Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Allt bendir til að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, verði ræðudrottning hins stutta þings sem nú er á lokametrunum.
Inga hefur flutt 46 ræður og athugasemdir (andsvör) á 155. löggjafarþinginu og talað í samtals 355 mínútur, eða rétt tæpa sex tíma.
Næstur kemur Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sem flutt hefur 87 ræður/athugasemdir og talað í samtals 239 mínútur. Það helgast að því að umræður um fjárlagafrumvarpið hafa verið meginefni haustþingsins.
Eyjólfur enn ofarlega
Aðrir þingmenn sem talað hafa í meira en 100 mínútur eru Guðmundur Ingi Kristinsson 24/171, Eyjólfur Ármannsson 57/154, Andrés Ingi Jónsson 35/133, Willum Þór Þórsson 41/125 og Njáll Trausti Friðbertsson 26/101.
Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, var sá þingmaður sem talaði mest allra á 154. löggjafarþinginu sem lauk í júní í sumar. Hann var því nýr ræðukóngur Alþingis.
Eyjólfur flutti 562 ræður og athugasemdir (andsvör) og talaði í samtals 1.936 mínútur. Hann stóð því í rúmar 32 klukkustundir samtals í ræðustól Alþingis.
Sú þingkona sem lengst talaði á fyrra þingi var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Hún flutti 262 ræður og andsvör og talaði í samtals 1.096 mínútur. Var hún í 4. sæti á lista yfir málglöðustu þingmenn. Nú hefur Inga bætt verulega í og stefnir á 1. sætið.
Á 154. löggjafarþinginu var það Sigurður Ingi sem talaði mest allra ráðherra, 239/669.
Á yfirstandandi þingi hafa verið fluttar 1.253 ræður/andsvör og hefur umræðan staðið yfir í rúma 61 klukkustund. Á síðasta þingi voru fluttar 10.635 ræður/andsvör og stóð umræðan í samtals 537 klukkustundir.