Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, gekk á dögunum í raðir ungverska stórfélagsins Veszprém frá uppeldisfélaginu og Íslandsmeisturum FH. Hann skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, gekk á dögunum í raðir ungverska stórfélagsins Veszprém frá uppeldisfélaginu og Íslandsmeisturum FH.

Hann skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi. Aron lék áður með félaginu á árunum 2015 til 2017 en viðskilnaðurinn var ekki góður og endaði meðal annars með hótunum um málsókn.

Þegar Aron kom heim fyrir síðasta tímabil sagðist hann vera kominn til að vera. Þá samdi hann við uppeldisfélagið og skilaði Íslandsmeistaratitli. Aðstæður breytast eðlilega og er Aron farinn aftur á brott.

FH-ingurinn viðurkenndi í samtali við EHF að hann hefði séð eftir því ef hann hefði ekki samþykkt samningstilboð Veszprém. Hann hafði fengið og hafnað nokkrum tilboðum frá öðrum stórum liðum í Evrópu en ákvað loks að stökkva þegar gamla félagið kallaði.

Landsliðsfyrirliðinn vill meina að hann eigi ókláruð verk í Veszprém. Að enda hlutina á réttu nótunum er gott og blessað og vill Aron eflaust vinna hina eftirsóttu Meistaradeild með félaginu.

Mikill missir er að Aroni úr íslensku úrvalsdeildinni í handknattleik en hann er langstærsta nafnið til að spila á Íslandi á þessum tíma ferilsins, 34 ára. Aftur á móti viljum við að sjálfsögðu hafa okkar bestu leikmenn í stærri og betri liðum í stærri og betri deildum. Það skilar sér til landsliðsins, deildarinnar hér heima og yngri iðkenda.

Aron er kominn aftur þangað sem hann á að vera, í atvinnuumhverfi með bestu leikmönnum í heimi. Vonandi gefur það íslenska landsliðinu aukakraft á heimsmeistaramótinu í janúar. Þar eru verðug verkefni fram undan, og best að aðalmennirnir séu að spila háklassahandbolta. Hann getur alltaf komið seinna heim í FH á nýjan leik.