María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves stendur yfir dagana 7. til 9. nóvember. Hátíðin fagnar í ár 25 ára afmæli og búast má við miklu lífi í miðbæ Reykjavíkur þessa helgi. Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, segir að spennan sé mikil og að fólk megi eiga von á öllu því besta sem er að gerast í tónlistarsenunni í dag.
„Þetta eru hátt í 100 listamenn og hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni á aðeins þremur dögum. Helmingurinn er frá Íslandi en hinn helmingurinn eru hljómsveitir og listamenn frá 20 löndum á borð við Bretland, Bandaríkin, Þýskaland, Kanada og Norðurlönd,“ segir Ísleifur.
Hlaupið á milli staða
„Það má finna allt á þessari hátíð. Þegar spurt er hver stefna hátíðarinnar sé þá er svarið einfaldlega það að þarna má í raun finna allar tónlistarstefnur. Þarna má finna indí-, popp-, rokk-, elektró- og danstónlist. Flóran er því mjög fjölbreytt. Áherslurnar eru þar að auki mismunandi eftir tónleikastöðum sem eru sex talsins: Fríkirkjan, Gaukurinn, Hafnarhúsið, Nasa, Kolaportið og Iðnó. Stærstu hljómsveitirnar eru jafnan í Hafnarhúsinu á meðan það ríkir rólegri stemning í Fríkirkjunni en ég held að fólk komi á Airwaves fyrst og fremst til að týna sér í flæðinu og hlaupa á milli staða til þess að sjá eins mikið og það getur.“
Vilja uppgötva eitthvað nýtt
Ísleifur segir það misjafnt hvað fólk sé spenntast fyrir. „Þeir sem koma erlendis frá eru spenntastir fyrir íslensku hljómsveitunum. Þeir þekkja vel íslenska menningu og tónlist og eru að leita eftir því að uppgötva eitthvað nýtt. Íslendingarnir eru hins vegar spenntari fyrir erlendu böndunum. Svo er það misjafnt hvort fólki finnist skemmtilegra að sjá litlu böndin á litlu stöðunum eða þá stóru böndin á stærri stöðum.
Það komast færri að en vilja að spila á hátíðinni þannig að þeir sem koma fram sluppu í gegnum nálaraugað. Það er því hægt að lofa fólki að þótt það þekki ekki hljómsveitirnar megi ganga að gæðum vísum. Ef hljómsveitin komst í gegnum valferlið þá er eitthvað að gerast með hana. Oft er það þannig að fólk sér hljómsveitina fyrst á hátíðinni og svo slær hún í gegn.“
Iceland Airwaves á 25 ára afmæli í ár og að sögn Ísleifs er engin þreytumerki að sjá og viðtökurnar alltaf jafngóðar.
„Við höldum ágætlega velli þrátt fyrir erfiðar aðstæður á markaðnum, sem er líka vandamál á alþjóðavísu þar sem allur kostnaður hefur hækkað. Mér sýnist við þó enda á svipuðum stað og í fyrra með gesti á milli sex til átta þúsund og helmingur þeirra frá útlöndum.“
Framsæknar konur áberandi
Sé rýnt í dagskrá hátíðarinnar má sjá að nóg er í boði fyrir áhugafólk um tónlist. Meðal íslenskra flytjenda eru Mínus, Celebs, Skrattar, Klemens Hannigan, Elín Hall, Hjálmar og Sykur. Meðal erlendra flytjenda má gefa gaum English Teacher, The Vaccines og Anish Kumar. Eins má nefna Alice Longyu Gao sem er kínverskur tónlistar- og gjörningalistamaður og hefur vakið athygli fyrir tónlist sem fellur undir svokallaða „hyperpop“-tónlistarstefnu en söngkonan Lady Gaga hefur ausið hana lofi.
Framsæknar kvennahljómsveitir eru áberandi en í Kolaportinu troða upp Lambrini girls á föstudagskvöld og cumgirl8 á laugardagskvöld. Báðar hafa þær vakið athygli fyrir pönk og beittan texta.
Ráðstefna samhliða hátíðinni
Athygli vekur að samhliða tónleikunum fer fram umfangsmikil tveggja daga ráðstefna þar sem málefni tónlistargeirans eru brotin til mergjar. Á ráðstefnunni kemur fram erlent fólk úr tónlistariðnaðinum eins og til dæmis Tim Burgess úr The Charlatans, Diana Burkot úr Pussy Riot sem og íslenskir listamenn á borð við Ragnar Kjartansson, Nönnu Hilmarsdóttur úr hljómsveitinni Of Monsters and Men og Júníu Lín Jónsdóttur, systur söngkonunnar Laufeyjar.
„Síðustu árin höfum við lagt sífellt meiri áherslu á ráðstefnuhluta hátíðarinnar þar sem þungavigtarfólk úr geiranum kemur fram. Með þessu framtaki erum við að leita aftur í ræturnar og kynna Ísland og íslenska tónlist,“ segir Ísleifur.