrós, f. 5.9. 1957, d. 14.5. 2008, Helga, f. 5.9. 1957, Brynjólfur, f. 14.4. 1959, María Birna, f. 4.8. 1960. Fósturbróðir Ómar Magnússon, f. 29.6. 1948.
Árni kvæntist 8. september 1973 Kristínu Lilju Sigurðardóttur frá Grundarfirði, f. 9. mars 1951 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Þórdís Þorbjörnsdóttir, f. 10.8. 1920, d. 5.8. 2001, og Jakob Sigurður Árnason, f. 3.11. 1930, d. 7.2. 2018, fósturfaðir Sveinbjörn Hjartarson, f. 6.5. 1919, d. 3.4. 1994.
Börn Árna og Kristínar Lilju eru: 1) Þórdís Lilja, f. 28.7. 1973, gift Sigurði Oddi Sigurðssyni, f. 25.9. 1973, börn: a) Tómas Hrafn, f. 3.6. 1992, unnusta hans er Janina Engels, f. 1993. b) Oliver Fannar, f. 28.4. 1995, c) Arna Rut, f. 31.5. 2001, d) Gabriel Árni, f. 28.11. 2002, í sambúð með Malina Mykland, f. 2005. e) Ísabella Ýr, f. 30.9. 2013. 2) Gunnar Sveinn, f. 23.10. 1974. Börn: a) Ágúst Örn, f. 27.12. 1990, móðir hans er Berglind Long, börn hans eru Rakel Lind, f. 2018, og Rebekka Sif, f. 2019, b) Valdemar Geir, f. 23.3. 1996, móðir hans er Gyða Valdemarsdóttir, dóttir hans er Guðrún Salka, f. 2015. 3) Arna Ýr, f. 21.6. 1983, d. 13.2. 1994. Fyrir átti Árni Hauk Jens Jacobsen, f. 3.3. 1969, móðir hans er Gudrun Jacobsen, f. 8.2. 1951, giftur Dögg Guðmundsdóttur, f. 9.5. 1970, þeirra synir eru: a) Kristinn Haukur, f. 7.7. 2004, og b) Óskar Örn, f. 27.2. 2008, fyrir átti Haukur Helenu, f. 25.7. 1992, maki Davíð Þór Ágústsson, f. 1980, hennar dóttir er Hrafnhildur, f. 2010.
Árni ólst upp í Reykjavík. Eftir skólaskyldu hóf hann nám í framreiðslu á Hótel Borg 1966-1969, kláraði verknámið en lauk síðar bóklega hlutanum 1994. Tók einnig tvo bekki í Iðnskólanum 1973-1975 í plötu- og ketilsmíði og var á samningi í Stálsmiðjunni undir handleiðslu föður síns Gunnars Brynjólfssonar.
Á árunum 1970-1972 bjó hann í Winnipeg í Kanada.
Hann starfaði ýmist á sjó eða í landi, við verslunarstörf eftir að þau fluttu til Grundarfjarðar 1975.
Árið 1982 fluttu þau aftur til Reykjavíkur og þá vann hann m.a. hjá Gámaþjónustunni, Flutningatækni, Arnarflugi, Íslandsflugi, Atlanta Air og Norwegian Air, m.a. við innkaup og almenn skrifstofustörf.
Árni gekk í Frímúrararegluna St. Joh., St. Fjölni 3.11. 1998. Hann hlaut meistarastig 17.10. 2000 og X-stig reglunnar 15.2. 2024. Hann gegndi þar ýmsum embættum síðastliðin 24 ár.
Útför hans fer fram í Bústaðakirkju í dag, 5. nóvember 2024, klukkan 13.
Pabbi minn var bestur, á því er enginn vafi. Hann umvafði okkur öll með kærleika sínum. Hann var ekki maður margra orða en hann sýndi okkur það í verki. „Jæja, hvað er að frétta í Nojaraland“ var frasi sem heyrðist í hvert sinn sem hann hringdi. Pabbi var rólegur og yfirvegaður með allt á hreinu og annálað snyrtimenni, það átti allt að vera í lagi. Hann var sjúklega fyndinn og hnyttinn í tilsvörum, hláturmildur og alltaf til í fjör, hann kunni líka að njóta.
Börnin mín nutu einstaks afa sem alltaf var alltaf til í að gefa af sér, það var létt að biðja hann að skutla því honum þótti sérstaklega gaman að keyra bíl. Hvað sem er og hann var klár, alltaf til í allt.
Pabbi minn lagaði líka besta matinn, hann var annálaður matmaður sem sá um eldhúsið á sínu heimili. Besti fiskurinn og bestu steikurnar, pasta var nefnilega ekki matur í hans augum, áttum við margar góðar stundir yfir pottinum við feðginin. Og ekki spillti eitthvað gott í glasið með.
Elsku pabbi minn, vá hvað lífið getur breyst á stuttum tíma, þú og elsku mamma, sem þú barst á höndum þér, að njóta seinni hlutans. Fara til London á fótboltaleik þar sem ykkar sameiginlega ástríða var fótboltinn og ykkar lið Chelsea, koma til okkar til Noregs eða þið að njóta saman á Tenerife. Svona var síðasta árið búið að vera og næstu ár áttu líka að vera svona. Við byrjuð að plana næstu ferðir saman. Á svipstundu er allt breytt og við sitjum eftir í sorg. Við söknum þín öll svo mikið.
Við kveðjum með trega en miklu þakklæti, hversu góður þú varst okkur öllum, þú skilur eftir hafsjó af minningum sem við getum hlýjað okkur við.
Móttökunefndin hefur tekið vel á móti þér, elsku Arna Ýr sem við söknuðum svo mikið og systkinin þín sem þú saknaðir svo.
Þín dóttir,
Þórdís Lilja.
Jæja gannli.
Þá er komið að kveðjustund afi minn. Þetta er mikill missir. Þú hefur alltaf verið kletturinn í lífi mínu sem ég gat treyst á að redda málunum þegar ég kom mér í vandræði. Hvort sem það er að koma mér heim þegar ég missi af flugi hinum megin á hnettinum sem fátækur námsmaður eða að gefa mér góð ráð þegar ég þarf á þeim að halda, eða einfaldlega að vera alltaf til staðar þegar maður þarf einhvern til að spjalla við.
Þú lifðir lífinu rétt, naust þess að njóta og vera með fjölskyldunni við hvert tækifæri. Alltaf í besta formi þegar við vorum öll saman í góðu yfirlæti. Þú vissir vel hvað mikilvægustu hlutirnir í lífinu voru og hefur sýnt mér það í gegnum tíðina og tókst hlutina ekki of alvarlega.
Ég er mjög heppinn að hafa fengið þau forréttindi að hafa fyrirmynd eins og þig. Stór hluti af þér lifir enn í mér og ég vona bara að ég geti verið meira eins og þú í framtíðinni.
Afi minn, hetjan mín, ég mun sakna þín innilega.
Tomas Hrafn Jónsson.
Elsku Árni bróðir var góður maður í alla staði, hann var alltaf léttur í skapi, húmoristi með gullhjarta. Hann var fjölskyldumaður, hugsaði vel um sitt fólk sem og aðra. Góður kokkur var hann og sælkeri mikill, hann hafði gaman af ferðalögum og öllu sem því fylgdi, hann hafði gaman af fótbolta, fór á leiki erlendis og fleira. Það er sárt að horfa eftir honum yfir móðuna miklu, hann átti mikið óklárað. Það verður vel tekið á móti honum hinum megin, Arna Ýr dóttir þeirra hjóna, sem lést aðeins tíu ára, sem og Óli bróðir, Solla systir, mamma hans og pabbi taka á móti honum hlýjum örmum.
Með þessum fáu orðum vil ég minnast Árna.
Elsku Stína, Haukur, Þórdís, Gunni og barnabörn, megi allir góðir vættir vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.
Fallinn er frá góður maður,
yfir móðu skýjum ofar,
á móti tekur góður staður,
elsku drengur guð þig lofar.
Henning Haraldsson
og fjölskylda.
Það var fagur dagur hinn 21. október síðastliðinn, daginn sem æskuvinur minn og félagi kvaddi þennan heim eftir tæplega þriggja mánaða hetjulega baráttu eftir alvarlegt slys sem orsakaði mænuskaða. Við Árni kynntumst fyrst árið 1967 en hann var í vinahópi eiginkonu minnar heitinnar. Árni var þá við nám í framreiðslu á Hótel Borg sem hann hafði byrjað í árinu áður, þá 16 ára gamall. Í þá daga var margt brallað, ekki bara böll heldur einnig útilegur og helgarferðir út á land. Ein slík kemur upp í hugann en hún var farin í Þórsmörk þar sem vinahópurinn átti yndislega helgi við leiki, fjallgöngur og að sjálfsögðu varðeld og gleði. Þar naut Árni sín innilega og var hrókur alls fagnaðar.
Árið 1969 eignaðist Árni soninn Hauk Jens en síðsumars það sama ár lagðist hann í víking er hann munstraði sig á og sigldi með Ms. Esju til Bahamaeyja, en þangað hafði skipið verið selt. Eftir stutt stopp þar hélt Árni norður til Kanada þar sem enn stærri ævintýri biðu hans en þar vann hann m.a. við að keyra jarðýtur á snævi þöktu víðlendinu með marga sleða fulla af vörum í drætti um óbyggðirnar. Þar um slóðir var lítið um vegi en þeim mun meira af af vegleysum og ísilögðu votlendi. Hann sagði mér að sumar þessara ferða hefðu reynt mikið á en um leið verið ákaflega spennandi og gefandi.
Eftir að heim var komið kynntist Árni eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Lilju, þau eignuðust dótturina Þórdísi Lilju og giftu sig árið 1973 og árinu seinna fæddist þeim sonurinn Gunnar Sveinn. Árni vann á þessum árum hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík þar sem hann var við nám í plötu- og ketilsmíði. Þau hjón fluttu síðan til Grundarfjarðar í nokkur ár. Árið 1983 byrjaði Árni störf hjá Arnarflugi hf. og þar unnum við vinirnir saman í nokkur ár. Þetta sama ár fæddist þeim hjónum önnur dóttirin, Arna Ýr, en örlögin eru órannsakanleg því í febrúar 1994 misstu þau litlu dóttur sína úr bráðaveikindum sem komu eins og reiðarslag og varð fjölskyldunni mjög þungbær missir. En lífið heldur áfram þökk sé Guði.
Vinnan við flugið átti ákaflega vel við Árna og eftir að starfsemi Arnarflugs lagðist af starfaði Árni lengi hjá Íslandsflugi, þá Flugfélaginu Atlanta þegar starfsemi þessara tveggja flugfélaga var sameinuð og loks hjá Norwegian Airways. Undir það síðasta vann hann hjá Gámafélaginu þar sem hann loks hætti launaðri vinnu og settist í helgan stein ef svo má að orði komast.
Elsku Stína mín, Haukur, Þórdís, Gunnar, tengdabörn, barnabörnin og barnabarnabörn, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð og bið góðan Guð að leiða ykkur hér eftir sem hingað til. Minningin um góðan dreng lifir að eilífu.
Lárus Atlason (Lassi).