Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Nýtt fjölnota íþróttahús KR við Frostaskjól verður boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu í dag. Þetta staðfestir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar við Morgunblaðið. Auglýsing þess efnis var send á útgáfuskrifstofu EES á föstudag.
Kurr hefur verið í KR-ingum síðustu vikur vegna þess hve þetta útboð hefur dregist. Búist hafði verið við því að það myndi gerast í ágúst. Eva Bergþóra segir hins vegar að borgin hafi ekki fengið rétt gögn í hendur frá KR-ingum fyrr en 16. september.
„Þá gat vinna hafist við að rýna, breyta og bæta áður en gengið var frá útboðsgögnum,“ segir hún. Frestur til að skila inn gögnum í forvali er til 26. nóvember og eftir það taka við viðræður við valda verktaka.
Nýja húsið verður alls um 6.700 fermetrar og þar af verður íþróttasalur um 4.400 fermetrar. Í hliðarbyggingu er gert ráð fyrir skrifstofurýmum, lyftingasal, fundarsölum og fleiru að því er fram kemur í gögnum borgarinnar.
Umrædd framkvæmd hefur verið á teikniborðinu frá 2017. Framkvæmdin var samþykkt í borgarráði í maí 2021 og deiliskipulag ári síðar. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2024-2027 hefur borgin eyrnamerkt 2,5 milljarða króna til verksins.