Frambjóðendur Bandaríska þjóðin gengur til kosninga í dag og bendir allt til þess að nóttin verði spennandi.
Frambjóðendur Bandaríska þjóðin gengur til kosninga í dag og bendir allt til þess að nóttin verði spennandi. — AFP/Ryan M. Kelly og Roberto Schmidt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pennsylvanía er eitt af sjö svokölluðum sveifluríkjum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem verða haldnar í dag. Ríkið er talið eitt það mikilvægasta í ljósi þess að það er með flesta kjörmenn af öllum sveifluríkjunum

BANDARÍKIN

Hermann N. Gunnarsson

hng@mbl.is

Pennsylvanía er eitt af sjö svokölluðum sveifluríkjum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem verða haldnar í dag. Ríkið er talið eitt það mikilvægasta í ljósi þess að það er með flesta kjörmenn af öllum sveifluríkjunum.

Undirritaður er á ferð um ríkið ásamt hópi félaga og það er enginn vafi á því að það er kosningatímabil í gangi. Fyrsta stoppið í ríkinu var í verslun í bænum Chalkhill.

Jeremy Critchfield er eigandi verslunarinnar og blaðamaður ræddi við hann því hann var með stórt skilti til stuðnings Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana fyrir utan verslunina.

Af hverju ætlar þú að kjósa Trump?

„Bandaríkin voru stofnuð á grundvelli einstaklingsfrelsis og guðsgefinna réttinda. Frá stofnun Bandaríkjanna hafa hlutirnir breyst og þá sérstaklega á síðustu 40 árum. Stjórnmálastéttin og auðstéttin í þessu landi hafa flutt inn sósíalískt og dystópískt rusl sem gengur í berhögg við allt sem þjóðin var mynduð um,“ segir verslunareigandinn í samtali við Morgunblaðið.

„Donald J. Trump er á þessari stundu eini maðurinn – ásamt fólkinu í kringum hann – sem getur hjálpað okkur að snúa þessari þróun við, leyft hjólum hagkerfisins að snúast aftur og tryggt frelsi okkar aftur. Þetta er meðal ástæðna þess að ég ætla að kjósa hann.“

Hann telur að um 85% íbúa Chalkhill og nærliggjandi svæða muni kjósa Trump, en um er að ræða mikið dreifbýli. Miðað við öll skiltin til stuðnings Trump er það eflaust ekki mjög fjarri lagi.

Það er aftur á móti blekkjandi að horfa bara á dreifbýlu svæðin í ríkinu. Um leið og maður er kominn í þéttbýli, eins og til dæmis í borginni Lancaster, eru skilti til stuðnings Kamölu Harris forsetaframbjóðanda demókrata orðin mun fleiri en Trump-stuðningsskilti.

Dýrt spaug?

Á veitingastað í Lancaster ræddi einn úr ferðahópnum við þjón um stöðuna og hvað hann hygðist gera. Þjónninn var efnislega sammála Trump en virtist þó ekki ákveðinn í að kjósa hann því eiginkona hans er frá Púertó Ríkó.

Uppistandarinn Tony Hinchcliffe sagði brandara á kosningaviðburði Trumps þar sem hann sagði að Púertó Ríkó væri ruslaeyja. Í Pennsylvaníu eru yfir 400 þúsund Bandaríkjamenn sem eiga ættir að rekja til Púertó Ríkó og verður áhugavert að sjá hvort þessi ummæli uppistandarans reynast Trump dýrkeypt.

Annað sem maður tekur eftir á þessum tímapunkti í Pennsylvaníu er að það er ekki hægt að horfa á sjónvarpið án þess að sjá auglýsingar frá Trump og Harris. Auglýsingarnar eru allar svokallaðar árásarsauglýsingar, þar sem hvor frambjóðandi níðir skóinn af mótframbjóðandanum. Auglýsingar Trumps snúast aðallega um verðbólgu og útlendingamál og skilaboðin eru einföld: Kamala eyðilagði þetta, Trump mun laga þetta.

Auglýsingar Kamölu Harris hafa snúist að miklu leyti um aðgengi kvenna að þungunarrofi. Í þeim auglýsingum er fullyrt að Trump muni banna þungunarrof á landsvísu, sem hann hefur reyndar sjálfur útilokað að gera.

Ljóst er að baráttan er æsispennandi og allra augu eru á Pennsylvaníu. Samkvæmt RealClearPolitics mælist Trump með 48,3% fylgi á sama tíma og Harris mælist með 48% fylgi.