Í Flóahreppi Sigurbjörn við gröf Fischers í Laugardælakirkjugarði.
Í Flóahreppi Sigurbjörn við gröf Fischers í Laugardælakirkjugarði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbjörn J. Björnsson, gæðatryggingastjóri hjá Algalíf og skákmeistari, hefur skrifað og sent frá sér bókina Hve þung er þín krúna, sögulega skáldsögu um heimsmeistaraeinvígi Boris Spasskís og Roberts Fischers í Reykjavík 1972

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigurbjörn J. Björnsson, gæðatryggingastjóri hjá Algalíf og skákmeistari, hefur skrifað og sent frá sér bókina Hve þung er þín krúna, sögulega skáldsögu um heimsmeistaraeinvígi Boris Spasskís og Roberts Fischers í Reykjavík 1972. Bragi Halldórsson skákmeistari er ritstjóri bókarinnar. „Ég þekki vel til skákmála og þetta einvígi skipar sérstakan sess í skáksögunni,“ segir Sigurbjörn um útgáfuna. „Þetta var rosaleg þrekraun fyrir alla.“

Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák, greindi frá því í skákpistli sínum í Morgunblaðinu sl. laugardag að Alþjóðaskáksambandið, FIDE, hefði útnefnt einvígið minnisstæðasta viðburðinn í 100 ára sögu sambandsins. Meira hefur verið fjallað um keppnina í Laugardalshöll en nokkurt annað skákeinvígi og bók Sigurbjörns er skemmtileg upprifjun á þessum merka viðburði. Hann rekur söguna, skyggnist á bak við tjöldin og lætur helstu persónur segja frá vandamálum, sem þurfti að leysa ef ekki ætti allt að fara í bál og brand. Hann leitar víða heimilda og getur þeirra í heimildaskrá, sem er sjaldséð í skáldsögum.

Bók fyrir alla

Sigurbjörn segist hafa verið með bók í maganum í sjö eða átta ár. „Ég var langt kominn með skáldsögu, sem ég hélt að yrði mín fyrsta bók, en í ágúst í fyrra fékk ég þá hugmynd að skrifa um einvígið á þennan hátt með þessu margradda sjónarhorni.“ Hann leggur áherslu á að markmiðið hafi ekki aðeins verið að segja skilmerkilega frá, samkvæmt heimildum, heldur ekki síður að skrifa bók um einvígið fyrir alla, óháð getu í skák. „Þessi bók er ólík öllum hinum um einvígið, því ég lýsi gangi þess frá degi til dags og læt sjónarhorn allra heyrast. Ég kafa djúpt ofan í líf þátttakenda meðan á einvíginu stóð.“

Einvígið fór fram þremur árum áður en Sigurbjörn fæddist. Hann segist fyrst hafa skoðað skákirnar í bók Freysteins Jóhannssonar og Friðriks Ólafssonar, Fischer gegn Spassky (1973). Sem stjórnarmaður Skáksambandsins hafi hann hitt Spasskí 2002 og eftir að hann hafi ákveðið að skrifa bókina hafi hann hellt sér í heimildavinnu. „Dagblöðin frá þessum tíma eru algjör gullnáma.“

Skákin hefur lengi verið helsta hugðarefni Sigurbjörns. Hann segist hafa byrjað að tefla við afa sinn, föður og bróður, haldið áfram sem nemandi í Seljaskóla í Reykjavík og byrjað að æfa markvisst fljótlega eftir að fjölskyldan flutti í Hafnarfjörð þegar hann var 11 ára. „Ég byrjaði á fullu í Skákfélagi Hafnarfjarðar á unglingsárunum.“ Hann hefur mest náð rúmlega 2.400 elo-stigum og er nú með um 2.300 stig. Hann hefur náð áföngum að alþjóðlegum titli og á löngum ferli stendur árangurinn á Skákþingi Reykjavíkur 2020 upp úr. Þá sigraði hann með níu vinninga af níu mögulegum. „Tveir nýjustu stórmeistarar Íslendingar, Vignir Vatnar og Guðmundur Kjartansson, voru þá á meðal keppenda,“ vekur hann athygli á, en frá næstiu áramótum öðlast Sigurbjörn rétt til að tefla á öldungamótum. „Það er heilmikil tilhlökkun.“