Guðmundur Jóhannes Borgarsson fæddist 24. september 1941. Hann lést 23. október 2024.

Útför hans fór fram 1. nóvember 2024.

Hann pabbi varð pabbi minn þegar ég var á 5. aldursári, þegar hann og mamma mín urðu par, seinna hjón. Aldrei fann ég annað frá honum en að ég væri dóttir hans. Hans fólk var hans fólk, hver sem tengslin voru. Ég fann það alla tíð hvað mig varðaði, og svo seinna þegar ég eignaðist tvo fóstursyni til viðbótar við minn eigin son, pabbi var svo jafn mikill afi þeirra allra.

Við pabbi áttum sterkt og gott samband, með nokkrum stormum inn á milli, stormum sem geisuðu kannski meira innra með mér þegar mér mislíkaði við hann, en pabba var ekki auðvelt að mótmæla.

Pabbi stjórnaði heimilinu, gat verið mjög harður, orðljótur og fastur fyrir en mýktist skemmtilega með aldrinum.

Pabbi gaf engan afslátt þegar kom að vinnu og vinnusemi, maður skyldi vinna á meðan maður stóð í lappirnar. Seinna meir kannaðist hann ekki við að hafa talað fyrir þessu, sagði að maður ætti nú alls ekkert að vera að vinna of mikið.

Þegar ég var krakki var matvendni heldur ekki samþykkt, kannski ekki mikið vandamál í mínu tilviki, en ef einhver borðaði ekki það sem var á borðum þá gat viðkomandi bara verið svangur. Í seinni tíð varð pabbi sjálfur með matvandari mönnum.

Seinna meir fyrirgaf ég honum flest það sem mér hafði mislíkað við hann og tók hann í sátt eins og hann var, ég veit að hann gerði alltaf eins vel og hann gat, og það var oftast ekkert lítið.

Pabbi hvatti mig alltaf áfram og fól mér ýmis og fjölbreytt verk, bæði heima fyrir og á vinnustaðnum. Í minningunni finnst mér eins og hann hafi alltaf trúað að ég gæti allt, alla vega lét hann mig oftast upplifa það. Hann og mamma hvöttu mig líka alltaf og studdu til náms og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Þegar ég eignaðist svo ung son minn kom ekkert annað til greina en að gefa pabba nafn og skíra son minn Jóhannes.

Pabbi lagði mikið upp úr samheldni innan fjölskyldunnar, þó hún væri sett saman úr barnaskara frá mismunandi mömmum og pöbbum.

Börn pabba úr fyrra hjónabandi fylgdu honum flest strax eða fljótlega yfir í okkar nýju fjölskyldu og var hann örugglega nokkuð á undan sinni samtíð þar. Meira að segja þannig að þegar hann kannaði með að fá greidd barnameðlög með þeim var því hafnað með þeim skilaboðum að feður fengju aldrei greidd barnameðlög, slíkt þekktist bara ekki.

Myndaveggurinn, þar sem voru tíu stækkaðar ljósmyndir, ein af hverju þeirra níu barna sem pabbi og mamma áttu til samans, og svo brúðkaupsmyndin af þeim, sagði pabbi að sýndi sín helstu auðæfi. Stundum vöknaði honum aðeins um augu þegar hann talaði um okkur börnin sín, en þá var hann kannski stundum búinn að fá sér örlítið í tána, sem hann lengi vel hafði nú mjög gaman af.

Pabbi var verkstjóri í eðli sínu, starfaði sem slíkur lengst af, en tók þann hatt ekkert endilega af sér þegar heim var komið. Honum fannst betra að stýra verkum annarra en að vinna þau endilega sjálfur, þannig var bara hann pabbi. Dásamlegur eins og hann var.

Takk, pabbi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína.

Herdís Pála.

Nú hefur stórfrændi minn Jóhannes Borgarsson kvatt þetta líf. Hann var yngsti bróðir pabba og hefur því alltaf verið hlekkur í mínu lífi. Jói fæddist á Hesteyri í Jökulfjörðum, en foreldrar hans, Borgar og Jensey, fluttust í Hafnir á Suðurnesjum árið 1946 með synina fjóra, Jón, Jósef, Svavar og Jóhannes.

Ég ólst upp í Höfnum. Þegar ég var stelpukrakki höfðu Jón og Jósef byggt hús í Höfnum, en Svavar og Jói bjuggu heima hjá foreldrum sínum, svo það var mikill samgangur á milli. Það var alltaf einstök vinátta og virðing á milli föður míns og Jóa.

Ég man enn jólagjafir frá bræðrunum Svavari og Jóa, en þeir slógu saman og gáfu okkur Bogga frænda flottustu jólagjafirnar. Upp úr stendur stór rauður trévörubíll með sturtupalli, það sem þetta var flottur bíll. Við Boggi lékum okkur og keyrðum möl í grunna eða sand í nýbyggingar og byggðum mörg falleg hús.

Þegar ég var 16 ára var ég í sumarvinnu á BSK (Bifreiðastöð Keflavíkur) og fékk að vera heima hjá honum og fyrri konu hans Ástu Sigurðardóttur. Þau höfðu ekki aukaherbergi en settu dívan innst í stofuna og litla kommóðu fyrir mig og iðulega borðaði ég með þeim. Mér leið vel hjá þeim og má segja að þarna hafi tengslin styrkst enn frekar.

Jói var lengi verkstjóri í frystihúsum og vel liðinn. Hann eignaðist fimm börn með Ástu, en þau misstu dreng. Þau slitu samvistir.

Seinni kona Jóa er Rósamunda Þórðardóttir, hún átti fjögur börn með fyrri manni sínum. Árið 1980 eignuðust þau soninn Sigurð Júlíus. Börnin þá orðin níu sem þau ólu upp og talaði frændi minn alltaf eins og hann ætti eins mikið í öllum börnunum og var afar stoltur af þeim. Það var fallegt að sjá þau Rósu og Jóa treysta hvort á annað og byggja upp stórfjölskylduna, þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti. Hann treysti á Rósu sína, hún var kletturinn hans.

Jói komst næst því að vera stóri bróðir okkar Bogga og hélt alltaf góðu sambandi. Hringdi í okkur eða kíkti við. Það var alltaf notalegt þegar Rósa og Jói komu við og spjölluðu um heima og geima. Ég á eftir að sakna umhyggju hans. Hann hafði vökult augnaráð og faðmurinn var hlýr og umvefjandi.

Ég er þakklát fyrir þig elsku frændi minn og kveð þig með virðingu og þökk.

Þín frænka,

Elín Sigríður (Ella Sigga).