Finnur Loftsson fæddist 28. mars 1963. Hann lést 23. október 2024.

Útför hans fór fram 1. nóvember 2024.

Finnur var þriðji í hópi okkar systkinanna fimm en mamma var tvítug þegar hún eignaðist hann. Hún þreyttist aldrei á að segja mér söguna af því þegar hún fékk hann í fangið nýfæddan og hversu hugfangin hún var af þessum dreng með svarta, síða hárið og dökku augun sem seinna urðu brún. Frásagnir mömmu af Finni lýstu barni sem var allt í senn; hljóðlátur og þægilegur, skemmtilegur og kátur, bráðlyndur og uppátækjasamur, og ekki síst fallegasta ungbarn sem hún hafði séð, að okkur systkinunum ólöstuðum.

Þegar mamma og pabbi hófu búskap var Finnur 13 ára. Pabbi segir mér að Finnur hafi verið mjög ljúfur unglingur, kátur og skapgóður og einstaklega handlaginn. Sem dæmi um handlagni hans byrjaði hann að gera upp gamlan bíl tveimur mánuðum áður en hann tók bílpróf, þá tæplega 17 ára, og kom bílnum í gegnum skoðun daginn sem hann tók bílprófið. Sumarið sem hann var 18 ára keypti hann annan gamlan bíl, Camaro, í frumpörtum, raðaði honum saman, gerði við og kom honum á götuna sumarið eftir. Þetta krafðist mikillar vinnu og útsjónarsemi og hann þurfti sjálfur að smíða ýmsa varahluti í bílinn auk þess að gera við vélina og gírkassann. Bílana notaði hann óspart og gerði það víst gjarnan að fara í bílferðir þegar auglýst hafði verið í útvarpi að borgarbúar ættu að halda sig heima vegna ófærðar. Það gerðist ósjaldan að skömmu eftir lestur slíkra tilkynninga bankaði Finnur upp á.

Sem barn og unglingur var ég mikið hjá Finni og Hörpu, konunni hans, og passaði dætur þeirra oft, þær Helgu og Brynju. Ef mamma og pabbi þurftu að bregða sér af bæ fékk ég líka gjarnan að gista hjá þeim. Tenging mín við dætur hans hefur alla tíð verið náin og það er ljúft að sjá hversu líkar þær eru pabba sínum, hvor á sinn hátt.

Finnur var mörgum góðum kostum búinn. Hann var afar greiðvikinn og umtalsfrómur. Sjálf naut ég oft góðs af hjálpsemi hans á fullorðinsárum mínum. Þegar við Hjörtur, maðurinn minn, fluttum til Íslands að loknu námi í Danmörku bauð hann okkur til dæmis að búa hjá sér og Hörpu á meðan við værum í húsnæðisleit. Við vorum þó ekki ein á ferð því okkur fylgdu þrjú smábörn og stór og fyrirferðarmikill hundur. Finni var alveg sama um það, okkur stóð þetta til boða, þyrftum við á að halda.

Fyrir nokkrum dögum var ég á ferðalagi í bíl með Jóhanni syni mínum sem er átta ára, en í bílnum hlustuðum við á upplestur sögunnar Bróðir minn Ljónshjarta, eftir Astrid Lindgren. Í upphafskafla hennar er staðnum Nangijala lýst á ljóðrænan hátt en það er eins konar himnaríki þar sem ævintýri bíða þeirra sem kvatt hafa jarðvist sína og veikt fólk öðlast bata. Drengurinn hlustaði hljóður á þessa fallegu lýsingu og leit svo á mig og sagði: „Kannski er Finnur kominn núna til Nangijala til ömmu.“ Ég ætla að kveðja þig, Finnur minn, með þessari barnslegu ósk, að þú sért kominn á stað þar sem hver dagur er ævintýri líkastur. Minningin um fallega og góða bróður minn mun alltaf fylgja mér.

Þín systir

Ragnhildur.

Nú syrgi ég einn mesta meistara sem ég hef kynnst. Sjálfan Ittabóa.

Leiðir okkar lágu mikið saman í gegnum tíðina, þó aldrei eins mikið og á tíunda áratug síðustu aldar þegar báðar fjölskyldurnar bjuggu fyrir norðan. Ittibói var miklu meira en bara frændi. Hann var einn af mínum allra bestu vinum. Hann kenndi mér margt enda kunni hann allt og betri kennari var ekki til.

Þegar ég var að læra að keyra var ég í æfingaakstri hjá Ittabóa og það voru sko forréttindi. Hann kenndi mér meira að segja að gera alvöruhandbremsubeygjur! Það fannst mér geggjað og þótt ein og ein felga skemmdist þá varð bara að hafa það. Ittibói tók allt upp á annað og skemmtilegra stig. Hjálpaði mér með ýmislegt eins og að laga kúplingu, tengja útvarp og fleira. Það var alltaf gaman þegar Ittibói var í heimsókn. Þetta voru skemmtileg ár. Þótt samskiptin minnkuðu með árunum var alltaf klárt hver var skemmtilegasti frændinn enda Ittibói einstakur karakter.

Hvíldu í friði.

Loftur Baldvinsson.

Finnur frændi hafði boðist til að keyra mig til vinnu í fiskvinnslu einn morgun í myrku skammdeginu. Eitthvað var undirritaður seinn á fætur og Finnur frændi, sem var annálaður glanni, sagði mér að hafa engar áhyggjur af því að verða of seinn. Toyota-druslan var stigin í botn og brunað niður Gilið á Akureyri á hraða sem er ekki birtingarhæfur. Þetta var í snjó og hálku og bíllinn stefndi ofan í hafið eftir salíbununa niður Gilið.

En í staðinn fyrir að enda ofan í ísköldum sjónum tók Finnur handbremsubeygju á ofsahraða og stefndi svo í norður í átt að Oddeyri. Eftir nokkrar handbremsubeygjur til viðbótar, þar sem ein slík var 450 gráðu beygja sem verður ekki leikin eftir fyrr né síðar, komum við á réttum tíma. Ég var þakklátur að hafa náð að koma til vinnu á réttum tíma en líka þakklátur fyrir að hafa verið bænheyrður þegar ég bað Guð að þyrma lífi mínu þegar Finnur ók með mig á ofsahraða um flughálar götur Akureyrar.

Þótt Finnur væri vissulega glanni og stundum ofsafenginn í ýmiss konar tiltektum, þá var ekki annað hægt en að treysta honum. Það kom sjálfkrafa við nánari kynni af manninum. Eftir þó nokkrar samverustundir með Finni kom í ljós viðkvæmur maður sem vildi öllum vel og gerði allt fyrir alla.

Á unglingsárum þess sem þetta ritar var Finnur eins konar goðsögn hjá félagahópi undirritaðs. Til voru margar slagsmálasögur af Finni og aðrar sögur af ýmiss konar uppátækjum sem litaðar voru af almennum töffaraskap. Ekki nóg með það. Hann var svo einstaklega handlaginn, að því er virtist við hvað sem er, að maðurinn átti sér enga jafningja. Maðurinn gerði við bilaðar bíldruslur með hröðum handtökum og tengdi rofa og ljós eins og að drekka vatn. Eitt sinn þegar tengja þurfti hljóðgræjur í bílnum mínum stóð óskiljanleg víraflækja út í loftið. Fyrir venjulega manneskju olli þetta miklum heilabrotum sem engin niðurstaða fékkst í. Finnur frændi hló að vangaveltum okkar sem stóðum hjá og horfðum á víraflækjuna. Hann tók sig til og með hröðum handtökum tengdi hann víra saman, að því er virtist hugsunarlaust. Síðan var græjunum skellt í og ýtt á „on“. Græjurnar fóru í gang með látum og virkuðu vel æ síðan. Alltaf var Finnur til í að gefa af tíma sínum og fyrirhöfn fyrir fólkið sem honum augljóslega þótti vænt um og gerði nánast allt fyrir.

Ofsinn og æðibunugangurinn í Finni gat verið svakalegur og skemmtilegur. Menn sem þekkja til lýsa honum þannig frá barnæsku. Sjálfsagt með ógreinda ofvirkni og tíðar voru ferðirnar á slysadeild í æsku og eitthvað hélt það áfram fram á fullorðinsár. En hraðinn, hvatvísin og ofvirknin gerðu Finn að litríkum og stórskemmtilegum manni og margar fyndnar, ævintýralegar og jafnvel æsilegar sögur af Finni hefðu annars ekki orðið til.

Finnur lifir áfram í huga allra þeirra sem voru svo heppnir að fá að kynnast honum. Annað er ógerningur. Slíkur var maðurinn. Líklegast mun minningin um Finn Loftsson lifa inn í eilífðina.

Takk fyrir að hafa verið til Finnur.

Jón Þórður Baldvinsson.

Mér hefur alltaf þótt Finnur frændi sniðugur. Hann var mjög klár, handlaginn og bara hreint út sagt rosalega flinkur. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar hann hringdi mjög stoltur heim til okkar einn daginn. Ég svaraði og Finnur tilkynnti að hann væri að hringja úr heimasímanum en að hann væri líka á internetinu! Svona fyrir samhengi sögunnar þá var þetta fyrir aldamót og almennt ekki hægt að vera á netinu og nota heimasímann á sama tíma. Nettengingin slitnaði líka ef einhver svaraði í hringjandi heimasíma. Finnur útlistaði fyrir mér hvernig þessi nettenging hans virkaði en Finnur átti það til að taka einræður um allt mögulegt. Eitthvað sem hann hafði kynnt sér í þaula og kannski fengið smá á heilann. Þessi nettenging var dæmi um slíkt. Mér verður oft hugsað til Finns og þessa símtals þegar ég stend í ströggli við lélega nettengingu.

Annað sem fær mig til að hugsa hlýlega til Finns er þegar ég sé krakka á háhesti. Við Finnur vorum nefnilega einu sinni samtímis í stórafmæli hjá afmælisbróður mínum. Þegar búið var að syngja afmælissönginn fyrir þann sem hélt afmælið þá reif Finnur mig upp á axlirnar á sér og arkaði um túnið þar sem veislan var haldin og söng mjög hátt afmælissönginn mér til heiðurs. Hann gerði þetta á þann hátt að mér fannst ég vera merkilegasta manneskjan á jörðinni. Það eru liðin rúm þrjátíu ár síðan þetta var en ég brosi ennþá þegar ég hugsa um þessa stund. Þetta lýsir líka Finni.

Hann var með svo stórt og gott hjarta. Maðurinn með stóra hjartað sem var betri en allir aðrir í tetris skilur nú eftir holrúm. Við getum aldrei fyllt í þetta holrúm en munum með tímanum læra að lifa með því. Allar minningarnar um Finn, sögurnar sem hann sagði, brandararnir sem yfirleitt var hægt að endurtaka ansi oft og hans stórkostlegu dætur og yndislegu barnabörn sem bera áfram hans bestu persónueinkenni gera okkur kleift að við munum aldrei gleyma þeim sniðuga manni sem Finnur föðurbróðir minn var.

Bryndís Baldvinsdóttir.

Vorið 1978 kynntist ég tengdafjölskyldu minni og þar með talið Finni sem var miðjubarnið í systkinahópnum.

Hann var orkumikill og alltaf tilbúinn að læra eitthvað nýtt. Það var fátt sem var honum óviðkomandi þegar kom að tækni eða bara hvernig hlutir virkuðu yfirleitt.

Veturinn 1979-1980 kom Finnur með hálfgert bílhræ, eða það fannst mér, í bílskúrinn hjá pabba sínum. Hann var harðákveðinn í að koma garminum á götuna þegar hann fengi bílprófið 17 ára gamall. Með skóla, aukavinnu og dugnaði tókst honum ætlunarverkið. Þegar ég fór heim af fæðingardeildinni í lok mars 1980 var það Finnur sem keyrði okkur brosandi heim á fallega rauðum Peugeot-bílnum sínum. Það er óljóst hvort þornaði á undan, lakkið á bílnum eða blekið á ökuskírteininu.

Á aðfangadagskvöld 1982 voru Finnur og tengdafaðir minn hjá okkur. Finnur átti Sinclair Spectrum-tölvu sem hann hafði mikið dálæti á. Hann var búinn að taka hana alla í sundur og skoða vel, hann skrifaði inn skipanir sem tölvan svo framkvæmdi. Ég skrifa þetta vegna þess að ég gleymi ekki hvað hann var glaður þegar hann fékk oggulítinn prentara í jólagjöf en pappírinn var svona rúlla eins og greiðslukvittanir eru í dag. Ótrúlegt en satt þá var þetta fyrir hartnær 42 árum.

Þessi fáu orð segja kannski örlítið um hvernig Finnur var en hans er sárt saknað og ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Hörpu, Helgu, Brynju og maka þeirra. Það er sárt að vita að barnabörnin fengu ekki að kynnast afa sínum betur.

Guðrún Ásta Franks.

Fregnin af andláti Finns Loftssonar kom sem reiðarslag fyrir alla fyrrverandi vinnufélaga hans hjá GEA Westfalia. Finnur vann hjá fyrirtækinu í fimmtán ár.

Á þessum árum ávallt með Baldvini bróður sínum. Starfið fólst fyrst og fremst í að koma upp skilvindum og þjónusta á Íslandi og í Færeyjum. Finnur hafði mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði enda verið yfirvélstjóri til sjós í mörg ár. Engin verkefni voru of lítil eða of stór fyrir Finn. Hvort sem það var reglubundið viðhald á skilvindum, viðgerðir eða að koma í gang nýjum skilvindum. Finnur leitaði alltaf að bestu lausninni fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Framleiðslustöðvun þarf alltaf að vera sem styst og það þarf að fá sem mest út úr hráefninu. Finnur vann myrkranna á milli til þess að ná þessu fram. Hann geymdi þá svefn og hvíld til seinni tíma. Þekking hans og atorka var mikils metin af viðskiptavinum Westfalia. Hvort sem hann var að vinna einsamall eða í félagi við aðra þá stuðlaði hann að góðu orðspori fyrirtækisins. Þegar Finnur talaði þá var best að hlusta og læra af honum. Hann var hreinskiptinn og vildi alltaf vel. Margir ungir norskir starfsmenn fyrirtækisins fengu að vinna með Finni. Betri læriföður var erfitt að finna.

Norrænn stjórnarfundur Westfalia var haldinn á Íslandi eitt árið og þá bauð Finnur öllum í hesthúsið sitt. Þar fengum við að læra margt um íslenska hestinn og umhirðu hans. Það var gaman að sjá áhuga og ástríðu Finns á hestamennsku. Í starfinu hjá Westfalia þurfti Finnur oft að taka vinnuna fram yfir fjölskyldu, vini og áhugamál. Erfitt gat verið að spá fyrir hvenær ný verkefni komu á borð og hversu lengi hann þurfti að vera í burtu hverju sinni.

Finnur Loftsson var einn allra duglegasti maður sem ég hef fengið heiðurinn af að starfa með.

Blessuð sé minning hans.

Dag Moxnes, yfirmaður Westfalia á Norðurlöndum.