Hólmfríður Guðbjörg Tómasdóttir fæddist 6. ágúst 1937. Hún lést 11. október 2024.
Útför fór fram 1. nóvember 2024.
Það er margt sem ég get sagt um þessa konu. Hólmfríður var gestrisin, góð, kærleiksrík og umhyggjusöm kona sem var annt um sína nánustu og öll af vilja gerð til að leggja öðrum lið hvort sem það var greiði eða spjall, hún var til staðar fyrir fólk.
Ég kynntist Hólmfríði í gegnum Jónínu sem var sambýliskona mín. Jónína var barnabarnið hennar og ég sá hvað hún var stolt af sínum afkomendum. Þau skipti sem ég kom í heimsókn til Hólmfríðar og Jóns var tekið vel á móti manni. Þau voru bæði mjög elskuleg og einstaklega gestrisin. Annaðhvort var manni boðið í mat eða kaffi, breytti engu máli, stundum var það bara gott spjall og leið mér vel í þeirra návist. Hólmfríður tók mér eins og ég væri einn úr fjölskyldunni og kom fram við mig þannig, enda þegar maður var hjálparþurfi þá var ekki langt að sækja það. Engir erfiðleikar voru hjá henni Hólmfríði, einungis lausnir. Þegar hjónakornin fóru til Kanada í þrjá mánuði leyfðu þau okkur að búa í sinni íbúð þar sem var aldeilis stærðarmunur því við Jónína vorum bara í stúdíóíbúð sem var ekki stærri en 32 fm. Heimilið þeirra var afskaplega huggulegt og það fór ekki á milli mála að Hólmfríður var góð húsmóðir. Í heimsóknum, hvort sem það var uppi í sumarbústað eða heima hjá þeim, leið mér alltaf vel. Hólmfríður mun ávallt vera í mínu hjarta og veit ég vel að þér líður vel núna og ert loksins búinn að hitta hann Jón sem var algjört gæðablóð enda var missir að honum.
Kæru Tómas, Gurrý, Bergþóra og Erna, barnabörn, barnabarnabörn, tengdasynir og tengdadóttir. Ég samhryggist ykkur öllum og munuð þið vera í mínum bænum. Ég bið góðan Guð að styrkja ykkur og varðveita um ókomna tíð.
Himneskt
er að vera
með vorið
vistað í sálinni,
sólina
og eilíft sumar
í hjarta.
Því hamingjan
felst í því
að vera með
himininn
í hjartanu.
Lifi lífið!
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Guðmundur Árni Sigurðsson.