Rafhlaupahjól hafa á skömmum tíma orðið tiltölulega vinsæll fararmáti innanbæjar, enda um margt þægileg og fljótleg leið til að komast á milli staða þegar aðstæður eru með þeim hætti. Fyrirtæki hafa sprottið upp sem bjóða upp á þessi tæki til skammtímaleigu og margir hafa keypt sér þau og nota mikið.
Það er þó með þessa nýjung eins og margar aðrar að henni fylgja ekki aðeins kostir, gallarnir eru líka augljósir. Leigufarartækin liggja til dæmis víða eins og hráviði fyrir fólki á göngustígum og þar er líka iðulega ekið um á þessum tækjum á hraða sem er langt umfram það sem búast má við á gangstéttum. Þetta er nokkuð sem reynt hefur verið að taka á en nokkuð vantar því miður upp á árangurinn.
Mun verra er þó að þessu nýja farartæki hafa fylgt hættur sem leitt hafa til slysa, stundum mjög alvarlegra slysa, og það er nokkuð sem verður að gefa gaum. Þetta var meðal annars til umfjöllunar í erindi sem Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, hélt á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar fyrir helgi. Þar kom fram að slysum vegna rafhlaupahjóla hefði fjölgað til muna á síðustu árum og að rannsóknir sýndu að nýr hópur væri að meiðast í umferðinni.
Guðmundur nefndi einnig, sem er umhugsunarvert, að hjá ríflega helmingi þeirra sem ferðuðust með rafhlaupahjóli kæmi það farartæki í staðinn fyrir að ferðast gangandi. Dró hann þá ályktun af því að rafhlaupahjólið gæti ekki talist umhverfisvænn samgöngumáti, enda kæmu þau þar með í staðinn fyrir umhverfisvænasta samgöngumátann. Þetta á eflaust ekki síst við um ungmenni, en mörg þeirra nota nú rafhlaupahjól en notuðu áður fæturna, hvort sem var á reiðhjóli eða gangandi. Hlýtur það að teljast mun heilsusamlegra fyrir æsku landsins.
Þá benti Guðmundur á að rafhlaupahjól gæfu notendum sýndarstöðugleika. Ökumenn þeirra teldu stöðugleikann meiri en hann væri í raun og færu því gjarnan of geyst, en lítið þyrfti að fara úrskeiðis til að ökumaðurinn missti stjórn á rafhlaupahjólinu, eða smáfarartækinu eins og það er líka kallað í lögum sem samþykkt voru í sumar til breytinga á umferðarlögum.
Með þeim breytingum er reynt að taka á vandanum, til dæmis með því að takmarka hraða þessara nýju farartækja og með því að börn yngri en 13 ára megi ekki aka slíkum tækjum. Reynslan á eftir að leiða í ljós hvort þessar breytingar, auk breytinga sem lúta að akstri þessara tækja undir áhrifum, skila árangri í því að draga úr slysum. Vonandi verður þróunin sú, en það gerist þó ekki nema ökumenn rafhlaupahjóla átti sig á hættunum og sýni ýtrustu aðgát, auk þess að foreldrar stilli notkun barna sinna mjög í hóf.