Ingólfur Ómar Ármannson las Pilt og stúlku eftir Jón Thorarensen þar sem Gróa á Leiti kemur við sögu og kom í hug: Afar blendið eðli ber eitruð sendir skeyti. Lygakvendið auðþekkt er enda kennd við Leiti

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Ingólfur Ómar Ármannson las Pilt og stúlku eftir Jón Thorarensen þar sem Gróa á Leiti kemur við sögu og kom í hug:

Afar blendið eðli ber
eitruð sendir skeyti.
Lygakvendið auðþekkt er
enda kennd við Leiti.

Skírnir Garðarsson sendir góðar kveðjur með ferskum limrum:

Hann Friðþjófur bóndi á Fossi

var fádæma auli og tossi,

og að sögn undir grun,

að hann sæi ekki mun,

á hægri eða vinstri á hrossi.

„Látum þetta nú vera, meðfæddur áhugi á hrossum er ekki sjálfsagður,“ bætir hann við. „Verra er ástand hjá Valda“:

Hann Valdimar bóndi á Völlum,
er vaskastur smali af öllum,
en að sögn undir grun,
að hann sjái ekki mun,
á nútíma konum og köllum.

Að síðustu rifjar Skírnir upp: „Í landsprófinu í den gaukaði prófdómarinn að okkur bræðrum miða sem á stóð. „Ef þið vitið muninn á lend og borrow þá náiði prófinu strákar.“ Hvað við bræður gerðum reyndar, Baldur bróðir með glans en ég með slefi. (Hér koma hagfræði og enska við sögu, en ég misskildi kallinn.)

Ég skjálfhentur skal á það benda,
og í skammarkrók kannski mun lenda,
var að sögn undir grun
að ég sæi ekki mun,
á sögnunum borrow og lenda.

Ég taldi eðlilegt að enskar sagnir myndu enda á „a“, en ekki w eða d. „Ungur var maður og vitlaus eitt sinn,“ eins og kellingin sagði.“

Nú er ár síðan eiginkona Péturs Stefánssonar fór á sjúkrastofnun. „Það er einmanalegt hér heima án hennar,“ skrifar hann á Boðnarmiði. „Ég sagði við hana síðast þegar ég heimsótti hana:

Einn ég sofna, einn ég vakna,
einn ég dvel með sjálfum mér.
Fyrri tíma sárt ég sakna
er svaf ég rótt í örmum þér.“

Að síðustu yrkir Ólafur Stefánsson í tilefni af því að 90 daga skammdegi hafi boðað komu sína:

Skammdegi er skollið á,
það skeður enn á ný.
Kalt þó sé á klónum þá,
við kvíðum ekki því.