Alþingiskosningar eru handan við hornið. Kjósendur standa frammi fyrir vali á milli fjölda flokka sem lofa öllu fögru ef þeir verða kosnir til valdsins. Hvað ætli sé að marka þennan loforðaflaum nú frekar en áður?
Flokkur fólksins hefur lagt fram fleiri þingmannamál á Alþingi en nokkur annar þingflokkur
Þegar Alþingi var sett hinn 10. september sl. lagði Flokkur fólksins fram 73 þingmannamál, þ.e. frumvörp og þingsályktunartillögur. Á þeim stutta tíma sem leið frá þingsetningu fram að þingrofi tókst okkur að mæla fyrir 19 þingmálum og koma þeim í umsagnarferli. Á hverjum einasta þingvetri þessa kjörtímabils hafa þingmenn Flokks fólksins lagt fram fleiri þingmannamál en nokkur annar þingflokkur. Við vorum kjörin til að berjast gegn fátækt og hvers konar misrétti og það höfum við verið að gera hvern dag á Alþingi með almannahag að leiðarljósi.
Enginn flokkur á Alþingi hefur sýnt aðra eins elju og baráttu gegn fátækt og óréttlæti og Flokkur fólksins
Enginn þarf að velkjast i vafa um að hjá Flokki fólksins fylgja efndir orðum. Það höfum við óumdeilt sýnt í verki.
Það er kominn tími til að rétta okkur stýri þjóðarskútunnar. Við munum tryggja það að allir verði velkomnir um borð, þar með talið öryrkjar, eldri borgarar, fátækt fólk og sjúklingar. Við munum ekki fleygja þessum hópum ósyndum í hafið með enga von um björgun eins og óhæfar ríkisstjórnir hafa stundað um árabil. Sú örbirgð, vonleysi, vanlíðan og ótti sem tugir þúsunda búa við í dag er mannanna verk! Stjórnvöld hafa með fullri vitund og vilja forgangsraðað fjármunum fyrir allt annað en fólkið fyrst.
Afnám persónuaafsláttar?
Síðustu jól tókst Flokki fólksins að tryggja frestun gildistöku umdeilds lagaákvæðis sem hefði að óbreyttu svipt þúsundir lífeyrisþega persónuafslætti sínum. Í vor tókst okkur að tryggja endurskoðun á lagaákvæðinu sem að óbreyttu mun svipta þúsundir lífeyrisþega persónuafslætti um næstu áramót. Ef við náum góðu brautargengi í komandi kosningum munum við beita okkur af öllu afli til að koma í veg fyrir að umrætt lagaákvæði nái fram að ganga hinn 1. janúar næstkomandi, þrátt fyrir að formaður Framsóknarflokksins og núverandi fjármálaráðherra hafi boðað að það sé ekkert því til fyrirstöðu að hans mati að þessi ógeðfelldu ólög taki gildi.
Ég hvet kjósendur til að íhuga hvort þeir vilji kjósa á þing flokka sem láta lítið fyrir sér fara milli kjördaga, og tæplega láta sjá sig í vinnunni, eða hvort þeir vilji kjósa Flokk fólksins sem hefur sýnt það á hverju ári með elju sinni og dugnaði að orðum fylgja efndir.
Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins. ingasaeland@althingi.is