Kristrún Frostadóttir
Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimilanna. Kostnaðurinn við að lifa venjulegu lífi hefur rokið upp úr öllu valdi á Íslandi. Það er of dýrt að borga vexti, of dýrt að borga húsnæði og það er meira að segja of dýrt að kaupa í matinn hérna. Þessu ætlar Samfylkingin að breyta – fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum þann 30. nóvember.
Leyfum þeim ekki að afvegaleiða umræðuna
Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað kostnað heimilanna. Með verðbólgu, vöxtum og húsnæðisverði – og með því að þyngja skattbyrði venjulegs vinnandi fólks, jafnt og þétt, frá árinu 2013. Það er löngu ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að fara með fé og forysta flokksins er vanhæf til að stjórna.
Leyfum Sjálfstæðisflokknum ekki að afvegaleiða umræðuna og beina sjónum frá eigin vanhæfni. Nú skulum við standa saman og svara þeim af festu. Og gleymum því ekki hve illa Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist fólkinu í landinu á liðnu kjörtímabili.
Sjálfstæðisflokkurinn hækkar vexti
Fyrir síðustu kosningar lofaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lágum vöxtum. Það er skemmst frá því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sveik loforðin – og rústaði þannig plönum bæði heimila og fyrirtækja.
Í fyrra greiddu heimilin í landinu 40 milljörðum meira í vexti en árið 2021. Þetta er það sem við höfum kallað ofurskattinn á ungt fólk og alla sem skulda. Sem dæmi hefur greiðslubyrði fólks af meðalláni hækkað um 150 til 350 þúsund krónur í hverjum mánuði, eftir því hvort lánið er verðtryggt eða ekki.
Þetta gerðist vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti alla stjórn á efnahagsmálunum. Verðbólga fór á flug og vextir hækkuðu – en fráfarandi ríkisstjórn reyndist fullkomlega vanhæf til að ná stjórn á stöðunni. Seðlabankinn var skilinn einn eftir og látinn hækka vextina, og því fór sem fór: Verðbólgan var brotin á baki hins almenna launamanns.
Munum þetta þann 30. nóvember.
Sjálfstæðisflokkurinn hækkar verð
Fyrir síðustu kosningar lofaði Sjálfstæðisflokkurinn stöðugleika. Hvernig hefur gengið að standa við stóru orðin? Allt kjörtímabilið hefur verðbólga á Íslandi verið í hæstu hæðum. Verðbólgan hefur verið yfir markmiði núna í meira en fjögur ár.
Meðalíbúð hefur hækkað úr 50 milljónum króna í 70 milljónir, bara á þessu kjörtímabili. Á sama tíma hefur matarkarfan hækkað. Fjölskylda sem komst af með að verja 125 þúsund krónum í matvörubúð á mánuði árið 2021 þarf nú að borga um 400 þúsund krónum meira á ári fyrir matinn. Það munar um minna.
Munum þetta þann 30. nóvember.
Sjálfstæðisflokkurinn hækkar skatta
Fyrir utan hækkun vaxta og verðlags gæti einhver haldið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lækkað skatta á hinn almenna mann. En það er rangt.
Þvert á móti: Sjálfstæðisflokkurinn hefur þyngt skattbyrði venjulegs vinnandi fólks frá árinu 2013.
Skattbyrði er hlutfallið af heildartekjum sem greitt er í beina skatta að frádregnum tilfærslum. Og þegar gögn Hagstofu Íslands eru skoðuð kemur á daginn að skattbyrði allra tekjuhópa hefur þyngst frá árinu 2013, með einni undantekningu, sem er að skattbyrði tekjuhæsta hópsins hefur minnkað á þessu tímabili.
Munum þetta þann 30. nóvember.
Samfylkingin er eini flokkurinn með plan
Við í Samfylkingunni erum með plan til að lækka kostnað heimilanna. Forgangsmál okkar númer 1, 2 og 3 verður að gera það sem þarf til að kveða niður verðbólgu og vexti. Það gerum við með því að taka til í ríkisrekstri og fara betur með fé – auk þess að ráðast í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, afla tekna með sanngjörnum hætti og lögfesta stöðugleikareglu í ríkisfjármálum.
Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk. Við erum eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur kynnt sitt plan fyrir kosningarnar 30. nóvember – með þremur ítarlegum útspilum sem heita Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum og Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum.
Planið er til tveggja kjörtímabila og gengur út á að fjárfesta í innviðum til að auka verðmætasköpun, ýta undir hagvöxt og draga úr rekstrarkostnaði hjá hinu opinbera. Það kallar á fjármögnun í fyrstu en skilar ávinningi til lengri tíma eins og allir vita sem hafa rekið fyrirtæki. Á tekjuhlið ríkissjóðs viljum við taka upp almenn auðlindagjöld, skrúfa fyrir skattaglufur og laga fjármagnstekjuskattskerfið til að auka jafnræði í skattheimtu launa og fjármagns.
Hverjum treystirðu best til að lækka kostnað heimilanna?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann kann ekki að fara með fé, og forysta flokksins kann ekki að stjórna fyrir fólkið í landinu. Þau eru ekki með neitt plan og boða ekki neinar breytingar. En við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað vexti, hækkað verð og hækkað skatta á hinn almenna mann.
Verður þetta gleymt og grafið þann 30. nóvember – eða munu kjósendur veita Sjálfstæðisflokknum verðskuldaða ráðningu?
Senn fær þjóðin tækifæri til að svara fyrir sig með kjörseðlinum.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.