Uppbygging Tvö kúluhús voru reist í fyrrasumar og þrjú til viðbótar í ár.
Uppbygging Tvö kúluhús voru reist í fyrrasumar og þrjú til viðbótar í ár. — Ljósmynd/Benjamin Viulet
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt verkefni en krefjandi á sama tíma,“ segir Vilhjálmur A. Einarsson, ferðaþjónustubóndi á Oddsparti í Þykkvabæ.

Talsverð uppbygging hefur verið á jörðinni síðasta árið og frekari framkvæmdir eru á teikniborðinu á næstu árum. Vilhjálmur og eiginkona hans, Dana Ýr Antonsdóttir, tóku við rekstri Hlöðueldhússins á jörðinni sumarið 2023 og reistu fljótlega tvö kúluhús sem ætluð voru til útleigu. Skemmst er frá því að segja að kúluhúsin slógu í gegn og nú hafa þau byggt þrjú slík til viðbótar. Ferðaþjónustan er rekin undir nafninu Helja.

Uppbókað allan síðasta vetur

„Það var eiginlega uppbókað allan síðasta vetur. Gestir í kúlunum eru mestmegnis ungt fólk með ævintýraþrá sem leigir hjá okkur í gegnum Airbnb. Norðurljósin spila klárlega stóra rullu í þessari upplifun en það er dásamlegt að liggja nánast á jörðinni og horfa til himins,“ segir Vilhjálmur.

Um þessar mundir er verið að breyta deiliskipulagi á jörðinni. Samkvæmt deiliskipulagstillögu munu þau Vilhjálmur og Dana hafa leyfi til að reisa allt að 15 kúluhús og tvenn þjónustuhús auk stækkunar á núverandi húsnæði fyrir veitingastaðinn og íbúðarhús þeirra. Einnig er gert ráð fyrir fimm stærri húsum til útleigu fyrir gesti. Allt í allt kann að vera gistipláss fyrir 70 gesti þegar fram líða stundir. Vilhjálmur segir þó að þetta sé framtíðarmúsík. Þau ætli sér að stíga varlega til jarðar.

„Það eru langar framtíðaráætlanir þarna inni. Við höfum hugsað okkur að fara í aðeins öðruvísi gistingu næst, um það bil 12 fermetra smáhýsi sem ættu að henta vel með rekstri Hlöðueldhússins. Okkar draumur er að geta boðið upp á þannig upplifun þar að þú þurfir ekki að fara heim heldur getir bókað þér gistingu.“

Vilhjálmur og Dana tóku eins og áður segir við rekstri Hlöðueldhússins fyrir rúmu ári. Eftir að hafa leigt reksturinn fyrsta árið festu þau kaup á honum nú í haust. „Nú ætlum við að byrja á því að ná andanum eftir miklar framkvæmdir í sumar og haust. Við hjónin höfum gert þetta allt sjálf með hjálp vina og vandamanna. Það eru mikil tækifæri hérna og við viljum fjölga gistirýmum en það þarf auðvitað að finna fjármagn til þess.“

Gróðurhús í bragganum

Hlöðueldhúsið er, eins og nafnið gefur til kynna, í gamalli hlöðu sem hefur verið gerð upp og breytt í veglegan veislusal. Á móti hlöðunni er gamall stríðsárabraggi sem hefur verið breytt í gróðurhús en þar eru ræktaðar kryddjurtir og grænmeti sem er notað á veitingastaðnum. Hlöðueldhúsið hefur notið mikilla vinsælda fyrir hópa og hópefli ýmiss konar. Eldhús veitingastaðarins er hannað þannig að hópar geti hjálpast að við matreiðslu á veislumáltíðum sem allir njóta svo saman í kjölfarið.

„Við fáum mikið af hópum til okkar, vinnustaði úr bænum og fleira slíkt. Síðan höfum við verið að prófa okkur áfram með hefðbundna veitingastaðaopnun þess á milli. Það hefur aðallega verið fyrir gestina okkar í kúluhúsunum og Þykkbæinga en hefur gengið mjög vel,“ segir Vilhjálmur.