Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir alla nemendur eiga að geta lesið og skilið texta við hæfi eftir yngsta stig grunnskóla. Flokkurinn boðar stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu en Áslaug kynnti tillögur í málaflokknum fyrir komandi kosningar ásamt Hildi Sverrisdóttur í 2. sæti og Jóni Pétri Zimsen í 3. sæti listans í Grósku í gær. Höfuðáhersla er lögð á grunnskólakerfið, þótt einnig séu aðgerðir undir sem snúa að öðrum skólastigum en Áslaug Arna segir afleiðingar slaks námsárangurs gera að verkum að börn njóti ekki jafnra tækifæra, meginviðfangsefnis menntakerfisins. Flokkurinn vill afstýra því að helmingur drengja og þriðjungur stúlkna nái ekki grunnfærni í lesskilningi. „Til að sá árangur náist boðum við fjölþættar aðgerðir og setjum menntakerfið í fyrsta sæti og börnin okkar í forgang. Þau eru það mikilvægasta í okkar lífi og eiga það skilið,“ segir Áslaug. Efnt verður til menntamálafundar í næstu viku til samtals um tillögurnar.
Ný aðalnámskrá og námsmat
Jón Pétur er aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. Segir hann tillögurnar framkvæmanlegar og að mörgu leyti hafi skólasamfélög þar sem hann þekkir til framkvæmt þær áður. Brýnt sé að gera nýja þekkingarmiðaða aðalnámskrá en núverandi námskrá sé það alls ekki. Með henni muni námsmat einnig breytast svo skólafólk, nemendur og foreldrar geti nýtt sér það betur. Matsviðmið námskrárinnar, sem byggist á textum táknuðum með bókstöfum, verða lögð af samkvæmt tillögunum og skólar hafa frelsi til að útfæra eigið námsmat sem sé réttmætt og áreiðanlegt. Jón Pétur segir samræmt námsmat skipta máli til að skólar, nemendur og foreldrar fái endurgjöf á starfið. Vilji flokksins standi til þess að samræmd próf verði lögð fyrir í 4., 7. og 10. bekk. „Við erum með samræmdan námstíma, samræmda námskrá og þess vegna ættum við að vera með samræmt námsmat í lokin.“
Símalausir skólar
Jón Pétur segist lítið fyrir forræðishyggju en flokkurinn leggur til að skólar verði símalausir. Segir hann stór fyrirtæki hanna ávanabindandi samfélagsmiðla og leiki og að vera með símann titrandi í vasanum sé veruleg áskorun fyrir fullorðið fólk, hvað þá börn. „Ég hef spurt krakkana í skólanum, sem segjast fá 20-40 skilaboð í hverjum tíma. Þetta þarf að gerast samræmt að mínu mati svo jafnræðis verði gætt og skólarnir verði í betri stöðu gagnvart slíkum reglum.“
Mikilvægt er að fylgjast vel með stöðu hvers og eins nemanda á yngsta stigi, segir Jón, og að enginn fari af stiginu án þess að geta lesið, skilið og skrifað texta við hæfi. Ef nemandi dragist aftur úr verði gefið í með hann þar til hann nær hinum á ný.
„Það skapar ró að nemendum líði vel með það sem þeir gera í skólanum, að þeir geti lesið og skilið. Þannig líður þeim betur og eru líklegri til að hafa áhuga á náminu. Þannig munu agamál einnig batna og starfsumhverfi kennara um leið.“