Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Ljóst var í gærmorgun að forseti Moldóvu, Maia Sandu, hefði tryggt sér endurkjör í seinni umferð forsetakosninganna þar í landi, en hún hlaut 929.964 atkvæði, eða 55,34% af gildum atkvæðum. Mótframbjóðandi hennar, Alexander Stoianoglo, hlaut 750.644 atkvæði, eða sem nam um 44,67% af gildum atkvæðum.
Kosningarnar voru haldnar í skugga Úkraínustríðsins, en Stoianoglo var frambjóðandi moldóvska Sósíalistaflokksins, sem hefur lýst yfir stuðningi við að landið halli sér frekar að Rússum en Evrópusambandinu. Þá hafa Rússar verið sakaðir um tilraunir til þess að hafa áhrif á úrslit kosninganna Stoianoglo í vil.
Sandu vann kosningarnar ekki síst vegna stuðnings Moldóva sem búa utan heimalands síns, en meirihluti þeirra kjósenda sem enn eru búsettir í Moldóvu studdi Stoianoglo. Naut hann ekki síst stuðnings í dreifbýli og í Transnistríu, þar sem rússneskumælandi aðskilnaðarsinnar ráða ríkjum, en stuðningur Sandu innan Moldóvu kom einkum frá höfuðborginni Kisíná og öðrum borgum landsins.
Sandu hét því í þakkarræðu sinni að hún myndi vera forseti allra Moldóva, jafnt þeirra sem studdu hana og hinna sem gerðu það ekki. „Það skiptir engu hvað þið kusuð, við viljum öll lifa í friði, í samlyndi og fá betra líf. Ég heiti ykkur að það er helsta markmið mitt á komandi árum,“ sagði Sandu.
Atlaga að lýðræðinu
Sandu vék einnig óbeint að ásökunum um að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á kosningarnar og sagði að Moldóvar hefðu veitt umheiminum „kennslustund í lýðræði“, sem væri þess verðug að vera skrásett á spjöld sögunnar. „Frelsi, sannleikur og réttlæti höfðu betur,“ sagði Sandu.
Þá sagði hún að óvinaöfl utan Moldóvu hefðu reynt ófyrirleitna árás á lýðræðið í landinu og meðal annars beitt til þess mútum og annars konar inngripum í kosningarnar, en að landið hefði staðið atlöguna af sér. „Þið hafið sýnt að ekkert stendur í vegi fyrir krafti fólksins þegar það velur að tjá sig með atkvæði sínu,“ sagði Sandu.
Stoianoglo sagði í upphafi kvöldsins að allir þyrftu að halda ró sinni, sama hver úrslitin yrðu, og jafnframt að nú væri kominn tími til að binda enda á hatur og misklíð meðal Moldóva. Stoianoglo tjáði sig hins vegar ekki frekar eftir að úrslitin lágu fyrir á sunnudaginn, og í gær lýsti Sósíalistaflokkurinn því yfir að Sandu væri „ólögmætur forseti“ sem nyti einungis viðurkenningar frá erlendum „bakhjörlum og stuðningsmönnum“.
Rannsaka meint inngrip Rússa
Lögregluyfirvöld í Moldóvu lýstu því yfir á sunnudaginn að þau væru að rannsaka „árásir, ögranir og tilraunir til að grafa undan stöðugleika“ í landinu. Rannsakaði lögreglan meðal annars „skipulagðan flutning kjósenda á kjörstað“, sem er ólöglegur í Moldóvu, en á samfélagsmiðlum mátti sjá ljósmyndir af löngum bílaröðum í Transnistríu, sem voru sagðar hluti af þeim flutningum.
Sagðist lögreglan einnig hafa vísbendingar um að Rússar hefðu staðið fyrir því að flytja kjósendur, sem búsettir væru í Rússlandi, til sendiskrifstofa Moldóvu í Hvíta-Rússlandi, Aserbaísjan og í Tyrklandi.
Á sama tíma urðu þrjár sendiskrifstofur landsins í Þýskalandi og Bretlandi fyrir barðinu á sprengjuhótunum, og sagði utanríkisráðuneyti Moldóvu að þær hótanir hefðu átt að koma í veg fyrir að kjósendur þar gætu komið atkvæði sínu til skila. Þá voru einnig gerðar netárásir á vefþjóna í Moldóvu með kjörskrám, og áttu þær árásir að sögn yfirvalda einnig að trufla framkvæmd kosninganna utan Moldóvu.
ESB fagnar niðurstöðunni
Leiðtogar Evrópusambandsins fögnuðu niðurstöðunni í gær. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, óskaði Sandu til hamingju með sigurinn og fagnaði hinni „evrópsku framtíð“ Moldóvu. Utanríkismálastjóri sambandsins, Josep Borrell, sagði sömuleiðis að niðurstaðan væri til marks um að Moldóvar vildu framtíð innan Evrópu, þrátt fyrir að fjölþátta ógnum hefði verið beitt til þess að grafa undan lýðræðinu.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði að Sandu hefði náð að stýra Moldóvu í gegnum erfiða tíma og markað stefnu landsins örugglega í átt að Evrópusambandinu, og Annalena Baerbock utanríkisráðherra sagði að Moldóvar hefðu náð að hrista af sér tilraunir Rússa til þess að kaupa atkvæði og hagræða úrslitunum, meðal annars með sprengjuhótunum við kjörstaði erlendis.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti óskaði einnig Sandu til hamingju með sigurinn, og sagði að Moldóvar hefðu kosið sér leið í átt að aukinni hagsæld og styrkara samfélagi. Þá lýsti Joe Biden Bandaríkjaforseti einnig yfir ánægju sinni með úrslitin. Sagði Biden að Rússar hefðu reynt í marga mánuði að grafa undan lýðræðinu í Moldóvu, en að þeim hefði mistekist það.