Guðjón Davíðsson fæddist á Jaðri á Langanesi 5. febrúar 1942. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu 26. október 2024.

Foreldrar Guðjóns voru hjónin Davíð Sigurjónsson, f. 1907, d. 1991, og Jónína Guðjónsdóttir, f. 2018, d. 2009. Systkini Guðjóns eru Kristín Þórdís, f. 1945, Oddný Sigríður, f. 1946, d. 2011, Jón Ingimar f. 1947, Sigurjón Guðbjörn, f. 1951, Steinunn Björg, f. 1952, og Jónína Margrét, f. 1955.

Guðjón ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Kristínu Salínu Jónsdóttur, f. 1883, d. 1968, og Guðjóni Þórðarsyni, f. 1883, d. 1968.

Eiginkona Guðjóns er Anna Margrét Eymundsdóttir, f. 28. maí 1944, fædd á Höfn í Hornafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Eymundur Sigurðsson, f. 1920, d. 1987, og Lukka Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 1920, d. 2008.

Guðjón og Anna hófu sambúð 1961 og giftu sig 1963. Börn þeirra eru: 1) Kristín, f. 27. júní 1963, hjúkrunarfræðingur, maki: Sigurgísli Ingimarsson, f. 1956, dætur þeirra eru: a) Sigríður, maki: Kjartan Ólafsson, börn: Kristín Þura, Saga og Emil, b) Anna Gyða, dóttir: Mínerva c) Freyja, maki: Gísli Laxdal Sturlaugsson, barn: óskýrð Gísladóttir. 2) Ingibjörg Guðjónsdóttir, f. 13. nóvember 1965, söngkona og tónlistarkennari, maki G. Andri Kárason, f. 1963, sonur: Daníel Guðjón. 3) Óskar, 17.7. 1974, maki Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir, f. 1975, þau skildu, börn: Orri Elías, Urður Úranía. 4) Ómar Guðjónsson, f. 7.7. 1978, tónlistarmaður, maki Lovísa Sigurjónsdóttir, f. 1978, dætur: Gabríela, Emilía, Högna, Ísadóra.

Eftir hefðbundna skólagöngu hóf Guðjón nám við Héraðsskólann á Laugum. Þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Hafnarfirði, þar sem hann nam húsasmíði hjá Birni Ólafssyni og lauk meistaranámi í húsasmíði frá Meistaraskólanum.

Guðjón var um árabil einn af eigendum Byggðaverks ehf. og var byggingarstjóri að mörgum af stærri verkefnum fyrirtækisins. Má þar m.a. nefna, byggingu Kringlunnar, húsnæði Mjólkursamsölunnar, viðbyggingu Háskólabíós, Nesjavallavirkjunar og B-álmu Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, ásamt fjölda annarra verkefna. Seinni árin starfaði Guðjón sem eftirlitsmaður á Teiknistofunni Óðinstorgi hjá Vífli Oddssyni og hjá Verkfræðiþjónustu Magnúsar Bjarnasonar.

Guðjón og Anna byggðu sér falleg heimili í Garðabænum, fyrst í Reynilundi og síðar í Asparholti á Álftanesi. Þau höfðu yndi af ferðalögum og ferðuðust um landið á húsbíl sínum. Einnig nutu þau þess að fara reglulega til sólarlanda en þó stendur upp úr fjöldi skipaferða til framandi landa hin síðari ár.

Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 5. nóvember 2024, klukkan 15.

Elskulegur tengdafaðir minn Guðjón Davíðsson húsasmíðameistari er fallinn frá, farinn í draumalandið. Þegar kallið kemur streyma um hugann ótal minningar. Það verður skrítið að koma í Asparholtið og líta auða stólinn þinn, þar sem þú varst svo oft vanur að sitja og taka á móti okkur með bros á vör.

Rétt eftir að við Ingibjörg fórum að rugla saman reytum missti ég föður minn sem féll frá langt fyrir aldur fram. Þú gekkst mér svo sannarlega í föðurstað, barst mikla umhyggju fyrir þessum stráklingi úr Skagafirðinum. Fáir ef nokkrir hafa reynst mér eins vel á minni lífsleið. Þú varst minn besti vinur og það er ekki sjálfgefið að eignast tengdaforeldra fyrir bestu vini. Þú varst ekki maður margra orða en umhyggja þín og ást til okkar var takmarkalaus. Fyrir það fáum við seint fullþakkað.

Guðjón var hæglátur maður, glaðsinna og skipti sjaldan skapi en hann gat verið fastur fyrir. Samviskusemi var hans aðalsmerki alla tíð. Hann lagði metnað sinn í að leysa öll sín verk af hendi sem best mátti verða, um það bera vitni öll þau verk og byggingar sem hann hafði umsjón með. Þetta átti ekki síður við einkalíf hans, hann elskaði að hafa barnabörnin sín hjá sér og það gaf honum miklar gleðistundir.

Tengdapabbi var mikill gæfumaður í einkalífinu. Hann kynntist Önnu Eymundsdóttur og þau hófu sinn búskap ung að árum. Þau bjuggu sér fallegt heimili í Garðabæ og síðar á Álftanesinu. Það var okkar lán í lífinu að búa við hlið tengdaforeldra okkar í rúm 18 ár. Við Ingibjörg fjárfestum í raðhúsi í Asparholtinu og Guðjón og Anna létu sér ekki muna um að standsetja tvær íbúðir. Þessi tími var okkur dýrmætur og Daníel, sonur okkar, átti margar góðar og dýrmætar stundir með afa og ömmu. Það voru ófáar veislurnar haldnar í Asparholtinu og þá var nú gott að hafa tvö eldhús.

Guðjón var heimakær maður og í faðmi fjölskyldunnar undi hann sér best. Ég fann það vel þegar við ræddum saman hvað hann var stoltur af sínum börnum og bar velferð þeirra fyrir brjósti. Guðjón var mjög traustur og tryggur og alltaf boðinn og búinn að rétta fram hjálparhönd.

Tengdafaðir minn var umvafinn fjölskyldunni síðustu daga og vikur og naut umönnunar tengdamóður minnar heima í Asparholtinu. Við dáðumst öll að henni, ást hennar var okkur öllum augljós, takmarkalaus svo falleg allt til hinstu stundar. Þessar kveðjustundir voru ómetanlegar og ég mun geyma þær í hjarta mér. Þú valdir þann tíma sem þú varst tilbúinn til að sleppa takinu og kveðja – leggja af stað til ljóssins.

Sem dropi tindrandi

tæki sig út úr regni

hætti við að falla

héldist í loftinu kyrr.

Þannig fer unaðssömum

augnablikum hins liðna.

Þau taka sig út úr

tímanum og ljóma

kyrrstæð, meðan hrynur

gegnum hjartað stund eftir stund.

(Hannes Pétursson)

Að leiðarlokum þökkum við Ingibjörg og Daníel fyrir allt og allt og hafðu ekki áhyggjur elsku vinur, við munum öll hugsa vel um ömmu og umvefja hana ást og hlýju. Far þú í friði, blessuð sé minning Guðjóns Davíðssonar.

Þinn elskandi tengdasonur,

G. Andri Kárason.

Í dag þegar ég kveð elskulegan tengdaföður minn og vin, hann Guðjón, leitar hugurinn aftur í tímann er fundum okkar bar saman fyrsta sinni haustið 1980 er ég hafði kynnst elstu dóttur hans og sótti stíft að fá hönd hennar. Guðjón var í fyrstu varfærinn við þennan galgopa sem vildi hafa af honum sína elstu og kæru dóttur og hafði sig lítt í frammi við þessi fyrstu kynni okkar. Guðjón hafði alla þá eiginleika sem prýða fyrirmyndareinstakling þ.e. hógværð, lítillæti, mikla manngæsku, ástúð og síðast en ekki síst fádæma dugnað til vinnu.

Hann var fæddur á Þórshöfn á Langanesi og ólst upp við kröpp kjör hjá móðurforeldrum sínum á Jaðri rétt innan við þorpið. Hann átti þar ánægjurík æskuár. Þessi uppvaxtarár mótuðu hann fyrir lífstíð og talaði hann alltaf af mikilli virðingu um þau prýðishjón á Jaðri. Þar eð ég ólst upp mín fyrstu æviár á Sauðanesi á Langanesi áttum við oft skemmtilegar samræður um okkar sameiginlegu átthaga.

Guðjón var ekki fæddur með silfurskeið í munni en komst með fádæma dugnaði í álnir og skapaði fjölskyldu sinni sérlega fallegt heimili í Garðabæ. Nýtni og útsjónarsemi var tengdaföður mínum í blóð borin. Engu skyldi henda sem hugsanlega nýttist síðar, öll vinna við heimilið skyldi unnin með eigin höndum og ekki keypt aðstoð fyrr en útséð var að við yrði ráðið sem henti þó ekki oft.

Guðjón var húsasmíðameistari að mennt og átti afar farsælan feril sem slíkur. Hann stofnaði ásamt félögum sínum fyrirtækið Byggðaverk. Stærsta verkefni þeirra var án efa bygging stærstu verzlunarmiðstöðvar þess tíma á Íslandi, þ.e. Kringlunnar. Þar var Guðjón sem byggingarstjóri í essinu sínu, enda nýttust þá hæfileikar hans sem byggingarmanns til hins ýtrasta. Hann sýndi í þessu gríðarstóra og flókna verki fádæma útsjónarsemi, frábæra verkstjórn og einstakan dugnað. Dagarnir voru langir og strangir, hann mætti fyrstur og fór síðastur. Hann var harður húsbóndi en sanngjarn og ætlaðist ekki til meira af mannskap sínum en hann ætlaðist til af sjálfum sér og var þeim þannig frábær fyrirmynd. Öll þau ár sem ég þekkti hann rekur mig ekki minni til þess að hann hafi nokkurn tíma látið sig vanta einn einasta dag til vinnu. Þetta þótti mér mikils um vert.

Þrátt fyrir langa og stranga vinnudaga alla tíð hafði hann einhvern veginn alltaf tíma til að rétta okkur í fjölskyldunni hjálparhönd. Hann lifði fyrir fjölskyldu sína. Hann átti miklu konuláni að fagna með henni Önnu tengdamóður minni og bar aldrei skugga á þeirra einlæga samband. Á heimili sínu átti hann skjól innan um sína nánustu, þar breiddi hann út faðminn sem var breiður og nóg pláss fyrir alla. Hann var hógvær og lítillátur. Verkin skyldu standa fyrir sínu og það væri annarra að dæma um ágæti þeirra.

Guðjón hafði alla tíð mjög skemmtilegan húmor sem ég naut ríkulega þegar mér lánaðist að taka hann með mér í ferðir vestur í Ísafjarðardjúp til stangveiða. Þar áttum við í mörg sumur ógleymanlega daga saman. Veiðin var í forgangi en þó ekki allt, því að á kvöldin nutum við samveru í fábrotnu en notalegu hótelinu í Reykjanesi. Þar naut tengdapabbi sín við að gera góðlátlegt grín. Oftar en ekki hafði eitthvað drifið á daga okkar fyrr inni í dalnum sem varð honum tilefni til skemmtilegrar frásagnar.

Blessuð sé minning Guðjóns Davíðssonar. Hann var mér alla tíð mikil fyrirmynd, og þá sérstaklega fyrir það að vera fjölskyldumaður, tengdafaðir og afi fram í fingurgóma. Harmur okkar er mikill en þó mestur hjá ástkærri tengdamóður minni sem nú lifir sinn besta vin og félaga.

Sigurgísli Ingimarsson.

Elskulegi tengdapabbi, mig langar að minnast þín með örfáum orðum.

Það er orðinn ansi langur tími síðan ég kom fyrst í Reynilundinn en þá upphófst okkar saga. Okkar saga er orðin nokkuð löng.

Þú tókst mér opnum örmum frá fyrstu stundu sem var mikilvægt að finna fyrir þar sem við Ómar vorum mjög ung að árum þegar okkar ævintýri byrjuðu. Þú lést mig alltaf finna að ég væri velkomin í fjölskylduna og hefur alla tíð gert síðan. Við þurftum ekki mörg orð okkar á milli til að skynja hlýjuna og kærleikann sem streymdi á milli. Faðminn þinn og kossinn sem fylgdi á eftir mun ég alltaf muna með mikilli hlýju.

Ég minnist með hlýju vetursins þegar ég fékk far hjá þér í vinnuna inn í Hafnarfjörð á hverjum morgni – þar sátum við tvö, bæði þögul, en þögnin var aldrei óþægileg. Tyggjópakkinn á milli sætanna og þú með alla vega eitt uppi í þér.

Tengdapabbi var afbragðsdansari og átti ég alltaf vísan dans með honum á mörgum af eftirminnilegum ættarmótum Meysalinga.

Hjálpsemina og óserhlífnina sem hefur alltaf einkennt ykkur hjónin í öllu okkar brasi við íbúðarkaup, húsakaup, sumarbústaðakaup og eða framkvæmdir vil ég þakka ykkur báðum hér með.

Að horfa upp á samheldni ykkar elsku Önnu tengdamömmu og ást ykkar á milli er okkur öllum ómetanlegt og veitir innri styrk til okkar sem fylgdumst með. Ég minnist með hlýju og miklu þakklæti ferðar okkar fjölskyldunnar og ykkar hjóna til Tene en þar naustu þín í sólinni akandi um á rauðu þrumunni.

Síðustu dagar hafa einkennst af miklum kærleik, hlýju og ást ykkar fjölskyldunnar, ég er þakklát fyrir að vera hluti af þínu fallega og góða klani.

Megir þú hafa þökk fyrir allt elsku tengdapabbi minn.

Hvíldu í guðs friði.

Þín tengdadóttir,

Lovísa Lind.

Ég sé upplýstan helli. Helli sem er lokaður í allar áttir. Hann er þó ekki dimmur, hann er bjartur. Upplýstur. Ég finn fyrir birtunni brjótast út í gegnum veggi hellisins, eins og fiskur í neti, eins og krepptur hnefi í réttlætisbaráttu, eins og vatnspollur fastur upp við steinvegg. Vatnið fyllir hægt og rólega inn í raufar veggjarins, sogar sig að endingu inn í steypuna sjálfa þar til það er komið út hinum megin. „Vatnið finnur sér alltaf leið,“ segja mennirnir sem gera við lekann heima hjá mér. Þannig upplifi ég ljósið í hellinum. Ég finn fyrir ljósorkunni sprengja utan af sér, springa út, fylla út í innanvert rýmið með slíkum krafti að veggirnir brotna smám saman í mola.

Þetta er mynd sem mér birtist þegar þú fórst. Henni fylgdi kántríballaðan If You Needed Me, ein af þeim sem hafa við og við ómað inn í sjónvarpsherbergi ykkar ömmu frá því ég man eftir mér. Melódía sem við hlustuðum meðal annars á á dánarbeðinum síðustu dagana. Ég veit enn ekki hvaðan ljósið í hellinum kemur, né heldur hvað það táknar, en mig grunar að það tali inn í dagana sjö sem við fjölskyldan áttum saman heima undir lokin. Falleg og einstök vika sem við fengum, eiginlega ótrúleg. Allavega heilög. Tími sem maður þakkaði fyrir á meðan hann enn leið. Samvera allan liðlangan daginn, tónlist, góður matur, sófahangs, rúmhangs, faðmlög, grátur, hlátur, lokaorð, bænaorð, blessunarorð, kveðjuorð, samtöl um tilvist og það sem ekki fæst skilið, samtöl um yfirborð og undirborð og allt þar á milli. Léttleiki og alvara til skiptis, eðli lífsins – býst ég við. Kærleiksljós? Ljósorka ástarinnar? „If you needed me, I would come to you. I would swim the sea for to ease your pain. Well, the night’s forlorn and the morning’s born. And the morning’s born with the lights of love.“ Orka sterkari en öll önnur. Elsku afi minn. Ég finn fyrir djúpstæðu þakklæti fyrir að hafa átt þig að. Öll ástin, gleðin og tónlistin sem þið amma hafið gefið okkur í gegnum árin. Sálargospel og kántrí – melódíur sem hafa breytandi áhrif á sálina. Við Mínerva höldum sömuleiðis utan um, og verndum, einstakt samband ykkar tveggja. Frá fyrsta degi drógust þið hvort að öðru. Ætli um hafi verið að ræða tenginguna sem hendir aðeins fólk á öndverðum meiði lífsskalans? Þá sem samhliða stíga sín fyrstu og síðustu skref? Ykkar á milli var nokkurs konar glitrandi ullarþráður eins og sá sem vísaði Írenu veginn í teiknimyndinni Prinsessan og durtarnir. Þráður sem útvaldir finna fyrir og sjá; þeir minnstu og þeir elstu. Ósýnilegur töfraþráður staðsettur á milli vídda. Það var allavega eins og þið tvö væruð með aðgengi að annarri vitneskju en við hin.

Takk fyrir allt, afi minn. Hér í „raunheimi“ ber ég nafn þitt með stolti þar til við hittumst aftur, þá næst í unaðssölum þeim er sálmurinn á blaðsíðu 222 vísar í, sálmurinn sem við lásum undir lokin. Ég veit þú kemur þegar ég kalla, en óboðinn ertu líka alltaf velkominn. Betri verndarengil get ég vart ímyndað mér.

Anna Gyða.

Guðjón mágur okkar var mörgum mannkostum búinn. Fyrir okkur í stórfjölskyldunni þá var hann einstaklega góður og hlýr, hjálpsamur og örlátur og með eindæmum traustur og skemmtilegur vinur og félagi.

Guðjón var dugnaðarforkur, ákafamaður til verka og vel vinnandi. Hann var fljótur að sanna verkfærni sína og áræðni eftir nám og kom okkur því ekki á óvart að hann var ráðinn í stór verkefni eins og byggingu Kringlunnar og treyst fyrir að bera ábyrgð á fleiri stórframkvæmdum. Við nutum þessara kosta hans eins og sjálfsagt fleiri því hjálpsamari og bónbetri vin er vart hægt að hugsa sér. Ef Guðjón frétti að einhver í fjölskyldunni væri í framkvæmdum eða að byggja þá var hann fljótur til og bauð fram aðstoð. Aðstoð hans og vinnuframlag fyrir fjölda fjölskyldumeðlima er ómetanlegt.

Guðjón hefur þó ekki staðið einn í þessum krefjandi og oft tímafrekum verkefnum. Anna systir okkar stóð alla tíð við hlið hans og studdi svo eftir var tekið. Það var gæfa systur okkar að Guðjón kom á vetrarvertíð til Hornafjarðar árið 1961. Þau tóku fljótt saman og hófu búskap ung, fjölskyldan stækkaði og þau samheldin í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur um ævina. Anna er önnur í röð okkar tíu systkinanna til að festa ráð sitt. Spenningur og eftirvænting fylgdi oft þegar einhver bættist í Vallanesfjölskylduna. Við skynjuðum fljótt að systir okkar hafði hitt lífsförunaut sem hefur staðið undir öllum okkar væntingum og gott betur. Guðjón var fljótur að aðlagast þessari

stóru fjölskyldu og sú samleið hefur einkennst af notalegri samheldni og endalausri hjálpsemi, eins og áður er sagt. Ekki má gleyma glaðværðinni þegar við hittumst, fjölskyldan, og Guðjón var þar enginn eftirbátur með sín hnyttnu og eftirminnilegu tilsvör.

Það lýsir vel einstöku örlæti þeirra hjóna og vináttu gagnvart okkur systkinunum að þau buðu okkar húsaskjól til lengri og skemmri dvalar, m.a. vetrarlangt til að ljúka skólanámi. Fyrir það erum við ævarandi þakklát.

Börn þeirra bera foreldrum sínum gott vitni með einlægri framkomu sinni og notalegri nærveru. Við vitum að börnin fengu jákvæða hvatningu í uppeldinu og mikinn og góðan stuðning við uppátæki sín og áhugamál. Árangurinn leynir sér ekki. Þau systkinin hafa veitt fólki ómælda ánægju og meðal annars vakið aðdáun fyrir glæsilegan og stundum frumlegan tónlistarflutning og sviðsframkomu. Við í stórfjölskyldunni höfum notið hæfileika þeirra ríkulega við fjölmörg tækifæri og einkum þegar við komum saman á fimm ára fresti, afkomendur Eymundar og Lukku. Guðjóns verður sárt saknað í sumar þegar við hittumst á Hornafirði eins og venjulega til að njóta samveru og skemmta okkur saman.

Elsku Anna systir, Kristín, Ingibjörg, Óskar, Ómar og fjölskyldur ykkar, megi fallegar minningar um góðan dreng verða ykkur huggun í sorginni.

Agnes, Eygló, Albert, Ragnar Hilmar, Brynjar, Benedikt Þór, Halldóra, Óðinn.