Landsliðið
Jökull Þorkelsson
jokull@mbl.is
„Það er erfiðara að vinna leiki heldur en að tapa,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Víkinni í gær. Ísland mætir Bosníu í undankeppni EM 2026 annað kvöld en leikurinn er sá fyrsti hjá landsliðinu í rúma fimm mánuði.
Ísland mætir síðan Georgíu í Georgíu næstkomandi sunnudag en Grikkland er fjórða lið riðilsins. Íslensku landsliðsmennirnir voru nýbúnir að hittast á ný þegar að Morgunblaðið talaði við Ými Örn.
Tilbúnir í hörkuleik
Ýmir kvaðst spenntur fyrir komandi verkefni, en flestir voru nýlentir og því allur undirbúningur eftir. „Við vorum bara flestir að hittast núna og sumir eru enn að koma sér af flugvellinum. Við erum að fara á myndbandsfund og síðan er fyrsta æfingin á eftir. Það er alltaf gaman að hitta strákana og í raun alltaf góð stemning þegar við komum saman í landsliðið,“ sagði Ýmir.
Fyrir fram er Ísland langsterkasta lið riðilsins en hin þrjú hafa öll verið á mikilli siglingu undanfarin ár. Öll þrjú liðin voru með á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar á þessu ári en Georgía var það eina sem vann leik, 22:19 gegn Bosníu. Að Ýmis sögn er leikurinn annað kvöld ekkert gefinn.
„Það er alveg hægt að segja að við séum mun sterkari aðilinn en það þarf nú að spila leikina. Það er erfiðara að vinna leiki en að tapa og við munum þurfa að hafa fyrir þessu. Nú verða tvær til þrjár góðar æfingar fyrir leikinn og við setjum upp gott plan. Við erum tilbúnir í hörkuleik í Höllinni.“
Þrjár breytingar á hópnum
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari gerði þrjár breytingar á hópnum í gær en fyrirliðinn Aron Pálmarsson, Elliði Snær Viðarsson og Sigvaldi Björn Gunnarsson eru allir að glíma við meiðsli og verða því ekki með. Arnar Freyr Arnarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson og Birgir Már Birgisson leikmaður FH-inga koma inn í staðinn. Óvíst er hversu mikil tækifæri nýju leikmennirnir fá en Arnar Freyr er reyndur landsliðsmaður á meðan hinir hafa lítið sem ekkert spilað, Benedikt aðeins tvo leiki og Birgir Már engan. „Flott að fá þessa menn inn. Við erum snöggir að stilla okkur saman og látum þetta ganga vel. Þá er ekki hægt að kvarta yfir neinu,“ sagði Ýmir um breytingarnar.
Líður vel hjá nýja félaginu
Ýmir Örn skipti frá Rhein-Neckar Löwen til Göppingen fyrir yfirstandandi tímabil, en bæði lið leika í efstu deild þýska handboltans. Ýmir fær mun fleiri tækifæri hjá Göppingen-liðinu og er einnig að spila sókn. Göppingen er í 13. sæti með sex stig eftir níu leiki. Liðið er með höfuðstöðvar í samnefndri borg nálægt Stuttgart og er þekkt.
„Mér líður mjög vel hjá Göppingen. Bæði í handboltanum og svo er allt gott hjá fjölskyldunni. Ég er mjög glaður þar. Ég vissi að þegar ég skipti um félag þá fengi ég fleiri tækifæri í sókn og ég er ánægður með það. Mér finnst ég hafa staðið mig vel á báðum stöðum vallarins hingað til.
Getur það fært íslensku sókninni aðra vídd?
„Alveg pottþétt. Ég hef einhver gæði fram að færa. Það verður að koma í ljós hversu mikið ég fæ að spila sókn. Það fer bara eftir því hvernig ég sjálfur stend mig, allt undir mér komið,“ bætti Ýmir við.
Ýmir Örn býst við sigri úr leiknum annað kvöld en hann segir stefnuna alltaf setta á sigur þegar liðið spilar á Íslandi, annað þýði ekki. „Við viljum sigur númer eitt, tvö og þrjú. Alltaf sigur þegar við spilum á Íslandi, það er ekki flóknara en það. Við ætlum að mæta og gera það vel, njóta þess að spila saman fyrir Ísland og í Höllinni.“