Guðni Tómasson
Guðni Tómasson
Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ráðið Guðna Tómasson í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með morgundeginum, 6. nóvember 2024. Ráðið er í starfið til fjögurra ára í senn

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ráðið Guðna Tómasson í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með morgundeginum, 6. nóvember 2024. Ráðið er í starfið til fjögurra ára í senn.

Guðni er fæddur árið 1976 og er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst sem og meistaragráðu í listasögu frá St. Andrews-háskólanum í Skotlandi. Hann tekur við starfinu af Láru Sóleyju Jóhannsdóttur sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra frá árinu 2019.

Segir í tilkynningu að Guðni hafi starfað við fjölmiðlun á menningarsviðinu frá því laust eftir aldamót, einkum við miðlun tónlistar- og menningarlífs hjá Ríkisútvarpinu, nú síðast sem menningarritstjóri. Þá var hann stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2010-2014, sat í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss á árunum 2019-2023 og var einnig formaður listráðs Hörpu 2022-2024. Einnig var hann ráðgjafi mennta- og menningarmálaráðherra í menningarmálum 2012-2013 og formaður starfshóps um ritun menningarstefnu stjórnvalda sem samþykkt var 2013. Jafnframt hefur Guðni tekið að sér fjölmörg önnur ráðgjafar- og trúnaðarstörf í menningarlífinu.

„Fyrir hönd stjórnar býð ég Guðna Tómasson velkominn til starfa og hlakka til samstarfs við hann. Sinfóníuhljómsveit Íslands er í fremstu röð og þar er ákaflega öflugt starf sem landsmenn taka vel eftir. Undanfarin ár hefur hljómsveitin vaxið og hún hefur alla burði til þess að eflast enn frekar í samstarfi við framúrskarandi listamenn. Áralöng reynsla Guðna af menningu mun sannarlega nýtast hljómsveitinni vel á komandi árum. Á sama tíma þökkum við Láru Sóleyju Jóhannsdóttur fyrir hennar framlag en hún hefur lagt mikið af mörkum til þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum,“ er haft eftir Sigurði Hannessyni, stjórnarformanni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í tilkynningunni þar sem jafnframt segir að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé þjóðarhljómsveit sem hafi verið stofnuð árið 1950 og um árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum.