Leifur Magnússon
Leifur Magnússon
Tveir stjórnmálamenn Samfylkingar hittust 1. mars 2013 til að skrifa undir skjal um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð.

Leifur Magnússon

Í stjórnarskrá Íslands er eftirfarandi birt í 40. grein: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Í stjórnsýslu ríkisins eru hefðbundið birtar heimildir í 6. grein fjárlaga, sem ber fyrirsögnina „Heimildir ráðherra“. Þar er að finna mislanga lista fyrir undirflokkana, „eftirgjöf gjalda, sölu fasteigna, ráðstöfun lóða, spildna og jarða, kaup og leigu fasteigna, kaup og sölu hlutabréfa og aðrar ráðstafanir vegna umsýslu félaga, samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni, og ýmsar heimildir“.

Þessi ákvæði eru hér rifjuð upp að gefnu tilefni. Tveir stjórnmálamenn Samfylkingar hittust 1. mars 2013 til að skrifa undir skjal með fyrirsögninni „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð“. Þar voru mætt til leiks Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarfulltrúi en í dag frambjóðandi til Alþingis, og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi skammtíma fjárlaga- og efnahagsráðherra en í dag kosningastjóri Samfylkingar. Undir nafni Dags í skjalinu er skráð „borgarstjóri, með fyrirvara um samþykki borgarráðs“.

Þess er að geta, að á tímabilinu frá 15. júní 2010 til 16. júní 2014 hét borgarstjóri Reykjavíkur Jón Gnarr. Fyrir ofan undirskrift Dags á skjalinu er reyndar að finna tvo litla bókstafi, „e.u.“, sem væntanlega var ætlað að staðfesta að hann hefði meðferðis formlegt umboð frá Jóni Gnarr til þessa gjörnings, og jafnframt að hann megi kalla sig borgarstjóra. Ekki er þó að finna neina vísbendingu í skjalinu sjálfu um að svo hafi verið háttað.

Í opinberri umræðu hefur ítrekað verið vitnað til þess, að samkvæmt þessu furðuskjali hafi farið fram staðfesting á sölu ríkisins til Reykjavíkurborgar á 11,8 hektara landspildu á svæði Reykjavíkurflugvallar, nánar tiltekið á suðvesturhluta flugbrautar 06/24, sem oft hefur verið nefnd neyðarflugbrautin.

Á þessu svæði vill meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur byggja þétta og háreista íbúðabyggð þrátt fyrir víðtæk andmæli íbúa Skerjafjarðar. Þá telja Isavia, flugrekendur og öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna að slík stórfelld uppbygging nálægt flugbrautunum muni skerða flugöryggi vallarins.

Í upphafi þessa pistils var minnt á grundvallarákvæði stjórnarskrár og fjárlaga varðandi sölu eigna ríkisins. Leit að lagaheimild til sölu á þessu tiltekna landi ríkisins í Skerjafirði hefur ekki borið árangur. Í nýlegri umfjöllun minni á Facebook óskaði ég eftir nánari upplýsingum frá lesendum, en einnig án árangurs. Í umræddu skjali, sem þau Dagur og Katrín undirrituðu 1. mars 2013, er hvergi vísað til lagaheimildar. Þess vegna leita ég hér enn á ný svara. Hvar er að finna lagaheimildina fyrir þessari meintu sölu á landi ríkisins í Skerjafirði?

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Leifur Magnússon