Karl Blöndal
Danska leikkonan Trine Dyrholm er orðin fastagestur á Íslandi. Hún dvaldi hér mestan hluta sumarsins við tökur á þáttaröðinni Danska konan í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og í liðinni viku var hún komin hingað aftur til að vera við sýningu á myndinni Stúlkan með nálina (Pigen med nålen) í Bíó Paradís og ræða við áhorfendur í lok hennar.
Stúlkan með nálina er frábærlega gerð og vel leikin í svarthvítu um eitt frægasta sakamál Danmerkur á 20. öldinni. Myndin gerist í kringum 1920 og fjallar um unga konu, sem verður ólétt og býr við slíka örbirgð að hún sér ekki fram á að ráða við að eignast barnið. Þá verður kona á vegi hennar, sem segist geta komið barninu í fóstur gegn gjaldi. Dyrholm leikur þá konu og er persóna hennar byggð á Dagmar Overby. Ekki má segja of mikið um söguþráðinn, en þó má koma fram að mál Overby varð til þess að lögum um barnavernd var breytt í Danmörku.
Dyrholm sagði eftir sýninguna að hún hefði sótt í persónu Fagins í Oliver Twist eftir Dickens og myndirnar Særingamanninn og Vitann eftir innblæstri í hlutverkið. Hér er sálræn hrollvekja á ferð, sem iðulega lætur áhorfandanum renna kalt vatn milli skinns og hörunds þótt meira sé gefið í skyn en sýnt.