Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Misvægi er alvarlegur kerfisgalli, sem veldur því að á Íslandi er hvorki gott lýðræði né skilvirkt samfélag.

Örn Sigurðsson

Í lok nóvember munu mætar konur og karlar ná kjöri til Alþingis í fyrsta sinn. Líklega fer fyrir þeim eins og forverum þeirra til marga áratuga að sogast inn í svarthol misvægis atkvæða, þar sem ýmis gildi, verðleikar og skil á milli rétts og rangs eru ekki alltaf skýr því misvægið bjagar jú flest og afskræmir.

Að fenginni heimastjórn 1904 var það eitt af fyrstu verkum Hannesar Hafstein ráðherra að leggja fram á Alþingi tillögu um breytingar á kosningalögum til að jafna vægi atkvæða, fyrst 1905 og aftur 1907. Í bæði skiptin var tillaga Hannesar felld. Í greinargerð með tillögunni kom fram sú sannfæring að á meðan ekki kæmist á jöfnuður í vægi atkvæða í kosningum til Alþingis væri einsýnt að þróun íslensks samfélags yrði mun neikvæðari en ella.

Hannes reyndist sannspár. Árið 2024 er staðan óbreytt. Misvægið er enn 100%. Á 120 árum íslenskrar nútímasögu einkenna þöggun og þrælsótti, skilgetin afkvæmi misvægis atkvæða, flest opinber samskipti og eitra hug margra. Ákvarðanir og framkvæmdir miðast sjaldnast við almannaheill. Glötuð tækifæri blasa við hvert sem litið er.

Misvægi er alvarlegur kerfisgalli, sem veldur því að á Íslandi er hvorki gott lýðræði né skilvirkt samfélag. Hvert stórslysið rekur annað, kjördæmapot, byggðastefna, kvótakerfi, landflótti, einkavæðing ríkiseigna, landsbyggðarflótti, hlutdræg lagasetning og fjölmörg önnur stórmál. Afrakstur samfélagsins af landsins gæðum er alltof rýr. Alvarlegasta stórslys sögunnar er þó 80 ára gamall herflugvöllur, sem var festur í sessi í Vatnsmýri 1946 í stað nýrrar miðborgar.

Fordæmalaus, ólögmæt og fjandsamleg yfirtaka ríkisstjórnar Ólafs Thors 1946 á kjörlendi Reykvíkinga í Vatnsmýri, langstærstu lóð og besta byggingar- og mannvistarsvæði í þéttbýli á Íslandi, undir flugvöll til leigufrírra afnota fyrir Flugfélag Akureyrar var með öllu óréttmæt og án lagastoðar líkt og hernám Ísraelríkis á landi Palestínumanna og innlimun Krímskaga og Donbass-svæðisins í Rússland.

Reykvíkingar misstu besta þróunarsvæðið sitt og lofthelgina yfir Nesinu. Stjórnlaus útþensla (e. urban sprawl) tók við og glænýtt þéttbýli fyrir aðflutta af landsbyggðinni spratt upp á áður óbyggðu landi umhverfis Reykjavík. Forsendur skipulags, samfélags, byggðar og stjórnsýslu breyttust til hins verra með róttækum og afgerandi hætti. Tjón samfélagsins er óskaplegt.

Byggð á HBS er því a.m.k. fjórfalt víðáttumeiri nú en ella, grunnur Strætós og nærþjónustu er löngu brostinn. Bílaeign, útblástur CO2, mengun, samgöngutafir og kostnaður er meiri en víðast hvar en innviðir ófullnægjandi. Mikill landflótti ungra og vel menntaðra er viðvarandi.

Reykvíkingar og kjörnir fulltrúar þeirra hafa frá stríðslokum ráðið litlu um skipulag og þróun Reykjavíkur því með landráninu 1946 færðist skipulagsvaldið með óréttmætum hætti til ríkisins og undir áhrifavald forkólfa Akureyringa og samherja þeirra á landsbyggðinni.

Í lögum og reglugerðum er hvergi stafkrók að finna um að réttur Reykvíkinga til sjálfstjórnar í skipulagsmálum sé minni eða öðruvísi en íbúa annarra sveitarfélaga. Athyglin beinist því að misvægi atkvæða. Skipulagsréttur borgarbúa hvarf hvorki á löglegan, formlegan né rekjanlegan hátt. Ógæfa borgarbúa er einungis fólgin í undirgefni, þöggun og þrælsótta þingmanna og borgarfulltrúa reykvískra stjórnmálaafla með landsbyggðartengingu.

Árið 2024 eru allir kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og á Alþingi háðir sjónarmiðum landsbyggðar í gegnum landsmálaflokka. Störf þeirra og stefna í málum, sem lúta að borgarskipulagi og herflugvelli í Vatnsmýri, mótast af pólitískri bjögun af misvægi atkvæða. Hefð hefur myndast um undirlægjuháttinn en margir kjörnir fulltrúar og embættismenn ríkis og borgar segjast sammála skipulagsstefnu Samtaka um betri byggð, en … „þetta er bara pólitískt ómögulegt“ …!?

Forkólfar Akureyringa og samherja þeirra á landsbyggðinni ráða lögum og lofum á Alþingi og á landsfundum landsmálaflokka. Með vægðarlausri misbeitingu misvægis atkvæða viðhalda þeir auðsveipni kjörinna fulltrúa Reykvíkinga, sem eru þjakaðir af þöggun og þrælsótta.

Yfirráð ríkisins yfir landnotkun í Vatnsmýri eru hvorki lögvarin né raunveruleg. Þau eru þvert á móti formlaus og ólögleg, hreinn tilbúningur. Þau byggjast eingöngu á meðvirkni hinna kjörnu og á ógnarvaldi misvægis atkvæða. Þau hvíla á landráninu og virkjast aðeins með þrælsótta og undirlægjuhætti en hverfa eins og dögg fyrir sólu um leið og hinir kjörnu gera loks skyldu sína, spyrna við fæti og andmæla.

Styrjaldir veraldarsögunnar stafa nær eingöngu af fjandsamlegum landránum. 2024 eru háð tvö blóðug stríð í okkar heimshluta: fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu. Íslenska landránið 1946 olli ekki beinum blóðsúthellingum en rekstur herflugvallar í Vatnsmýri hefur í 80 ár valdið Reykvíkingum og öðrum landsmönnum ólýsanlegum og sívaxandi skaða og haft verulega neikvæð áhrif m.a. á lýðheilsu og þjóðarhag. Ábati þess að reisa þétta og blandaða miðborg í Vatnsmýri er gríðarlegur á öllum sviðum mannlífs í borginni fyrir Reykvíkinga og þjóðarhag.

Höfundur er arkitekt, í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð (BB).

Höf.: Örn Sigurðsson