Horfur eru á að verðbólga hjaðni áfram á næstu árum en hagkerfið hefur kólnað og aðhald peningastefnunnar er enn mikið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri Þjóðhagsspá Hagstofunnar.
Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki að meðaltali um 5,9% á þessu ári og um 3,8% árið 2025. Fyrir árið 2026 er reiknað með 2,7% hækkun.
Þá kemur fram að gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist samhliða hægari efnahagsumsvifum og verði að meðaltali 3,7% í ár og 4,1% á næsta ári. Laun hafa hækkað að raunvirði það sem af er ári og er gert ráð fyrir að launavísitala miðað við fast verðlag hækki um 0,5% í ár og 1,8% á næsta ári.
Fyrir árið 2025 er spáð 2,4% hagvexti sem byggist á áframhaldandi vexti einkaneyslu, bata í utanríkisviðskiptum og jákvæðu framlagi fjármunamyndunar. Á árinu 2026 er hagvöxtur áætlaður 2,7% og að vöxturinn verði á breiðum grunni.
Þá hefur gengi krónunnar styrkst á síðustu mánuðum, verðbólga erlendis hjaðnað og olíuverð á heimsmörkuðum lækkað.