Guðmundur Jón Kjartansson fæddist 27. apríl 1958. Hann lést 19. október 2024.

Útför hans fór fram 1. nóvember 2024.

Kær æskufélagi, skólabróðir og vinur okkar úr Réttó er fallinn frá alltof snemma.

Elsku Gummi var góður drengur og einlægur vinur.

Við vorum flest nýbúar í Fossvogi og Bústaðahverfi og mörg hver að byrja okkar skólagöngu í Breiðagerðisskóla og fylgdumst að út gagnfræðaskólann sem var Réttó. Við vorum ekki öll í sama bekk en flest úr sama árgangi.

Úr Fossvogi gengum við saman í skólann; Malli, Jenni, Gummi, Helga og Viddi og þurfti Gummi ávallt að bíða eftir Helgu þolinmóður í anddyri Búlands 28 og síðan var labbað til Vidda (vinar okkar sem féll frá 6. maí 2004) og upp í Réttó þar sem við Þyri og Edda ásamt krökkum í okkar hópi hittumst, lærðum, lékum og spiluðum vist á skólagöngunum.

Stór og góður árgangur 1958 ólst þarna upp og vorum við mikið saman frá 11 ára aldri til loka unglingsára þar sem margt var brallað bæði leyfilegt og óleyfilegt.

Eftir gaggó fórum við öll í mismunandi verkefni og mismunandi skóla og þar af leiðandi varð sambandið meira stopult í gegnum árin en við hittumst þó nokkrum sinnum og síðast ber að minnast 60 ára ferðarinnar sem Réttó-árgangurinn fór í saman austur fyrir fjall og við skemmtum okkur sem þangað komumst ótrúlega vel og Gummi þar á meðal okkar. Í þeirri ferð talaði Gummi um hversu glaður hann væri í vinnu sinni á Þingvöllum og að vera að vinna í náttúrunni eftir að hafa rekið Galleríið á Skólavörðustígnum til fjölda ára. Frábærir skólafélagar úr Réttó hafa verið ötulir að koma árganginum saman og það ber að þakka – tenginguna og sambandið.

Gummi sendi okkur stelpunum ávallt afmæliskveðju í gegnum árin og síðasta kveðjan frá honum í ágúst var umræða okkar á milli um að hittast fljótlega sem því miður varð ekki.

Takk fyrir allt elsku Gummi – hlýjuna og góðsemina.

Hjartans samúð til sonar Gumma, Kjartans Guðmundssonar, og fjölskyldunnar allrar.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Hinsta kveðja,

Edda Maggý Rafnsdóttir, Helga Guðmundsdóttir,
Þyri Rafnsdóttir.

Gumma kynntist ég í gegnum sameiginlegan vin okkar, Hauk Lárus, fyrir margt löngu. Félagarnir tveir voru saman við nám í Kaupmannahöfn og Gummi líktist okkur Hauki að því leyti að hann hafði mikinn áhuga á tónlist og knattspyrnu. Við Gummi héldum báðir með KR og gátum við því oft spjallað saman um bæði glæsta sigra og sár vonbrigði gegnum tíðina. Stundum hittumst við á KR-vellinum þegar stúkan fylltist af áhorfendum og stemningin var ólýsanleg.

Eftir að Haukur féll frá árið 2010 hittumst við Gummi af og til og áttum saman ánægjulegar stundir. Helst í tengslum við áhuga okkar á lifandi tónlist. Við fórum saman á marga tónleika, ásamt öðrum vini okkar, Kristjáni Linnet. Hljómsveitirnar Valdimar, Hjálmar, Prinsinn og Jónas Sig í uppáhaldi. Við sóttum marga eftirminnilega tónleika, meðal annars á Café Rósenberg, Grand Rokk, Nasa og í Gamla bíó. Stundum hituðum við upp heima hjá Gumma á Skólavörðustígnum, enda stutt að fara á vertshúsin í miðbænum til að hlýða á ljúfa tóna. Ég hitti Gumma einnig stundum í listagalleríinu sínu, örskammt frá heimili hans á Skólavörðustígnum.

Á síðustu árum skipti Gummi um gír og hóf störf í þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem hann undi hag sínum vel. Síðustu vikurnar bjó Gummi stutt frá mér í Sóltúni og heimsótti ég hann þar fyrir tæpum mánuði. Af honum var dregið, samt líkur sjálfum sér. Rifjuðum upp eftirminnilegar stundir og sameiginlega vini yfir kaffibolla. Íbúðin hans var smekklega skreytt listaverkum eftir íslenska meistara. Hann sýndi mér veglegt plötusafnið sitt og nefndi að hann myndi eftirláta syni sínum Kjartani dýrgripina. Við Kristján áttum einnig góða stund með Gumma síðasta kvöldið áður en hann kvaddi. Hann skildi vel það sem fram fór milli okkar og virtist sáttur að leiðarlokum.

Vottum Kjartani og fjölskyldu hans innilega samúð. Góður drengur er genginn.

Helgi Gunnlaugsson.

Guðmundur J. Kjartansson hóf störf sem landvörður í þjóðgarðinum á Þingvöllum vorið 2017. Þar með hófust kynni okkar sem aldrei bar skugga á. Gummi var einstakur öðlingur og ljúfmenni sem var sérstaklega gott að umgangast og ræða við. Hann var djúpvitur og reynsla hans úr alls ótengdum starfsvettvangi áður en hann kom til þjóðgarðsins varð okkur að miklu liði við ýmis störf.

Hann var nákvæmur, yfirvegaður og skipulagður til vinnu en um leið svo ljúfur að hann virtist varla skipta skapi en var samt fastur fyrir með skoðanir sínar. Hann naut sín að tala við ferðamenn, aðstoða og sinna erindum þeirra og átti auðvelt með þau. Það var gaman að koma honum til að hlæja og gleðjast með honum en það var líka hægt að leita ráða hjá honum sem lífsreyndum manni. Á meðan veikindi hans ágerðust stóð hann vaktina eins lengi og honum var frekast unnt í þjóðgarðinum. Honum leið mjög vel á Þingvöllum og það skynjaði ég svo sterkt þegar hann kom í sína hinstu ferð til Þingvalla fyrir rúmum mánuði þegar hann kvaddi okkur og Þingvelli.

Blessuð sé minning Gumma Kjartans og þakkir fyrir allt hið góða sem hann gaf af sér.

Einar Á. E. Sæmundsen.